Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 23
„… þa ð e r e i n s o g s é e k k e rt p l á s s f y r i r h e l g i í n ú t í m a n u m …“
TMM 2015 · 3 23
Malla: Af hverju lætur Guð allt hið illa viðgangast í veröldinni?
Það er ekki Guð, sagði Flóki þreytulega, það er maðurinn.
Vía: Pabbi minn, það voru fimm milljónir af sakleysingjum gasaðir af nasistum.
Heldurðu að eitthvað af þessu fólki hafi ekki beðið Guð um hjálp?
– – –
Vía: Og Guð lætur það viðgangast?
Flóki: Nei, það er maðurinn sem lætur það viðgangast!
Malla: En hvað er Jesús þá að meina þegar hann segir, æ, þú manst ritningarstaðinn
sem ég valdi þegar ég fermdist:
Allt sem þú vilt skal ég gera fyrir þig …
Flóki: Hvers sem þér biðjið og beiðist þá trúið að þér hafið öðlast það og þér munuð
fá það. (211–212)25
Efstu dagar er þó ekki aðeins áhugavert viðfangsefni í þessari grein vegna
þeirrar prestsímyndar sem þar er dregin fram. Aðferðin sem höfundur beitir
við að skapa prestinn er ekki síður áhugaverð. Í sögunni kemur hálfbróðir
og tvífari Símonar Flóka, Símon sagnfræðingur, fram sem sögumaður og er
tengiliður milli prestsins og lesenda og firrir um leið höfundinn sjálfan að
nokkru leyti ábyrgð á þessu sköpunarverki sínu. Bendir þetta til að prestur
sé það framandi fyrirbæri í samtímanum að nota þurfi aðrar boðleiðir til að
miðla mynd hans en þegar aðrir eiga í hlut, að minnsta kosti ef presturinn
gegnir hlutverki jafn fyrirferðarmikillar sögumiðju og raunin er með Símon
Flóka.
Presturinn í Efstu dögum er dæmigerður nútímamaður af hippakyn-
slóðinni þótt ekki gangi hann henni heilshugar á hönd. Hann vex í áföngum
inn í prestshlutverkið, er í fyrstu örlítið á skjön við það en mótast síðar af
því. Verður loks fyrir trúarlegri reynslu sem sannfærir hann um heilagleika
hins hversdagslega og auðveldar honum að sameina helgi og hversdag. Hann
stendur loks vörð um kirkjuhúsið fyrir átroðslu hins ágenga veruleika og
dauðveikur ver hann trúna í átökum við ungar dætur sínar.
Séra Ásgrímur í Vetrarferðinni
Vetrarferðin, viðamikil skáldsaga Ólafs Gunnarssonar, er Reykjavíkursaga.
Hún gerist að mestu í síðari heimsstyrjöldinni, nánar til tekið frá sumri
1943 til vors 1948. Einstökum sögupersónum er síðan fylgt út fyrir hið
eiginlega sögusvið, einkum sjómönnum sem sigla með fisk til Bretlands og
farmönnum sem fara vestur um haf.
Vetrarferðin er trúarlegasta verkið sem hér er fengist við. Margar sögu-
persónurnar ákalla Guð hátt en þó fremur í hljóði í neyð sinni. Á það ekki
síst við um aðalpersónuna, veitingakonuna Sigrúnu. Hún rambar á barmi
ástandsins með niðurlægingu þess og skömm og lifir því nærri jaðri sam-
félagsins. Hún gengur bókstaflega á hólm við Guð sinn og setur honum