Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Page 27
A ð l í m a v e r ö l d i n a s a m a n
TMM 2016 · 2 27
mamma hennar geymdi í eldhússkúffu og ætlaði að drepa mig. Ég flúði.
Svona dramatík festist í minni.
Svo var mitt verk á morgnana að færa Degi bróður sem svaf oft frameftir
þumlungsþykka rúgbrauðssneið með smjöri. Stöku sinnum hafði verið partý
hjá honum og menn úr bæjarlífinu sváfu í herberginu hans, gæjar eins og
Alfreð Flóki og Elías Mar.
Amma Theodóra bjó í stofunni í stærsta herberginu í íbúðinni. Þangað
lá stöðugur straumur fólks, hún var eiginlega stofnun, hafði yndi af fólki
og nennti að hlusta. Stundum komu fullir karlar, þeim gaf hún brennivíns-
staup, sjálf drakk hún ekki. Vikulega komu þrír karlar og spiluðu við hana
lomber. Það voru Gunnar Thoroddsen, Sigurður Nordal og lögfræðingur
sem ég man ekki nafnið á. Sigurður klappaði mér alltaf á kollinn og sagði:
Skúli litli. Ég minnti hann á föðurafa minn Skúla í framan. Eftir undirritun
Natosamningsins 1949, sem Gunnar var viðriðinn, spilaði amma víst lom-
berinn í þögn.
Varstu snemma læs? Lastu mikið þegar þú varst barn? Hver var uppáhalds-
bókin þín?
Ég hef orðið læs í kringum fimm ára aldur, börn fóru í tímakennslu um
þetta leyti og ég fór í tímakennslu þarna í holtinu – mig minnir að ég hafi
þá kunnað að kveða að. Þessar tímakennslur voru til þess að tryggja að börn
kæmust í góðan bekk í barnaskóla, ekki í tossabekkina, þá var raðað í bekki
eftir lestrarkunnáttu. Ég var læs á venjulegum aldri, þegar krakkar fá áhuga
á lestri.
Uppáhaldsbækurnar voru Grimmsævintýrin – ég las þau endalaust – og
Þúsund og ein nótt og margar barnabækur. Þá tóku unglingabækurnar við:
Anna Fía eftir Evu Dam Damsen frá Danmörku, Matta Maja og bækurnar
eftir Enid Blyton. Ég man að mamma las fyrir mig Dittu mannsbarn eftir
Martin Andersen Nexö þegar ég var lítil og ég grét og grét og mamma
vildi hætta lestri en ég vildi kveljast og bað hana um að halda áfram. Þegar
ég fór til Danmerkur eftir stúdentspróf var ég hagvön í Kaupmannahöfn
vegna þessara dönsku barnabóka. Ég las ekki Íslendingasögurnar fyrr en á
unglingsárunum, þá fór ég að hafa gaman af understatementinu í þeim og
hugarheiminum, en þegar verið var að ota þeim að mér sem krakka vildi ég
ekkert með þær hafa, leiddust þessir bardagar. Ég las heilmikið í sveitinni í
Skagafirði svona tíu, ellefu, tólf ára, bækur sem ekki voru til heima: Einar
Kvaran, Jón Trausta og Dalalíf Guðrúnar frá Lundi. Ég fór fyrst í sveit þegar
ég var átta ára, í Biskupstungur, fór að vinna í gróðurhúsum við að vökva og
reita arfa. Maður var sendur í sveit, fólki fannst að börn ættu að vera úti í
náttúrunni og kynnast rótunum. Það var talið óhollt að hanga í borgum yfir
sumartímann.