Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Page 41
Tími, ljós, ótti
og tíminn mjakast af stað. En svo lægir rokið og það fer affur að
snjóa og ekkert gerist nema það.
Á hverjum fimmtudegi fer tíminn aftur af stað, þá kemur mjólkur-
bíllinn frarn Síðuna með tóma mjólkurbrúsa og blaðastranga
handa fullorðna fólkinu. Síðan ekur hann burt með nokkra fulla
mjólkurbrúsa, á sumum bæjum er aðeins einn brúsi en á Bakka eru
það margir brúsar. Og tíminn hægir á sér. Stundum snjóar svo
mikið eða þá það er svo mikil hálka að mjólkurbílinn kemst ekki
leiðar sinnar. Þá er aftur dálítið gaman. Karlarnir spenna skafla-
járnaða hesta fyrir vagn og fara til móts við mjólkurbílinn,
stundum er ekki einu sinni vagnfært svo karlarnir leggja reiðing á
hrossin og lyfta brúsunum til klakks. Stundum koma þeir ekki
aftur heim fyrr en í svarta myrkri en hafa hitt aðra karla að máli og
hafa frá einhverju að segja. En þetta eru undantekningar, flestir
dagar eru nákvæmlega eins langir og snauðir af allri tilbreytingu.
Og þó eru þeir hættulegir og fullir af óhugnaði. Á þöllum eru
tröll, voðalegir vágestir. Þau koma stundum til byggða. f ljósleysis-
ranghölum, og þeir eru margir, eru draugar, vofur og annað
myrkrastóð. Og í þessa myrkheima er alltaf verið að senda krakka.
Sækja eitthvað út í kofa, út í fjós, láta inn hestana í rökkrinu, sæktu
hitt og sæktu þetta. Meðan dagsbirtunnar nýtur við eru þessir
staðir tiltölulega hættulausir og þá er maður undarlega sólginn í að
heyra um þá hættu sem þar kann að leynast. Svo kemur myrkrið.
Ólafur Jóhannesson á Bóli er átta ára. Hann er fluglæs en það eru
enn tvö ár þangað til hann fer á skóla, Jóhanna systir hans fer á skóla
nokkrar vikur í vetur, hún er nefhilega orðin ellefu ára. Hann verður
að bíða og það er erfitt þegar tíminn stendur kyrr. Kári litlibróðir
hans er bara fjögurra ára og óþolandi. Aumingi sem ekkert getur.
Ólafur getur margt, snúist. Og hann hefur auk þess fastan starfa.
Hann gefur hænsnunum á hverjum degi. Hænurnar búa í hænsna-
kofanum og hann stendur á sama hólnum og fjárhúsin. Það er svo
sem ekki langt að fara og svo sem ekki mikið starf. Sóla mamma
hans hrærir matarafgöngum saman við rúgmjöl og setur í dollu sem
heitir auðvitað hænsnadollan, síðan tekur hann dolluna og keifar
með hana upp fjárhúshólinn, stundum er lausamjöll sem nær
honum í mitti eða meira og þá er puð að komast upp hólinn,
stundum er rok og hálka og þá er ennþá meira puð að komast upp
TMM 2004 • 2
39