Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Page 45
Tími, ljós, ótti
skíðum á milli bæjanna og ber smíðatólin í bakpoka. Og ekki nóg
með það, eftir nokkra kaffibolla fer hann upp á háaloft og tekur úr
annan stafngluggann og borar göt á stafnbitana og boltar saman
pall úti á stafninum úr gildum battingum. Síðan setur hann glugg-
ann aftur á sinn stað.
„Er þetta mannhelt?“ spyr Jóhannes dálítið kvíðinn.
„Það geta minnst íjórir stigið dans á pallinum meðan hann er
ófúinn,“ svarar Benedikt.
Nú gerist nýtt ævintýri á hverjum degi. Benedikt opnar kassann
mikla með kúbeini og upp úr honum koma undarleg stórvirki, eitt
kalla þeir turninn, annað kalla þeir stélið, þriðja dýnamóinn, fjórða
vænginn og fimmta hemilinn.
Jóhannes fer upp á þak og hefur vafið um sig reipi, hann er svo-
lítið lofthræddur og fetar sig varlega upp stiga sem þeir hafa lagt á
þakið, þegar hann er kominn upp á mæninn sest hann þar klofvega
og mjakar sér alveg frarn á stafnbrúnina við pallinn, bregður reip-
inu um bita í pallinum og lætur reipisendana falla til jarðar, klifrar
svo sömu leið til baka. Síðan binda þeir annan reipisendann í rim
í því sem þeir kalla turninn og toga svo í hinn endann og turninn
mjakast upp með húsgaflinum, alveg upp að pallinum.
„Hvernig í andskotanum eigum við að koma þessu upp á pall-
inn?“ spyr Jóhannes.
„Nú förum við báðir út á pallinn og togum turninn upp á
hann,“ svarar Benedikt og er hvergi smeykur.
Og enn hefst glæfraferð upp þakstigann og eftir mæninum og
síðan út á pallinn, Jóhannes sest klofvega á einn pallbitann og
krækir saman fótunum, Benedikt stendur gleiður hjá og það er
ekki alveg laust við að honum sé skemmt. En upp á pallinn drösla
þeir ferlíkinu og Benedikt boltar það niður í pallinn meðan Jó-
hannes mjakar sér aftur niður. Það eru svitadropar á enni hans
þegar hann fær aftur jörð undir il. Benedikt lætur síðan annan
reipisendann síga til jarðar og Jóhannes bindur stélið í hann.
„Þú verður að koma upp og halda þessu meðan ég festi það,“
kallar Benedikt, og enn má Jóhannes hætta lífi sínu eftir mæninum
og út á pallinn. Síðan lyfta þeir stélinu upp á turninn og Jóhannes
rígheldur sér í þverbita í honum og reynir að hemja stélið með
hinni hendinni meðan Benedikt skrúfar og skrúfar.
TMM 2004 • 2
43