Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 27
„… þa ð e r e i n s o g s é e k k e rt p l á s s f y r i r h e l g i í n ú t í m a n u m …“
TMM 2015 · 3 27
Frammi fyrir Sigrúnu stendur maður sem henni þykir ótrúlega breyttur. Úr
baksvip hennar les hann á hinn bóginn ótrúlega seiglu. Hún virtist óbuguð.
Þó á hún eftir að brotna að minnsta kosti um stund þegar hún reikar um
götur Reykjavíkur eins og í „dimmum dal“ en heldur skyndilega að Drottinn
sé kominn til borgarinnar og bíði hennar í íbúð við Barónsstíg.30
Séra Ásgrímur er prestur sem glímir við tilvist hins illa frammi fyrir boð-
skapnum um kærleiksríkan skapara líkt og dætur séra Símonar Flóka í Efstu
dögum. En þegar á reynir heldur trú hans ekki, öfugt við séra Símon. Hann
hefur hlutverkaskipti við skjólstæðing sinn og verður þar með mannlegri en
hann var í upphafi.
Séra Katrín í Náðarkrafti
Auðvelt er að negla söguna Náðarkraft niður í tíma og rúmi. Hún gerist
á sólarhring, nánar til tekið frá mánudagskvöldi til þriðjudagskvölds, um
hásumarið 1999. Sögusviðið eru Vogarnir og Heimarnir í Reykjavík með
afleggjurum sem teygja sig niður á Súfistann í Máli og menningu, um
Hlíðarnar og niður í Fossvog. Þetta er fjölskyldusaga. Hjónin Baldur Egilsen
og séra Katrín Sigurlinnadóttir eru aðalpersónur sögunnar, þó frekar hann
en hún. Næst koma börn þeirra tvö, heimilisvinurinn Geiri og fólkið sem
stóð þeim næst í Hreyfingunni (þ.e. Fylkingunni). En eins og allar fjöl-
skyldur eiga þau sér forsögu sem er rakin. Foreldrar Katrínar eru að austan
en gerast Suður-Íslendingar og setjast að í Karfavogi. Í föðurlegg á Baldur
aftur á móti rætur í íslenskum stalínisma. Hjónunum er lýst sem „hug-
sjónaleg[um] munaðarleysingj[um] frá annarri öld“. (223) Skipbroti þeirra
er lýst svo:
Þau leituðu frelsis en voru arftakar málsvara ófrelsis, þau kröfðust jafnréttis en voru
arftakar málsvara kúgunar, þau trúðu á samneyti allra manna en voru arftakar mál-
svara grimmdarverka og blóðbaðs.
– – –
Þau trúðu því að maður ætti að leggja á djúpið. Þau héldu að til væru verðmæti sem
peningar gætu ekki mælt og fólk sem væri ekki falt.
– – –
Þau voru úr annarri vídd. Þau voru svipir. Þau voru síðustu sósíalistarnir. (223–224)
Börn þeirra, Sunneva og Sigurlinni, eru aftur á móti af „fyrst[u] tilvistarleg[u]
misgengiskynslóðin[ni]“. (47) Öll leitast þau eftir að samræma líf og tilveru
og njóta hins góða, ekki síst góðra samvista.
Katrín er nútímalegur prestur að því leyti að hún er kona á góðum aldri
sem söðlað hefur um og gerst prestur eftir að hafa verið kennari um árabil.