Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Side 61
U m s k u r ð u r h u g a r fa r s i n s
TMM 2016 · 2 61
Ég sá sára fátækt í Mexíkó fyrir 38 árum, en þar er stór millistétt, hér er
miðstétt og hástétt svo fámenn að segja má að fátækt sé ein við völd. Það er að
segja mæli maður fátækt eftir fermetrum og dýrleika húsnæðis. Íbúð í blokk,
eins og við búum í, er sjaldgæfur bústaður þeirra best settu, konungleg.
Vissi áður ég kom, ugglaði. Uglan sagði ég væri á leið til eins allra
fátækasta lands jarðar. Saup hveljur þegar átta þversæta þota Air France lenti
á slitnum flugvelli við fátæklega flugstöð í tíu milljóna landi. Leifsstöð úr
þúsund og einni, full af dýrum varningi. Úti blasti sama fátæktin við, slitnar
girðingar, gaddavír, ryðgað og bögglað bárujárn og flögnuð málning og allt í
rusli og fátækt alla leiðina heim … það sem ég sá í kvöldmyrkrinu. En í dags-
ljósi daginn eftir varð allt strax betra, exótíkin og fegurðin náði að heilla og
ryk, plast og fátækt vandist furðu fljótt.
Fólkið er þriflegt, mjúkt, góðgjarnt og kurteist. Geislar reisn. Karlarnir eru
eins og reglan er á heimsvísu komnir í vestræna búninginn, buxur og skyrtu,
þótt stöku haldi í islömsk snið og klæði. Svona var þetta líka heima í gamla
daga, á tíma kvennakúgunar, karlarnir fylgdust með erlendri tísku á meðan
konurnar klæddust miðaldaklæðum, hinum eiginlegu þjóðbúningum áður
en Siggi málari hannaði upphlut og skautbúning út í bláinn.
Landið í norðri er alltaf í bakheilanum. Munaðurinn heima of sjálfsagður,
stressið að drepa okkur, það tók mig marga daga að vinda ofan af spennunni.