Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 73
A n a M a r í a S h u a . M ö r g a n d l i t a r g e n t í n s k r a r s k á l d k o n u
TMM 2015 · 3 73
Grasafræði óreiðunnar hefst á stuttum kafla sem nefnist „Inngangur að
óreiðunni“ og slær tón bókarinnar. Hann er sagður skrifaður af Hermesi
Linneusi nokkrum sem titlar sig flokkunarfræðing, og er þar greinilega
vísað til hins goðsögulega sendiboða Grikkja og hins sænska föður nátt-
úrufræðilegra flokkunarkerfa. Í innganginum er meðal annars tæpt á því
hvernig orðið ruglar okkur í ríminu, handan þess ríkir glundroðinn, óreiðan
eða kaosið. Orðin styðjast við alhæfingar og einfaldanir, og halda hinni upp-
runalegu óreiðu í skefjum. Á Shua má skilja að of stíf flokkun sé, þegar alls
er gætt, óheilbrigð.
Bókin skiptist í tólf kafla. Titlar þeirra gefa góða hugmynd um efni
bókarinnar: „Sérkennileg dæmi“ (Ejemplos raros), „Um tímann“ (Acerca del
tiempo), „Af guðum og djöflum“ (De dioses y demonios), „Sjúk dóms grein-
ingar“ (Diagnósticos), „Tilbrigði“ (Variaciones), „Arabískar nætur“ (Noches
árabes), „Draumar“ (Sueños), „Um bókmenntir“ (Literarias), „Ófreskjur“
(Monstruos), „Handverk töfranna“ (Artesanía de la magia) og að lokum
„Óreiða“ (Caos).
Í Grasafræði óreiðunnar birtist löngun til að hafa reglu á hlutunum (og
flokka) en í sömu andrá að vera óháð flokkunum; löngun til að viðhalda
skipu lags leysinu og óreiðunni – og þar með ákveðnu frelsi, jafnvel mætti
segja ímyndunaraflinu og sköpunargáfunni. Má greina vantrú á hinn svo-
nefnda raunveruleika og vissuna um alla skapaða hluti sem einkennir vestræn
nútímasamfélög, þá er ekki síst átt við vísindin og vísindalega heimsmynd.
Allt er þetta sett fram af samspili glettni og kaldhæðni sem einkennir höf-
undinn svo mjög, og við má bæta: absúrd tilfinningu fyrir lífinu.
Glettni, tvíræðni og kaldhæðni er eitt höfuðeinkenni örsagna, að minnsta
kosti þeirra sem hafa verið skrifaðar af höfundum frá Rómönsku Ameríku,
auk orðaleikja og textatengsla. Þessi einkenni liggja sem grunntónn í höf-
undarverki Shua, sérstaklega örsögum hennar. Það leynir sér ekki að
Shua horfir á heiminn með augum kímni sem á það til að taka á sig hin
ólíklegustu stærðarhlutföll. Haft er eftir henni að vissulega sé hlutskipti
mannsins átakanlegt, en það er ekki síður hlægilegt; að í raun sé heimurinn
hreint út sagt fáránlegur.2 Þessi sýn leiðir þó ekki til vonleysis, heldur glittir
ævinlega í vonina gegnum orðið og frelsandi mátt þess.
Tími drauganna (Temporada de fantasmas) kom út árið 2004 og inni heldur
99 sögur. Í þeirri bók eru færri textar en í fyrri söfnum Shua. Bókinni er skipt
í níu hluta. Eins og sum heitin bera með sér er efniviðurinn kunnug legur:
„Leyndardómar skáldskaparins“, (Misterios de la ficción), „Úr raunveru legu
lífi“ (De la vida real), „Guðlegir duttlungar“ (Capricho divino), „Aðrar þjóðir,
aðrar goðsagnir“ (Otros pueblos, otros mitos), „Að sofa, að dreyma“ (Dormir,
soñar) og „Yfirnáttúruleg ringulreið hlutanna“ (El desorden sobrenatural de
las cosas). Efnið er Shua mjög hugleikið og endurtekur sig í verkum hennar,
en tæplega er þó hægt að segja að nálgunin endurtaki sig. Höfundur veltir
sífellt upp nýjum flötum og sjónarhornum.