Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 108
G u ð m u n d u r S . B r y n j ó l f s s o n
108 TMM 2015 · 3
fylgir lífinu og loks skynjar hann dauðann. Hann kemur að dauðanum í
lokin eins og dauðinn sé lokaerindi þess sem Guð sendir út í heiminn. Og
sem snöggvast má ímynda sér að þetta sé afstaða Thors, en svo er ekki því
að listin veit á áframhaldandi líf. Hún býr yfir sama guðlega mættinum og
orðið; hún er mystísk.
Í hugleiðingum sínum um tungumálið og miðlun þess heldur Walter
Benjamin inn á mystískar brautir tvíhyggjunnar. Hann gengur út frá því að
öll tjáning mannsins sé einskonar mál og hann gefur dæmi um slíkt, t.d. mál
tónlistarinnar, höggmyndalistarinnar eða mál réttarkerfisins.20 Samkvæmt
þessum skilningi eru áhrif Rembrandts á Thor mál listarinnar og málleysi
Thors mál hrifningarinnar. Benjamin gengur svo langt að segja að ekkert sé,
sem ekki eigi með einhverjum hætti hlut í málinu, því „að öllum er það eðlis-
lægt að tjá hvað inni fyrir býr.“21 Að lokinni þessari staðhæfingu kemur afar
mikilvægt innlegg. Hann segir: „Þessi notkun orðsins „mál“ er þó á engan
hátt myndhverfing, því að það er fullkomlega skiljanlegt að við getum ekki
ímyndað okkur neitt sem birtir ekki andlega eðlisveru sína í tjáningunni.“22
Þetta er með öðrum orðum staðreynd, sannleikur. Skýringin á því af
hverju Benjamin tekur fram með svo afgerandi hætti að ekki sé um mynd-
hverfingu að ræða er sú að undirlag kenninga hans um málið, bæði hið
almenna og mál mannsins, er guðlegt. Hér er á ferðinni dulspeki sem getur
verið erfitt að negla niður með áþreifanlegum hætti. Hér ræður hinn guð-
legi stofn málsins, hann kallast á við hinn andlega heim í hugmyndafræði
Platons eða hinn efsta guðlega heim gnóstanna. Og með sama hætti og í
þeim æðstu guðlegu heimum þá er málið guðlegt verkfæri, notað ýmist til
beinnar sköpunar eða myndunar goðsögunnar af sköpuninni. En af því að
við iðkum málið í hinum illa heimi þá náum við ekki að skilja í sundur það
sem er mállegt frá því sem er eðlislægt. Við búum yfir máli, það er partur
sköpunarinnar.
Um leið og málið er hluti sköpunarinnar er það þegið frá Guði – það er
hluti þess grundvallar sem sköpunarsagan leggur undir manninn svo hann
fái þrifist: „Sköpun Guðs fullkomnast við það að hlutirnir fá nafn sitt frá
manninum, sem málið eitt talar úr: í nafninu.“23 En hér er ekki aðeins um að
ræða nafnið sjálft, heldur er málið sem nafnið kemur úr samfélag sem, líkt
og gyðingdómurinn (sem Benjamin er sprottinn úr), lítur til sköpunarinnar
sem síns upphafs: „Hið óviðjafnanlega við mál mannsins er að dulmagnað
samfélag þess með hlutum er óefnislegt og eingöngu andlegt og hljóðið er
tákn fyrir það. Þessa táknrænu staðreynd nefnir Biblían þar sem hún segir
að Guð hafi blásið í manninn lífsanda: það er lífi, anda og máli.“24
„Ég veit ekki hvernig ég á að tala um þessar myndir.“ Þannig er byrjunin á
myndgreiningu Thors, upphafið. Þegar Thor nemur staðar við Rembrandt-
myndirnar þá hefur hann ferðast í gegnum safnið, „ferðast um ólíkar aldir
sögunnar sem birtust í yfirþyrmandi krystöllum sinna beztu anda“25 eins
og hann kemst að orði. Og hann segist líka hafa reikað „klukkustundum