Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 119
S v e t l a n a A l e x i j e v i t s j o g R a d d i r S t a ð l e y s u n n a r
TMM 2016 · 2 119
Mun verra stríð
Í rauninni eru seinni bækur Svetlönu Alexijevitsj mun grimmari en þessi
fyrsta. Ekki síst þriðja bók hennar um stríð – „Sinkpiltarnir“, sem fjallar um
sovéska hermenn sem börðust í Afganistan síðasta áratug sovéskrar sögu.
Bókin heitir svo vegna þess að þeir komu dauðir heim í lokuðum kistum úr
sinki sem enginn mátti opna. Og voru grafnir í kyrrþey að næturlagi til að
fólkið heima fyrir áttaði sig síður á því að í Afganistan var háð blóðugt og
skelfilegt stríð. Sem kostaði fimmtíu þúsund sovéska hermenn lífið og ótal
særða og örkumla.
Sinkpiltarnir kom út árið 1989 þegar stríðinu var að ljúka. Svetlana talar í
þessari bók bæði við hermenn sem voru í Afganistan, flesta örkumlamenn,
og einnig konur sem gegndu þar ýmsum störfum fyrir herinn þótt ekki væru
þær í bardögum eins og konurnar í bókinni sem ég áðan nefndi. Líka við
ekkjur og mæður fallinna hermanna.
Ég nefndi áður að í fyrrum Sovétríkjum, einkum hjá Rússum, hefur ríkt
mikil tilhneiging til að fegra stríðið gegn Hitler, láta falla í gleymsku flest
annað en það sem tengist hetjuskap og fórnfýsi eigin manna. Þessi til-
hneiging er sprottin af þeim sannleika, að obbinn af landsmönnum hlaut að
líta á það stríð sem nauðsyn og skyldu: við þurftum að verja hendur okkar,
tryggja framtíð barna okkar. Meira að segja þeir sem höfðu sjálfir orðið illa
úti vegna glæpaverka Stalíns fundu sér tilgang og huggun í því að berjast við
innrásaróvin sem var enn háskalegri en hann. En það kemur mjög rækilega
fram í bókinni um Afganistan að þar er háð allt annað stríð en stríðið við
Hitler.
Að vísu halda sumir þeirra ungu manna sem bjóða sig fram til að berjast
í Afganistan eða eru blekktir til þess, að þeir séu á leið inn í mikið ævin-
týri sem þeir hugsa sér að einhverju leyti sem framhald af frásögnum for-
eldra sinna af stríðinu gegn Hitler. Þeir halda að þeir muni þjóna föður-
landinu, hjálpa afgönskum samherjum í heimspólitíkinni við að byggja upp
sósíalisma og þar fram eftir götum. En þessi rómantík rennur fljótt af þeim.
Þeir komast að því að málstaðurinn er blekking og lygi, þeir eru í raun óvel-
kominn innrásarher í grimmu stríði. Enginn virðist skilja til hvers er barist,
engum er að treysta nema kannski nokkrum félögum í hernum – og varla
það. Því þegar hér er komið sögu er sovéski herinn illa haldinn af grimmu
ofbeldi sem siður er að sýna nýliðum – svo grimmu að algengt er að þeir
missi heilsuna, fyrirfari sér, eða skjóti í orustum liðsforingja sína í bakið í
hefndarskyni. Mórallinn er fyrir neðan allar hellur, hermennirnir sístelandi
frá eigin her, seljandi vopn og fatnað til að kaupa sér annaðhvort dóp eða
japanskar græjur. Og fátt verður til að hamla gegn því haturslögmáli sem
kemur fram í því, að þegar einhver „okkar stráka“ finnst illa limlestur eða
fleginn lifandi þá tryllast félagar hans og salla niður næstu Afgani sem sjást,
kannski í brúðkaupsveislu sem þeir rekast á eða tortíma næsta þorpi.