Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Page 19
Að standa af sér slaginn
hún að þessi maður væri eitthvað einkennilegur því hann hefði spurt
hana hvort ég væri að flýja eitthvað!
Við ætluðum að vera ár að heiman svo við tæmdum íbúðina okkar í
Barmahlíð og tróðum megninu af búslóðinni í geymslur í kjallaranum,
læstum þeim og leigðum íbúðina, flugum svo til Berlínar og settumst að
í íbúð okkar þar. Daginn eftir hringir síminn þar í fyrsta sinn og það er
Eiríkur Jónsson blaðamaður sem les fyrir mig frétt sem á að koma í blað-
inu næsta dag, um það að Þórarinn Óskar hyggist lögsækja mig fyrir að
hafa stolið af sér þessum bókum, þær séu allar til á spólum sem ég neiti
að láta af hendi, hann hyggist láta mig skila megninu af höfundarlaunum
mínum fyrir þessar bækur og svo framvegis. Eiríkur les þetta og spyr
hvort ég vilji segja eitthvað um þetta en ég sagðist ekkert hafa um það að
segja. Þá hafði hann eftir mér að ég væri orðlaus!
Þetta var aðalfréttin á baksíðu DV daginn eftir. Þarna var nýbyrjað
árið 2000.
Það hafði aldrei komið til neinnar umræðu að ég léti af hendi þessar
spólur sem teknar voru upp á árunum 1980 og '81 á fýlliríi í Kaup-
mannahöfn og Árósum - ekki frekar en annað sem ég viðaði að mér. Ég
hef aldrei verið hirðusamur með mín gögn en hélt mig þó muna að ég
hefði sett þær ofan í kassa einum fimmtán árum fýrr og að sá kassi hlyti
að vera einhvers staðar innst í þeim geymsluherbergjum sem við höfðum
troðið dótinu okkar inn í. Á þessari stundu var auðvitað engin leið að
komast til að leita að honum, þó hvarflaði að mér að taka næsta flug
heim, rútta öllu út og reyna að finna spólurnar til að ljúka málinu. Það
hefði að vísu kostað mikla fyrirhöfn, peninga og tíma og óbærileg óþæg-
indi fýrir marga aðila, auk þess sem allir sem ég hafði samband við réðu
mér frá því og sögðu að enginn tæki mark á þessu. Þá kemur önnur frétt,
slegið upp líka í DV, að ég neiti að láta spólurnar af hendi og látið eins og
þögn mín þýði samþykki og ég sé bara á flótta. Aggi sé búinn að ráða sér
lögfræðing og tilbúinn að stefna mér. Nokkrum sinnum í viðbót næsta
árið tókst honum að komast í fréttir með þau tíðindi að nú væri hann að
stefna mér, þótt aldrei yrði neitt úr því.
Þegar leið á árið fann ég æ betur að þetta var orðið leiðindamál. En þá
var svo langt liðið á dvölina ytra að ég ákvað að gera ekkert frekar fyrr en
ég kæmi heim. Þegar ég kom heim um miðjan janúar 2001 fann ég fljótt
hvað þetta umtal hafði valdið mér miklum skaða. Fyrir utan hvað það
hafði farið illa með ýmsa af mínum nánustu hérna heima. Löng viðtöl á
sjónvarps- og útvarpsstöðvum við Þórarin þar sem hann lét móðan mása
og þáttagerðarmenn hvöttu hann til að halda áfram og segja eitthvað
meira illt um mig meðan þeir hlógu og gögguðu undir. Og ekkert leitað
TMM 2004 • 2
17