Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Síða 67
M i t t í m e r k i n g a r k r í s u n n i
TMM 2018 · 2 67
fjölmiðlar hlóðu svo undir merkinguna með fréttum, strax daginn eftir
árásirnar, um lækkun dollarans og hlutabréfa,27 um leið og brúnaþungur
blaðamaður benti á þá hættu að „óttaslegnir neytendur gætu hætt að eyða“28
– en það brýndi Bandaríkjaforseti aftur á móti fyrir fólki að gera alls ekki:
„Við getum ekki leyft hryðjuverkamönnunum að ná fram því markmiði sínu
að hræða þjóð okkar upp að því marki að við eigum ekki viðskipti – að fólk
versli ekki.“29
Það sem aftur á móti stuðaði og vakti reiði við orð Churchills var sú
ályktun hans að árásirnar væru hvorki glórulausar né án tilefnis, heldur
þvert á móti bæði skiljanlegar og réttmætar – séð frá sögulegu og heims-
pólitísku sjónarhorni – og í raun undravert að þær hafi ekki átt sér stað
fyrr.30 Í bréfi stíluðu á „Ameríku“, rúmu ári eftir árásirnar, svaraði Osama
bin Laden nokkrum spurningum sem hann sagðist telja að yllu bandarísku
þjóðinni hugarangri, þeirra á meðal „hvers vegna við berjumst og stillum
okkur upp gegn ykkur.“ Stutta svarið er einfalt, sagði hann: „Af því að þið
réðust á okkur og haldið áfram að ráðast á okkur.“31 „Í slíkri symmetríu felst
réttlæti,“ sagði Churchill. Að sama skapi skar í amerísk eyru, og önnur, ein-
beitt og gagnger höfnun hans á því manngreinaráliti að árásarmennirnir hafi
verið „nafnlausir hugleysingjar“ sem „réðust á sjálft frelsið“, eins og haft var
eftir Bandaríkjaforseta32 – orð sem um leið urðu skapalón almennra og opin-
berra eftirmæla þeirra. „Almenn sannindi […] eru ekki afsprengi hugsunar,
heldur óskhyggju,“ fullyrðir þýsk-bandaríski rithöfundurinn Ernst Pawel í
bók sinni um Franz Kafka;33 og þvert á almannaróminn – síbyljandi yfir-
lýsingu heimsins um gunguskap árásarmannanna – sagði Churchill að óháð
því hvaða aðra dóma mætti hugsanlega um þá fella væri engum vafa undir-
orpið að þeir hefðu sýnt fram á bæði hugrekki og sannfæringu.34 „Í saman-
burðinum,“ sagði Karlheinz Stockhausen, „erum við tónskáldin ekkert.“35
Undir hið síðastnefnda tekur Stefán, sveitaballatrommari, síðar skugga-
útrásarvíkingur og enn síðar nýsköpunarfrömuður, önnur aðalpersónan
í Aftur og aftur, skáldsögu Halldórs Armands (Mál og menning 2017). Í
upphafi bókarinnar vermir hann eymdarlegur sófa að kvöldi 11. september
2001 – þann dag hafði hann lent í slysi sem kemur til með að móta hann fyrir
lífstíð: keyrir útaf með 17 ára stelpu í farþegasætinu. Hún berst á þessum
tímapunkti meðvitundarlaus fyrir lífi sínu á spítala en hann innbyrðir
atburði dagsins með aðstoð linnulausra endursýninga sjónvarpsins. Stuttu
áður en örlagasímtalið berst, fregnin af andláti stúlkunnar, hugsar Stefán
með sér (bls. 26):
Mennirnir sem rændu þotunum eru hugleysingjar, segja ráðamenn hins vestræna
heims, en hvernig er hægt að kenna eitthvað á svo stórbrotnum skala við hugleysi?
Hversu ævintýralegt hugrekki þarf til þess að ræna Boeing-þotu og dúndra henni af
ásettu ráði á eina af hæstu byggingum heims? Hugmynd sem er stærri en heimur-
inn. Andartakið þegar nefbroddur þotunnar er einn milljónasta úr millimetra frá
glerinu. Atburðurinn brýtur af sér sína stundlegu hlekki, stígur út fyrir tímann,