Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 70
70 TMM 2015 · 3
Kristín Guðrún Jónsdóttir
Ana María Shua. Mörg andlit
argentínskrar skáldkonu
Ana María Shua fæddist í Argentínu árið 1951. Hún hefur þegar skipað sér á
bekk með höfuðskáldum landsins en eins og kunnugt er hefur þjóð hennar
alið marga af helstu höfundum Rómönsku Ameríku. Þaðan hafa komið
höfundar á borð við Jorge Luis Borges, Silvinu
Ocampo, Adolfo Bioy Casares, Julio Cortázar og
Luisu Valenzuela svo að einhverjir séu nefndir.
Fjölskylda Shua átti ættir að rekja bæði til
Líbanon og Póllands og gyðinglegrar hefðar, í
senn sefardískrar og askenasískrar. Arfur hennar
er því margþættur. Upphaflegt eftirnafn Shua var
Shoua en því breytti hún þegar hún fór að gefa út
bækur. Shua útskrifaðist með meistarapróf í bók-
menntum frá Þjóðarháskólanum í Búenos Aires
og vann eftir það við textagerð á auglýsingastofu
og sem blaðamaður. Þegar herforingjastjórnin
tók völdin árið 1976 fór hún í útlegð til Parísar ásamt eiginmanni sínum og
sneri aftur heim fáeinum árum síðar.
Shua gaf út fyrstu bók sína aðeins sextán ára gömul, ljóðabókina Sólin
og ég (El sol y yo), sem var vel tekið og veitt nokkur verðlaun. Næsta verk
hennar kom þó ekki út fyrr en rúmum áratug síðar en það var skáldsagan
Ég er sjúklingur (eða Ég er þolinmóður) (Soy paciente, 1980), sem einnig var
lofuð og fékk Losada verðlaunin. Upp frá því hefur Shua unnið sleitulaust við
ritstörf og sent frá sér mörg en ólík verk: skáldsögur, smásögur, örsagnasöfn,
barnabækur, endursagnir á goðsögnum, þjóðsögum og ævintýrum, rit gerðir
og blaðagreinar, einnig bækur um skopskyn í gyðinglegri hefð, kvikmynda-
handrit og jafnvel matreiðslubók með „þjóðlegu“ ívafi. Ljóðrænt myndmál
og tilvísunarheimur kom strax fram í fyrstu bók hennar og er jafnan til
staðar misdulinn í fjölbreytilegu höfundarverki hennar.
Fyrsta skáldsaga Shua, Ég er sjúklingur, er skrifuð í skugga Óhreina
stríðsins svokallaða (Guerra sucia 1976–1982) sem hún sjálf taldi sig þó