Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 41
TMM 2015 · 3 41
Kristín Ómarsdóttir
Því meira fannfergi
því meira fjör
Viðtal við Gerði Kristnýju
Fyrsta ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Ísfrétt, kom út þegar hún var tuttugu og fjögurra
ára. Í bókinni birtast ljóð mótaðs og þroskaðs skálds, hér er líka að finna brunn að
yngri verkum. Næst komu út skáldsagan Regnbogi í póstinum og smásagnasafnið Eitruð
epli. Öldina hóf Gerður með leikriti og nýrri ljóðabók, Launkofa, síðan kom út röð
barnabóka. Þá gróf hún upp og opinberaði áratugagamalt mál úr Hafnarfirði og sagði
okkur sögu af fordæmalausri misnotkun í Myndinni af pabba – Sögu Thelmu. Barna-
bækur Gerðar taka hillu á bókasafninu, fimm fyrstu ljóðabækurnar komu út í ritsafni
vorið 2014, nýjasta ljóðabókin, Drápa, var gefin út síðastliðið haust.
Tungumál Gerðar Kristnýjar er beitt, heitt/kalt, mjúkt, árásargjarnt, auðmjúkt,
myndirnar eru dregnar á hárfínan og óvæntan hátt, hún er fim með orðabogann,
hittin, skotglöð, djörf og lífskát og sýnir manni gjarnan hina hliðina: sjónarhorn
kvenna sem þagað hefur verið yfir í þúsund ár, veltir við viðteknum hugmyndum eins
og steinum, hleður nýjar og aðrar vörður. Ljóðin skera í hjartað, orðin meiða og græða,
fegurðarskyn Gerðar er agað og frjótt.
Gerður Kristný hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Blóðhófni
árið 2010, bókin var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún
hlaut Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir bókina um Thelmu Ásdísardóttur og hefur
hlotið mörg fleiri verðlaun og viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Fyrstu tíu ár ritferilsins
starfaði hún líka sem blaðamaður.
***
Ég byrja á að þakka þér fyrir að koma í viðtal við mig fyrir Tímarit Máls og
menningar. Gerður Kristný, viltu segja mér hvar þú ert fædd, hvað heitir
mamma þín, pabbi þinn, áttu systkini, hvar ólust þið upp?
Ég á mömmu sem heitir Ingunn Þórðardóttir og hún er frá Litla-Fjarðar-
horni á Ströndum, pabbi minn heitir Guðjón Sigurbjörnsson og er alinn upp
hér í Reykjavík, ég er alin upp í Háaleitishverfinu og aðallega í Safamýri. Einu
sinni var ég næstelst af fjórum systkinum en nú er ég í miðjunni af fimm.
Hvar ertu fædd og hvenær?
Ég er Reykvíkingur frá stefni og aftur í skut, fædd hér og upp alin. Ég
fæddist 10. júní árið 1970, sumarið sem Led Zeppelin spilaði í Höllinni.