Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 33
„… þa ð e r e i n s o g s é e k k e rt p l á s s f y r i r h e l g i í n ú t í m a n u m …“
TMM 2015 · 3 33
Það móðgast enginn út af smá guðlasti. […] Nei, það var bara ég sem fékk áfall þegar
ég áttaði mig á að ég var í raun að segja þeim að Guð væri ekki til og að það væri
óviðeigandi að viðra þá skoðun að hann væri til. Mér fannst ég hafa opinberað að trú
mín væri ekki annað en hugarfró og starf mitt hálfgert búningadrama. Ég reyndi að
biðja; ég bað fram á morgun en fann ekki sannfæringuna og að lokum var ég orðinn
svo örvinglaður að ég tók þá ákvörðun að skila hempunni og fá vinnu hjá bróður
mínum sem er pípulagningameistari. (60)
Hjörtur er þó ekki stærri í sniðum en svo að þessari glímu hans lýkur eftir
morgunsturtu og bolla af kaffi enda starf hans og lífsframfæri að veði. Að því
leyti er hann líklega ekki óraunsæislega mótaður af Guðrúnu Evu skapara
sínum.
Annars verður tæplega sagt að hið heilaga eða trúin í eiginlegum skilningi
sé umfjöllunarefni Englaryks. Vissulega kemur Jesús við sögu og setur strik í
reikninginn hjá Boulanger-fjölskyldunni og Ölmu þegar hún freistar þess að
feta í fótspor hans meðal hinna fyrirlitnu í Hólminum. Sjálf er hún framan af
of viss um reynslu sína til að hún takist á við hana. Alma og reynsla hennar
knýja fjölskylduna eða umhverfið heldur ekki til trúarglímu nema þá ef til
vill Hjört. Alma er sjúkdómsvædd og reynt er að lækna hana. Englaryk er
fyrst og fremst þroskasaga tánings þar sem togstreita, sjálfssköpun og „upp-
reisn“ kynþroskaskeiðsins beinist inn á nokkuð sérstæða braut í íslensku
samhengi. Hugsanlega er það þess vegna sem höfundur staðsetur söguna í
kallfæri við kaþólska trú þótt Alma sé eigi að síður að búa sig undir lútherska
fermingu.
Sá eini sem glímir í raun við trú sína í sögunni er séra Hjörtur sem lýsir
starfssjálfi sínu og prestsímynd svo:
Ég hef alla tíð litið svo á að í trúlausu samfélagi væri það mitt hlutverk að trúa fyrir
fjöldann. Það væri vinnan mín að hvíla öruggur í trúnni; til að fólk geti hallað sér að
mér tímabundið þegar þörf er á. Trúað gegnum mig, ef svo má segja.
– – –
Hlutverk mitt sem prestur, úr því að ég get ekki verið beinn tengiliður við guð-
dóminn af því að ég skil hann ekki, sjáðu til, og enn síður eftir guðfræðinámið …
en hlutverk mitt, altso, er þá að hjálpa fólki að beina tilbeiðslu sinni í átt að háleitari
gildum. (61)
Annars staðar túlkar hann hlutverk sitt svo að það sé
[…] að vera huggari, sá sem býr tilfinningum fólks siðaðan ramma og hefur umsjón
með seremóníum. Hver segir að ég geti ekki gert gagn án þess að vera endilega
brennandi af trúarsannfæringu? Sannfæringin er kannski einmitt hlutskipti
unglingsins. Lífið dregur tennurnar úr vissunni og við því er ekkert að gera. Enda
er gott og eðlilegt að efast, eðlilegt mannlegt ástand að vita ekkert fyrir víst. (63, sjá
og 229)