Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 101
TMM 2015 · 3 101
Eiríkur Örn Norðdahl
Að lesa Ljósmóður
Jafnvel nú þegar ég ligg hér í Dauðs manns firði ein og yfirgefin, nú þegar leggöng
mín eru börkuð af limunum sem herjuðu í þeim, nú þegar ég hef verið flæmd
frá heimaslóðunum og krakkar hlaupa á eftir mér og húsbændurnir siga á mig
hundum, jafnvel nú spyr ég hvers vegna. Hvers vegna sá Guð í vísdómi sínum ekki
breyskleika minn?
Ljósmóðirin – Bls. 158
Að lesa Ljósmóðurina eftir Kötju Kettu er að þreifa á hinu mannlega í hinu
dýrslega og hinu dýrslega í hinu mannlega, þreifa á kynfærum og troða
höndunum upp í gapandi sár, teygja húðir annarra yfir bein sín og spila
frummenn, spila norræna alnasíska náttúru-
rómantík, spila hið óskiljanlega einsog það sé
manni skiljanlegt, af sannfærandi öryggi sem
hlýtur samt alltaf að vera látalæti og gráta fjar-
lægðina, látalætin, gráta að maður komist aldrei
nær sannleikanum. Að lesa Ljósmóðurina eftir
Kötju Kettu (í brjálæðislegri þýðingu Sigurðar
Karlssonar) er að standa sveittur í forinni upp að
öxlum, svamla í andnauð af eymdinni ósofinn,
lúinn og drifinn áfram af lífslöngun, greddu, ást
og mannhatri. Að lesa Ljósmóðurina eftir Kötju
Kettu er að finna fyrir hverri taug einsog hún
væri trjárætur, að þrá hömlulaust alla heimsins fullnægju og finna ekki til
þess að nokkuð skilji mann frá kaldri moldinni undir fótum sér, lynginu eða
grjótinu, nema í besta falli veikur viljinn. Að lesa Ljósmóðurina eftir Kötju
Kettu er að óttast eymdina bakvið gluggatjöld nágrannans, óttast harminn
í augum náungans, óttast orkuna sem hleypir lífi í mannfólkið, óttast
mannbótasinna, óttast einræði skipulagsins, hinn marserandi þankagang
beturvitanna, óttast hugsanir sem eru í laginu einsog skriðdrekar. Að lesa
Ljósmóðurina eftir Kötju Kettu er að óttast náttúruna. Óttast eðlið. Óttast
að geta ekki strammað sig af. Að lesa Ljósmóðurina er að óttast sjálfan sig.
Sjá sjálfan sig annars staðar og óttast. Að lesa Ljósmóðurina eftir Kötju
Kettu er að vera þakklátur fyrir friðinn, fyrir þögnina, hugarróna, þakklátur