Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Blaðsíða 118
G u ð m u n d u r S . B r y n j ó l f s s o n
118 TMM 2015 · 3
sú hugmynd að maðurinn sé ekki einn í heimi en að hann hagi sér þannig.
Hann hagar sér í heimi eins og þeir sem ekki kunna að haga sér við hina
helgu dóma í Assisi: „Maðurinn hefur setzt til að spila á takkaborð guðs
almáttugs og vekja og lægja veðrin með tækni sinni“ etc. etc. Hér eru stór
orð höfð um manninn sem kastað var út í veðrin og nú kemur Thor einmitt
að þessu atriði. Maðurinn hefur ekki einungis stolist til þess að setjast í
hásætið heldur er hann þar að fikta við þau öfl sem hann sjálfur átti að
kljást við á eigin forsendum, með Guði en ekki einn. Maðurinn hefur, segir
Thor, tekið til við að „vekja og lægja veðrin með tækni sinni“ og í fávisku
sinni telur hann sig geta „drottnað yfir náttúrunni og leikið sér að hinum
myrku kröftum hennar“. Í anda gnóstanna er náttúran myrk og fáfræði ríkir
í heimi. Fátt virðist nú til bjargar að mati Thors og hann segir að lokum:
„Kannski er ég kominn langt frá Assisi – kannski er ég að nálgast Assisi.“
Í þessum „ringlaða og tætta heimi“, eins og Thor kemst að orði, er það
vitundin um eitthvað æðra sem getur komið til bjargar og þess vegna skapar
kaþólskan í sínu fegursta eðli „saknaðarkennd“. En það er ekki nóg að sakna.
Thor vill sætta heiminn en ekki sundra og þess vegna fallast róttækni hans
og guðfræði í faðma í Assisi.
4. Jafnvægislist hins sterka
Erasmus var alltaf að skrifa á móti styrjöldum og berjast fyrir friðarhugsjón sinni á
tímum þegar styrjaldir geisuðu stöðugt og menn hikuðu ekki við hin fólskulegustu
níðingsverk til að klekkja á fjendum sínum: Þegar dýrin herja hvert á annað get
ég skilið það og fyrirgefið því að fáfræðin stýrir athöfnum þeirra, segir hann: En
það ætti ekki að þurfa að segja mönnum að stríðið hljóti að vera óréttlætanlegt því
allajafnan bitnar það síður á þeim sem búa sig undir að heyja það; venjulega er það
saklaust fólk sem ber byrðar styrjaldarinnar, hin vansæla alþýða sem hvorki hagnast
á sigri né ósigri. Þeir eru sárast leiknir sem eiga enga sök á því.
[…] Allur heimurinn er eitt sameiginlegt föðurland, sagði Erasmus. Þó að furstar
og kirkjuhöfðingjar og páfarnir, keisarar og kóngar gerðu honum gylliboð og sæktust
eftir fylgi hans og ráðuneyti og byðu honum virðingar við hirðir sínar, lét hann aldrei
ánetjast neinum og leyfði engum að skerða sitt andlega frelsi.65
Í þessum texta mætti skipta út nafni Erasmusar og setja inn nafn Thors
Vilhjálmssonar þess í stað án þess að sannleiksgildi textans hrakaði við það
og með nafni Thors í stað Erasmusar er þessi texti engu lakari sagnfræðileg
heimild en sá sem stendur hér að framan.66
Áður en vikið verður nánar að þessum texta Thors er gagnlegt að grípa
niður nokkrum síðum aftar í sömu bók, því þar liggur undirbyggingin að
ímynd Erasmusar frá Rotterdam. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun
að sjá jafnaðarmerki á milli ferðalaga Thors sjálfs um hámenningarborgir
Evrópu og þess sem hann hefur að segja um Erasmus. Hér segir frá draumi
Erasmusar um að heimsækja Ítalíu til að kynna sér vöggu húmanismans: