Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Síða 49
Tími, ljós, ótti
„Ekki nema það þó,“ segir Sóla, en fer þó að ráðum hans og
lokar íyrir trekkspjaldið á eldavélinni.
Vindurinn færist enn í aukana, þau hafa gert sér garðshorn í
skjóli vestan undir húsinu, girt það af með bárujárnsplötum sem
eru negldar á stólpa til að skýla ungum birkiplöntum og rifsi. Út
um vesturgluggana sjá þau vindinn rykkja í bárujárnsplöturnar og
skyndilega nær hann að rífa eina þeirra af öðrum stólpanum, hann
lemur henni fólskulega fram og aftur og reynir að slíta hana lausa.
„Andskoti er að sjá þetta,“ segir Jóhannes og ætlar að fara út að
bjarga málum en Sóla aftrar honum.
„Nei,“ segir hún, „ég vil ekki að þú farir út í þetta veður.“
Hún hefur varla lokið við setninguna þegar vindurinn rífur
plötuna lausa og þeytir henni hátt á loft, hún fellur svo til jarðar og
tekst aftur á loft og hverfur út í grámann. Tvær aðrar bárujárns-
plötur rífur vindurinn lausar. Það brakar í öllu húsinu.
Rokið færist enn í aukana, „ég held bara að húsið sé að fjúka,“
segir Sóla og henni er brugðið.
Þau fara með krakkana niður í kjallara, þar er gluggabora sem
veit móti rokinu og mundi auðvitað fara í mél og mask ef eitthvað
fyki á hana. Þau geta nú samt ekki stillt sig um að horfa út um
hana, sjá hvernig rokið rífur með sér allt sem það getur, jaftivel ána
tekur það með sér, hún rennur ekki lengur í sínum farvegi, hún er
bara hvítfyssandi strókur sem rokið veltir á undan sér, þvílíkt veður
hefur ekkert þeirra séð fyrr. Og allt í einu og án nokkurs fyrirvara
sjá þau út um gluggann hvernig þakið lyftist af fjósinu í heilu lagi
og hverfur. Þau heyra að eitthvert brak úr því skellur á húsinu og
þeytist síðan brott. Það er ekkert að gera því það er óðs manns æði
að ætla sér út meðan veðrið er í þessum ham.
„Aumingja kusurnar,“ segir Sóla.
Svo þegja þau öll góða stund og rýna út um gluggann. Það hriktir
meira og meira í húsinu og bárujárnplata á þakinu byrjar að lemjast.
„Það fer,“ segir Jóhannes eins og við sjálfan sig.
En það fór ekki, hins vegar fór að rökkva og þá dró úr rokinu.
Það var orðið aldimmt þegar þau komust loks út til kúnna, þær
stóðu í höm og voru rennvotar og það var ekkert að gera annað en
að vefja þær eins vandlega inn í yfirbreiðslur og hægt var undir
nóttina og vona að hann ryki ekki upp aftur.
TMM 2004 • 2
47