Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 71
A n a M a r í a S h u a . M ö r g a n d l i t a r g e n t í n s k r a r s k á l d k o n u
TMM 2015 · 3 71
ekki vera að skrifa um. Sagan fjallar um sjúkrahússlegu karlmanns þar sem
sjúkdómurinn er nánast óskilgreindur eins og í réttarhöldum Kafka. Þessi
óskilgreinda sjúkrahússlega hefur verið túlkuð með tilvísun til harðstjórnar
Videla og félaga og allra þeirra bragða sem harðstjórar heimsins nota til að
gefa glæpum sínum faglega réttlætingu.
Ári síðar gaf Shua út smásagnasafnið Veiðidagar (Los días de la pesca,
1981). Sögurnar eru ólíkar að efni og gerð, en þær voru skrifaðar á löngu
tímabili. Titilsagan vakti töluverða athygli; stúlka fer daglega í veiðiferð með
pabba sínum og lýsir af nákvæmni aðferðum þeirra við veiðarnar. Má segja
að sagan sýni stríðnispúkann í Shua þegar kemur að kynhlutverkum. En
með næstu skáldsögu hennar, Ástir Lauritu (Los amores de Laurita, 1984),
fer hún enn lengra inn á þessi mið. Þetta er erótísk saga með tilheyrandi
kynferðislegum lýsingum og draumórum. Bókmenntagrein þessi hefur að
jafnaði verið töluvert karllæg en Shua tekst á listfengan hátt að kvengera
hana. Um leið og hún gagnrýnir eignarrétt karla á greininni tekst henni
að gera hana algerlega sannfærandi út frá kvenlegu sjónarhorni. Þar setur
meðal annars þungun aðalpersónu strik í hinn erótíska reikning; en ófrískar
konur og kynlíf hafa jafnan þótt einhvers konar tabú.
Í næstu bók sinni Syfjur (La sueñera, 1984) ræðst Shua í fjórðu bók-
mennta greinina: örsögur. Fyrir þær hefur hún orðið hvað frægust enda er
það örsagnaformið sem hún hefur mest dálæti á eins og oft hefur verið haft
eftir henni.1 Verður vikið að örsagnaverkum hennar sérstaklega hér á eftir.
Eftir Syfjur hefur Shua gefið út mjög fjölbreytilegt safn ritverka. Hún hefur
alltaf haft mikinn áhuga á þjóðsögum allra landa og unnið með þær eins og
þegar hefur komið fram. Hún hefur einnig unnið með margvíslegar hefðir
innan gyðingdóms en þriðja skáldsaga hennar Bók minninganna (El libro de
los recuerdos, 1994) fjallar um þrjár kynslóðir innflytjenda af gyðingaættum
í Argentínu. Þar blandast saman hinar ólíku gyðinglegu hefðir sem standa
að Shua, frá Miðausturlöndum og Austur-Evrópu. Í fjórðu skáldsögu sinni,
Dauðinn sem aukaverkanir (La muerte como efecto secundario) útgefin 1997,
breytir Shua um sjónarhorn og tekur fyrir áhrif íþyngjandi föðurímyndar
á uppburðarlítinn son sem segir sögu sína. Bókin er á köflum sundur-
lausar hugrenningar þar sem myndmál heimsslita er samofið framtíðarsýn
Argentínu. Í síðustu skáldsögu sinni, Þyngd freistingar (El peso de la
tentación, 2007), fer hún inn á svið útlitsdýrkunar og offituvanda nútímans.
Eins og sjá má fjallar Shua um hin fjölbreytilegustu efni, allt frá móður-
hlutverki og brjóstagjöf til heimspekilegra álitamála. Sama er að segja um
smásögur hennar. Auk fyrrnefnds safns, Veiðidagar, hefur hún sent frá sér
Á ferðalögum kynnist maður fólki (Viajando se conoce gente) sem út kom
1988 og Eins og góðri móður sæmir (Como una buena madre, 2001). Árið
2009 kom úrval smásagna úr fyrri bókum ásamt nokkrum óútgefnum
sögum undir titlinum Megirðu eiga áhugaverða ævi (Que tengas una vida
interesante) og tveimur árum síðar gaf spænskt forlag út úrval smásagna