Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Page 30
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
30 TMM 2016 · 2
og sterka efniskennd, notaði í skartgripina bláskeljar, bein, steinbítsroð,
smyrils- og ugluklær, víravirki, steina og glerhalla, langt á undan öðrum,
módernisti sem sótti samt í þjóðlegar menjar, enda alin upp af handverks-
mönnum. Amma Theodóra var steinasafnari, herbergi hennar troðfullt af
steinum, mamma fékk að nota svoldið af glerhöllunum hennar. Þetta þótti
skrýtið í denn, þjóðfélagið var í föstum skorðum. Hún og systur hennar voru
bláfátækar en alltaf klæddar eins og upp úr tískuriti afþví mamma þeirra
með stílgáfu saumaði á þær. Mamma vann heima og maður fann þegar hún
varð annarshugar – auðvitað hefur maður verið að trufla hana allan daginn
við það sem hún var að reyna að gera. Stundum beindi hún athygli manns
að því sem hún var að gera svo að maður tæki þátt í því og hún fengi vinnu-
frið. Ég er alin upp við form og sjónræna þætti í gegnum mömmu og reyndar
málaði pabbi. Þau voru bæði bara yfir og allt um kring.
Hafa þau haft áhrif á bækurnar þínar?
Áreiðanlega, í bernsku mótast fagurfræði sem manni er að hluta úthlutað
frá foreldrum og umhverfinu, svo hefur eðlið eitthvað að segja um grunn-
fagurfræðina sem fylgir manni út lífið og mótar skoðanir manns og gjörðir.
Þau eiga örugglega sinn þátt í fagurfræði minni. En Nonni bróðir, sem er
tveimur árum eldri en ég, kynnti mig fyrir bókmenntunum. Hann var á
kafi í heimslitteratúrnum og það er fyrir áhrif hans að ég fæ áhuga á bók-
menntum þó foreldrar mínir hafi lesið mikið.
En ég ætlaði aldrei að skrifa, mér datt ekki í hug að skrifa fyrr en að ég sest
niður og skrifa fjörutíu ljóð og var þá orðin fjörutíu ára. Fór svo af stað og
leitaði að útgefanda – ég vildi strax gefa ljóðin út – fann engan útgefanda og
það hefur elt mig alla tíð, ég gaf fyrstu bókina út sjálf. Þegar ég var að reyna
að selja þessa bók, á jólamarkaði á Vesturgötunni, hitti ég þig sem varst að
selja teikningar og kannski einhverja bók.
Mhm, já, akkúrat. Eitt ljóð fyrir hvert ár só far. Ertu gift? Hvað heitir
maðurinn þinn fullu nafni?
Já, við giftum okkur seint og um síðir, þá vorum við búin að vera saman
lengi. Ég bað hans og hann játaðist mér og við héldum skemmtilega veislu,
eiginlega einu stórveisluna sem við höfum haldið. Maðurinn minn heitir
Eggert Þorleifsson.
Áttu börn, hvað heita þau og viltu segja mér hvernig þau hafa mótað líf
þitt?
Ég á tvo syni, Bergstein Jónsson, og Sigurð Eggertsson. Bergstein eignaðist
ég áður en ég kynntist Eggerti. Synir mínir hafa auðvitað mótað líf mitt því
maður fer út fyrir sjálfan sig þegar maður eignast barn og ber ábyrgð á öðru
lífi – svo mikla á ósjálfbjarga mannveru, það breytir manni gagngert. Ég