Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Blaðsíða 92
92 TMM 2013 · 1
Sigurður A. Magnússon
Ævintýri Lísu í
Undralandi 150 ára
Liðin eru tæp 150 ár síðan Ævintýri Lísu í Undralandi kom fyrst fyrir sjónir
lesenda. Sagan var samin af óframfærnum og málstirðum menntamanni
sem nefndi sig Lewis Carroll en hét í reynd Charles Lutwidge Dodgson og
kenndi stærðfræði í Oxford. Þetta var á sjöunda áratug 19du aldar, Viktoríu-
skeiðinu, og hann kærði sig ekki um að skírnarnafnið tengdist kjánalegum
barnabókum. Undir réttu nafni samdi hann spaklegar bækur um stærðfræði
og rökhugsun.
En Lísa litla hét réttu og fullu nafni Alice Liddell. Faðir hennar var deildar-
forseti með búsetu í Christ Church. Hann var því einskonar rektor og jafn-
framt yfirboðari dómkirkjunnar í Oxford.
Beint á móti heimili telpunnar, handanvið stóran garð, á númer sjö, bjó
Dodgson. Væri um stúdent eða kennara að ræða, fékkst heimild til að búa í
Christ Church, að því tilskildu að maðurinn væri ókvæntur.
Dodgson hafði ríkan áhuga á ljósmyndun. Af þeim sökum kom hann sér
í kynni við Alice og systur hennar tvær, Lorinu og Edith. Telpurnar urðu
fyrirsætur hans, meðan hann var að tileinka sér nýja tækni ljósmyndunar.
Framköllun ljósmynda tók á þeim árum drjúgan tíma og myndavélarnar
voru bæði stórar og þunglamalegar. Ekki var að því hlaupið að taka ljós-
myndir, einkanlega þegar fyrirsæturnar voru börn. En Dodgson kunni á
þessu lagið. Hann þuldi ævintýri eða lét telpurnar klæða sig upp. Auðvitað
var skemmtilegra að gera sig til.
Liddell-systurnar þrjár urðu þannig fyrstar allra til að heyra Ævintýri Lísu
í Undralandi. Dodgson sagði þeim það í langri bátsferð á Tempsá. Við vitum
að það gerðist 4. júlí 1862, því hann skýrði frá því í dagbók sinni. Eftir mikla
eftirgangsmuni af hálfu Alice skráði hann orðmargt ævintýrið í minnisbók
sína, skreytti það eigin teikningum og færði Alice að gjöf. Þremur árum síðar
gaf hann það á eigin kostnað út á prenti, en þá myndskreytt af John Tenniel,
hinum kunna teiknara tímaritsins Punch. Seinna meir kom Anthony Browne
til sögunnar. Myndir hans prýða til dæmis íslensku útgáfuna frá 1996.
Nú um stundir heyrast raddir þess efnis að Dodgson kunni að hafa haft
annarlegar hvatir gagnvart smámeyjum. Um það vitum við ekki baun. En