Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Síða 71
M i t t í m e r k i n g a r k r í s u n n i
TMM 2018 · 2 71
við kannski gerum okkur ekki grein fyrir því.“ Um það er auðvitað ofan-
greind nethegðun Arnmundar til marks – sem hann er jú hvorki einn um
né ómeðvitaður – enda er hún ekki síst kjölfestan í yfirlýsingum hans um
dauðadóm einstaklingsins:
[V]ið erum aldrei ein lengur. Það vita allir. Ég er ekki þessi drengur lengur. Það er
eitthvað á seyði í heiminum. Eitthvað er að gleypa mig. Hugmyndina um mig. Ég
kem auga á mig í spegli hópsins og get ekki litið undan. Ég sé mig dvína, mást út,
deyja. Húmorinn, viðhorfin, sérviskuna, hugsanirnar. Ég þynnist og hverf inn í
konungsríki ástarinnar, þar sem allt verður kæft með kærleika, þar sem allt verður
eitt.
Svo þarna er ég einn í fimleikasal, í ímyndaðri veröld sem hausinn á mér framkallar
þegar ég læt hann í friði. Hann sýnir mér minninguna um mig sem er að hverfa. (Bls.
119)
Að lokinni nokkurskonar röntgenyfirferð á nethegðun Arnmundar býður
Stefán honum starf við að leiða hið tröllvaxna verkefni DCS: að móta fram-
tíðina. „Það hafa allir geðveikan áhuga á þessu,“ fullvissar hann Arnmund
um, sem á endanum þiggur starfið þrátt fyrir töluverðar efasemdir um erindi
sitt inn á lendur þessa bransa. Áform fyrirtækisins eru heldur óskýr – inntak
verkefnisins og ytri byrðin bæði flúruð hrognamáli frumkvöðlastéttarinnar,
flauelsmjúku og tælandi, en hraungrýttu í senn – en snúast í grunninn um
hið „óendanlega heillandi viðfangsefni“ að „nota nýjan og sérþróaðan algó-
ritma til þess að greina hegðun hópa á netinu.“ Þessu til grundvallar liggur
vitaskuld sannfæringin um dauðadóm einstaklingsins og upprisu múgsins,
samhæft hegðunarmynstur hans, hreyfiafl og hugmyndafræðilegt burðarþol,
sem fengið hefur byr undir báða vængi með hinni nýju tækni. „Ef þú vilt ná
forskoti í dag verðurðu að skilja múginn,“ segir Stefán, sem vill ennfremur
meina að trommustúss hans á sveitaböllunum forðum daga hafi vakið með-
vitund hans um þau „voldugu hughrif“ sem fylgja því að „beisla múg með
endurtekningunni.“ Og hann heldur áfram:
Hvað er múgurinn að segja sjálfum sér? Herferðir gegn fyrirtækjum, hvernig eiga
þau að bregðast við? Kapítalísk réttindabarátta. Hvers konar vara er sameinandi í
hverju tilviki? Sérðu ekki möguleikana? Við notum gögnin, við notum gröfin, við
notum aldagamlar pælingar um sálfræði og heimspeki múgsins. Allt saman. Allt
sem virkar. Algóritminn okkar malar þetta allt saman. Við seljum vinnu okkar
hverjum þeim sem hefur þörf fyrir hana. Við getum aðstoðað ríkisstjórnir, skó-
framleiðendur, góðgerðarsamtök. Nefndu það bara. Áhuginn á þessu er endalaus.
Enginn hefur tæknina sem við höfum. (Bls. 154–155)
Bókin rekur framvindu verkefnisins, einkennilegs og ópersónulegs samstarfs
Stefáns og Arnmundar, sem og sambands Arnmundar við Auði sem hefst
með ágætis flugi en þynnist svo hægt og bítandi út og verður loks að engu,
kannski fyrst og fremst vegna tregðu beggja til að undirgangast „rimla skuld-
setningarinnar“ og hlaða í „eitt stykki ungabarn saman – sinn eigin Atla