Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 72
72 TMM 2015 · 3
B ó k m e n n t a h á t í ð
Shua, Gegn tímanum (Contra el tiempo) en þær valdi Samanta Schweblin,
yngri skáldsystir hennar frá Argentínu.
En víkjum aftur að örsögum Shua. Í smáprósaverkinu Syfjur eru 250
örsögur sem hverfast flestar á einn eða annan hátt um svefn og drauma,
martraðir og vöku, og hið óræða bil milli svefns og vöku. Í þeirri bók endur-
speglast helstu höfundareinkenni Shua: frjótt og leikandi ímyndunarafl,
óvænt sýn á hlutina. Hún ögrar viðteknum hugmyndum og gildum og
opnar í sífellu dyr að nýrri veruleikasýn. Oft spyrðir hún saman þverstæður
í mannlífinu og teflir fram andstæðum hins raunverulega og óraunverulega
eða fantasíunnar. Og sjaldan er húmorinn langt undan – bæði háðskur og
hlýlegur – þótt undirtónninn megi teljast alvarlegur. Í Syfjum má greina eins
konar hliðstæðu þess að dreyma og ímynda sér aðra og annars konar veröld
og sköpunarferlisins við að skrifa, þessarar hliðstæðu gætir einnig í síðari
verkum hennar.
Næsta bók Shua með örsögum var Hús geisjanna (Casa de geishas) sem kom
út árið 1992 og inniheldur 215 sögur. Af titlinum að dæma mætti halda að
hér væri á ferðinni bók um hinar frægu japönsku konur. Þær koma vissulega
við sögu en aðeins í fyrsta hluta bókarinnar þar sem Shua leitast við að svipta
hulunni af geisjunum dularfullu, ef til vill mætti segja að henni sé í mun að
hrekja algengar hugmyndir um þær sem eru viðloðandi á Vesturlöndum. Að
minnsta kosti tekst henni að sjá í þeim furðulegustu óra listalífsins. Hér er
tekist á við margvíslega þrá mannverunnar, óra hennar, langanir og fýsnir.
En geisjurnar, sérhæfðar á mismunandi sviðum, geta komið til móts við allar
þessar ólíku hvatir. Bókinni er skipt í kafla eins og síðari örsagna söfnum
Shua: sá fyrsti ber titil bókarinnar, næsti nefnist „Tilbrigði“ (Versiones)
og sá þriðji og síðasti „Aðrir möguleikar“ (Otras posibilidades). Titlarnir
endurspegla þörf Shua fyrir að endurhugsa staðlaða skynjun og túlkun á
veruleikanum – gegnum „aðra möguleika“; sömuleiðis mann kyns söguna,
bókmenntir, vísindi og í raun allt sem lifir og hrærist. Eins og margir sem
skrifað hafa örsögur leitar hún fanga í gömlum, klassískum textum í síðari
hluta bókarinnar, þjóðsögum og ævintýrum sem flestir þekkja, og veltir upp
nýjum möguleikum á framvindu þeirra og túlkun. Þannig gefur Shua færi
á öðrum endalokum, annarri útleggingu, eins konar endursköpun sem er
nátengd sköpunarferlinu sjálfu.
Árið 2000 kom út þriðja örsagnasafn Shua, Grasafræði óreiðunnar (Botán-
ica del caos) með 190 sögum. Titillinn virðist þversagnakenndur en hér
leitar Shua til hinnar upprunalegu óreiðu. Margt er lagt á vogarskálarnar,
til dæmis allt skipulag sem við mannfólkið höfum komið á í þeirri veröld
sem við byggjum, skipulag sem við tökum oftast sem gefnu. Einnig veltir
hún fyrir sér skynjun okkar á tímanum; og hvernig við notum orðið til
að koma skipan og reglu á fyrirbærin í kring um okkur, en þegar öllu er á
botninn hvolft segja orðin harla lítið um „sannleika“ fyrirbæranna. Þau hylja
óreiðuna og fáránleikann með eins konar blekkingu.