Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 104
G u ð m u n d u r S . B r y n j ó l f s s o n
104 TMM 2015 · 3
áhrærir er orðið gervitungl nánast nýtt í málinu þegar þarna er komið sögu,1
en það felur í sér mjög öfluga andstæðu þar sem tungl er í hugum fólks eins
ekta náttúrulegt fyrirbrigði og hugsast getur. En skáldið lætur sem ekkert
sé og dvelur undir gervitungli rétt eins og náttúrubarn sem stendur úti í
tunglsljósi. Heiti bókarinnar vísar einnig til þess að ekki er allt sem sýnist
í Sovétríkjunum; og einnig er rétt að hafa í huga að gervitungl voru gjarna
tengd njósnum og ýmsu hernaðarbrölti sem Thor var alla tíð mikið í nöp við.
Titillinn Regn á rykið er beinlínis leikur að andstæðum en um leið liggur í
honum líknandi hugmynd – fyrir hvað gæti förumaðurinn verið þakklátari
en að regnið væti vegrykið? Þarna kallast líka á pólarnir himinn og jörð og
þá um leið Guð og maður sem leiðir okkur síðan á vit heilags Frans frá Ass-
isi, sem Thor fjallar mikið um í bókinni. Svipir dagsins, og nótt er kannski
margbrotnastur þessara titla. Fyrir það fyrsta eru augljósar andstæðurnar
dagur og nótt en þarna býr fleira undir. Hverjir eru svipir dagsins? Andar
á sveimi, andar liðinnar tíðar eða svipir næturinnar? Á raunsæislegan hátt
má svara því til að svipir dagsins séu svipir þess fólks sem Thor mætir á
ferðum sínum og nóttin þá einfaldlega hin svarta nótt, myrkrið sem Thor
er stundum á ferð í, til dæmis í járnbrautarvögnum. En slíkur lestur er ekki
við hæfi þegar ólíkindatólið Thor á í hlut – nærtækara er að líta til þess sem
ekki blasir við í fyrstu. Eru ekki svipir dagsins frekar þeir sem gengnir eru,
kannski fórnarlömb stríðsins sem er aðeins 15 ár í burtu og nóttin þá hin
myrka Evrópa eftirstríðsáranna með öll sín sár?
Sjálfur sagði Thor um þær þrjár bækur sem hér liggja til grundvallar:
„Ég hugsa aldrei um þær sem ferðabækur. Svipur [sic] dagsins, og nótt er
t.d. ekki skýrsla um túrisma eða landfræðilegar staðreyndir. Þetta er ein af
aðferðum mínum til að átta mig á þeim heimi sem ég lifi í og hvar ég stend
sjálfur í þeim heimi.“2 Segja má að skáletrunin mín í þessari tilvitnun sé
þungaviktarskáletrun. Því hér er undirstaða Thors Vilhjálmssonar í heim-
inum, í þeim raunheimi, en þó kannski enn frekar þeim handanheimi sem
greina má í þessum bókum.
Hér verður því haldið fram að þessar ferðabækur Thors innihaldi nokkuð
sem ég kalla guðfræði Thors Vilhjálmssonar. Í skrifum Thors leynist
tvíhyggja sem ekki verður skýrð nema sem ákveðin trú á, eða vitund um,
eitthvað æðra handan við mannlega tilveru.
Ágætt veganesti inn í þessa grein eru orð Þorleifs Haukssonar sem hann
viðhefur um sögumanninn í bók Thors Fljótt fljótt sagði fuglinn:
Allt tengist í andránni í huga hans, fortíð og nútíð, fornöld og samtími og tímalaus
heimur listarinnar, og með því að fela allt þetta í sér fær lýsing hans víðari skír-
skotun til einsemdar og lífsvanda hins vestræna manns á 20. öld.3
Hér tæpir Þorleifur á þáttum sem við fyrstu sýn virðast ekki sérstaklega sam-
stæðir en eru það svo sannarlega þegar betur er að gáð, enda gera skrif Thors
í því að binda þá saman. Þannig er andráin einskonar lím milli fortíðar og