Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 103
TMM 2015 · 3 103
Guðmundur S. Brynjólfsson
„Hagið yður að hætti
förumanna“
– um tvíhyggjuna í ferðabókum Thors Vilhjálmssonar
Þegar Thor Vilhjálmsson gekk Jakobsveginn má segja að hann hafi ferðast
að hjarta þjóðarinnar. Hann gekk burt, fór utan – en samt heim. Nú í ágúst
hefði Thor orðið 90 ára hefði hann lifað – en hann fór, nokkuð við aldur en
þó of snemma. Hann fór, en fór þó hvergi. Síðasta ferðasaga hans var lík þeim
hinum fyrstu, hún leyndi á sér.
1. Inngangur
Á árunum 1959 til 1961 komu út þrjár ferðabækur eftir Thor Vilhjálmsson:
Undir gervitungli sem er að megninu til reisubók skáldsins úr boðsferð til
Sovétríkjanna; Regn á rykið, en um það bil helmingur hennar er ferðabók
þar sem lengst af er fjallað um Ítalíu; þriðja bókin, Svipir dagsins, og nótt,
er ferðasaga um Evrópu. Þessar bækur mynda heild í höfundarverki Thors.
Þær eru samofnar í tíma, koma út ein á ári, þrjú ár í röð. Þær eru skrifaðar í
skugga atómsprengjunnar og á meðan uppgjör síðari heimsstyrjaldarinnar
var enn í fullum gangi og eru þannig í sífelldu samtali við yfirvofandi endalok
eða dauða. Þær einkennast allar af stílköflum sem kalla mætti vitundarflæði
þó að jafnframt sé um raunsæja ferðafrásögn að ræða. En síðast en ekki síst
er mikilvægt að á ritunartíma þeirra er Thor mjög róttækur og nánast eins
og holdgervingur hins guðlausa existensíalisma Parísar í íslenskum hug-
myndaheimi; og því er meiri áskorun í því fólgin en ella að draga þaðan fram
þræði dulrænnar tvíhyggju.
Það er fagurfræðileg tvíhyggja fólgin í því að bækurnar eru ekki það sem
þær virðast í fyrstu; það er að segja hreinræktaðar ferðabækur. Á sama hátt
má kalla það fagurfræðilega tvíhyggju hversu textinn er klofinn á milli þess
að vera raunsær og flæðandi, allt að því draumkenndur. Enn er tvíhyggja
fólgin í því hvernig hinn róttæki Thor, og á stundum kaldhamraði exis-
tensíalisti, hverfur til fullkominnar trúarlegrar dulhyggju á köflum. Þá er
enn ótalið að titlar þessara bóka eru margræðir og má vel túlka þá marg-
ræðni sem birtingarmynd tvíhyggju. Hvað fyrstu bókina, Undir gervitungli,