Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Blaðsíða 46
46 TMM 2013 · 1
Ævar Örn Jósepsson
Villta vestrið í Wickede
Regnvotur brautarpallurinn nötraði undir fótum Bjarna Þorsteinssonar
þegar lestin rann útaf brautarstöðinni og inní myrkrið. Hann leit í kringum
sig. Þetta gat varla kallast brautarstöð og ofrausn að kalla þessa upphækk-
uðu gangstétt svo mikið sem brautarpall. Hann sá ekkert skilti, hvorki fast
né flettandi, lýsandi né lakkað, sem gat upplýst hann um hvar í veröldinni
hann var niðurkominn. Bjarni skellti svartri prjónahúfu á úfinn, skolhærðan
kollinn og fálmaði ósjálfrátt eftir ferðatöskunni en greip í tómt. Gretti sig
þegar hann mundi að hún hafði orðið eftir í Amsterdam. Ég veit hvar taskan
mín er, hugsaði hann og fikraði sig varlega yfir lestarteinana að uppljómuðu,
gulu húsinu handan þeirra, en hef ekki hugmynd um hvar ég er sjálfur. En
fyrst ég veit það ekki, bætti hann við í huganum, þá er smá séns að það viti
það heldur enginn annar.
Hann leit á klukkuna. Rúmur hálftími var liðinn frá því hann steig útúr
lestinni frá Amsterdam á aðalbrautarstöðinni í Dortmund og stökk beint
uppí næstu lest án þess að gefa sér tíma til að kaupa miða eða kanna hvert
hún var að fara. Sem betur fer stoppaði lestin og hann náði að forða sér útí
myrkrið rétt áður en lestarvörðurinn kom að honum. Forða sér hingað, hvar
sem þetta nú var. Hann kíkti innum gluggann á gula húsinu. Sá ekkert nema
hillur fullar af bókum. Brautarstöðin er bókasafn, hugsaði hann; þetta er
augljóslega mikill menningarbær. Svo rölti hann þangað sem fæturnir báru
hann með hendur á kafi í frakkavösunum og herðarnar uppundir eyrum,
feginn að hafa þó húfuna í þessari rigningu. Og peninga, nóga peninga til
að lifa af næstu vikur og mánuði. Töskunnar saknaði hann ekki, nema síður
væri. Í henni var ekkert sem hann kærði sig um.
Á þaki lágreists húss, steinsnar frá bókabrautarstöðinni, stóð nafnið
COLORADO stórum, skýrum stöfum og Bjarni skokkaði þessa fáu metra
sem hann átti ófarna þangað. Það sem blasti við honum innan dyra
auðveldaði honum ekki að staðsetja sig á jarðarkringlunni. Af holningu
gestanna og innréttingunum varð helst ráðið að hann væri einmitt staddur
í Colorado eða þar um slóðir. En þótt landafræði hefði aldrei verið hans
sterkasta hlið, þá vissi hann að það væri þó fjandakornið meira en hálftíma
lestarferð frá Dortmund í Þýskalandi til Colorado í henni Ameríku. Samt.
Þetta var ótrúlega líkt vestraknæpunum í bíó og, alveg einsog þar, þá datt allt