Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Blaðsíða 75
TMM 2013 · 1 75
Guðmundur D. Haraldsson
Vinnum minna:
Styttum vinnudaginn
Við viljum helst halda í þá trú að við höfum öll, hvert og eitt, dómgreind sem sé í
lagi. Jú, einhverstaðar höfum við hana, en til þess að brúka hana þarf góðan tíma í
samfélagi sem slítur fólki út og gerir örþreytt þrátt fyrir áratuga langa velmegun.
– Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir2
Undir lok árs 2008 áttu sér stað atburðir sem voru upphaf mikilla breytinga
fyrir íslenskt samfélag. Þessum breytingum er ekki enn lokið. Jafnframt
breyttust gildin, gildi eins og „græðum á daginn og grillum á kvöldin“ féllu
í ónáð. Ýmislegt sem var áður álitið gott og gilt, var það ekki lengur. Ýmis
vandamál tóku við, sem öllum er kunnugt um.
Eitt breyttist þó ekki. Þeir sem höfðu atvinnu, héldu áfram að vinna
mikið.3 Krafan um styttri vinnudag heyrist varla hérlendis og lítið sem
ekkert hefur heyrst af henni undanfarin ár.4 Það er eins og Íslendingar líti á
það sem kost, fremur en löst, að vinna mikið. Það er kominn tími til að þetta
breytist.
Á næstu síðum verður gerð grein fyrir því hvers vegna það ætti að stytta
vinnudaginn á Íslandi, hversu mikið er unnið hér miðað við nágrannalöndin,
og í stuttu máli gerð grein fyrir reynslu í öðrum löndum af styttingu
vinnudagsins.
En hversu mikið er unnið hérlendis? Skynsamlegast er að bera okkur
saman við lönd sem eru álíka þróuð og á svipuðum slóðum í heiminum.
Ef fjöldi árlegra vinnustunda á hvern vinnandi mann á Íslandi og í Evrópu
er skoðaður, kemur í ljós að íbúar annarra Norðurlanda5 og íbúar ýmissa
þróuðustu landa Evrópu6 – t.d. Belgíu og Frakklands – vinna að meðaltali
minna en íbúar Íslands gera, en einna helst er það fólk í umskiptalöndum –
þ.e. Póllandi, Slóveníu, Eistlandi o.s.frv. – sem vinnur meira.7 Svo dæmi séu
tekin voru vinnustundir vinnandi fólks hérlendis (að meðaltali) árið 2010
um sex stundum fleiri á viku en vinnandi fólks í Þýskalandi – næstum heill
vinnudagur! – og þremur stundum fleiri en í Frakklandi.8 Í töflu 1 má sjá
Ísland borið saman við önnur Norðurlönd með sama hætti.
1