Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Page 97
H e i s e n b e r g í K a u p m a n n a h ö f n
TMM 2018 · 2 97
sjá öreindirnar þarf að beita ljósgeislum sem sjálfir eru fullir af orku og geta
því haft áhrif bæði á staðsetningu og skriðþunga þeirra. Mismunandi geislum
þarf að beita til þess að finna út staðsetninguna annarsvegar og hreyfinguna
hins vegar. Því nákvæmar sem við mælum staðsetninguna, því minna vitum
við hvert þær stefna og öfugt. Og hvað öreindirnar gera þegar við erum ekki
að horfa á þær getum við lítið sagt um. Þar ræður óvissan ríkjum. En hvað
segir þetta okkur um söguna?
Eðlisfræði sem heimspeki
Í verkinu fer Bohr hratt yfir sögu hugmyndanna og segir að lengi vel hafi
maðurinn einungis verið peð í sköpunarverki guðs. Ekki var hann fyrr
byrjaður að losa sig undan þessari áþján en Newton setur hann inn í aðra
vél, heimsmynd sem er eins og gangverk þar sem allt ferðast eftir fyrirfram-
gefnum sporbaugum. Það er fyrst með Kaupmannahafnartúlkun þeirra
Heisenbergs að maðurinn verður að miðpunkti tilverunnar (Frayn, bls. 69).
Sá sem horfir á skiptir jafn miklu máli og það sem hann sér. Hann er ekki
lengur aðeins tannhjól í klukku alheimsins, heldur skapar veröldina á sinn
hátt þegar hann ber hana augum.
18. aldar stærðfræðingurinn Pierre Simon Laplace lagði út af þessari hug-
mynd Newtons og spáði því að ef við gætum vitað hvar allt væri staðsett í
heiminum á einhverri stundu, þá ættum við að geta sagt fyrir um hvernig allt
muni fara um ókomna framtíð (Gleick, bls. 14). Allt hefur jú áhrif á allt annað
og með því að reikna út skriðþunga hvers fyrirbæris ættum við að vita hvað
gerist næst og þannig koll af kolli. Þetta var auðvitað praktískt ómögulegt
á hans tíma, en gæti ef til vill orðið hægt með ofurtölvum framtíðarinnar.
Heisenberg gerir slíkar hugmyndir merkingarlausar, því við getum ekki einu
sinni vitað bæði staðsetningu og skriðþunga einnar einustu eindar (Gribbin,
bls. 208). Ef við vitum ekki hvar fyrirbærin eru staðsett í dag getum við ekki
sagt með neinni vissu hvar þau verða á morgun. Það eina sem við getum sagt
til um er hvar þau voru stödd í gær. Og þó tók rúma hálfa öld þar til óvissu-
lögmálið fór að hafa teljandi áhrif á sagnfræðina.
Eðlisfræði sem mannkynssaga
Ári áður en leikritið fór fyrst á svið, eða 1997, kom bókin Virtual History út.
Í henni velta sagnfræðingar því fyrir sér hvernig sagan hefði getað þróast
öðruvísi en raunin varð. Meðal spurninga má nefna: Hvað hefði gerst ef Bret-
land hefði ekki tekið þátt í fyrri heimsstyrjöldinni; hvað ef Hitler hefði sigrað
Sovétríkin í þeirri síðari eða þá hvað ef þau hefðu ekki hrunið yfirhöfuð?
Sumir litu á þetta sem helberar vangaveltur sem ættu lítið skylt við fræðin,
en í löngum inngangi útskýrir ritstjórinn Niall Ferguson aðferðafræðina.
Eins og Frayn í leikritinu fjallar Ferguson um þá sögulegu nauðhyggju