Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Page 28
Ármann Jakobsson
ágætt að hafa um leið í huga að ástandið hefur í raun ekkert breyst því að
fóstur með þennan fæðingargalla verða sjaldan að mönnum, svo sjaldan
að hver getur spurt sjálfan sig hvað hann mundi gera.
í þessu samfélagi (og svo sannarlega ekki aðeins þar) skortir þannig
sárlega innlifunarkennd (empatíu) með þeim sem er öðruvísi. Grasa-
Friðrik einn verður fulltrúi empatíunnar í sögunni. Eins og kemur best
í ljós í bréfi hans í lokin þegar hann gefur skýrslu um orðabók Öbbu.
Friðrik hefur reynt að tala við Öbbu sína, ekki til að fanga hana eins
og þegar séra Baldur reynir að tala við tóuna. Heldur til að skilja hana.
Jafnvel eftir dauðann því að þegar Abba er dáin opnar hann pokann
sem reynist geyma myndagátu sem grasafræðingurinn eyðir kvöldinu
í að leysa.
Lausnin reynist vera líkkista og hið sama gildir á sviði mannlífsins.
Grasa-Friðrik hefur nefnilega látið prestinn fá sængurver fullt af kúa-
mykju og öðru drasli en jarðsetur Öbbu sjálfur í trjálundinum þeirra
og þannig verður dauði hennar fagur. Konan sem ekki var tæk í samfé-
lagið lífs fær að hvíla í friði frá því, á fegurri stað en í kirkjugarðinum
nöturlega við árbakkann. Þannig rækir Friðrik skyldu sína við hana og á
myndagátunni reynast standa tvær setningar. Önnur setningin er „Allt
breytist — ekkert hverfur" (Omnia mutantur, nihil interit) og kannski
vísar sú til umbreytingar skuggabaldursins í tóuna sem hann eltist við. I
öllu falli lýsir grasafræðingurinn stórtíðindunum úr sveitinni í bréfinu í
sögulok, sem hann skrifar eftir lát Öbbu og hvarf séra Baldurs, með orð-
unum: kona dó, maður týndist. Þar kemur einnig fram þó að ekki sé það
beinlínis sagt að örlög skuggabaldursins eru í nánu samhengi við örlög
barnsins sem hann hefur ekki leyft að koma til sín. Séra Baldur hafði
selt Öbbu fyrir framhlaðning og högl, að öllum líkindum hin sömu og
hann notar við tóuveiðar.
Hin er „Sú byrði er létt sem vel er borin" (Leve fit quod bene fectur
onus). Þessi setning vísar til þeirrar samsömunar með Öbbu sem Friðrik
einn hefur sýnt. í bréfinu sem sögunni lýkur á kemur fram að jafnvel lát
sambýliskonunnar hefur ekki rænt hann léttúðinni. Hjá rómantískum
spjátrungi og upplýsingarmanni 19. aldar fara saman sú léttúð og sú
innlifun sem gerir honum kleift að rækja einum manna skylduna við
aumu manneskjuna sem samfélagið hefur gert útlæga og skammast sín
fyrir — kannski vegna þess að hann hefur sótt til útlanda menntun og
hugarfar sem hjálpar honum að hafna hefðinni og taka öðruvísi ákvarð-
anir en áður höfðu verið teknar. Eins átti ný öld á Islandi eftir að taka
við þeim manneskjum sem áður hafði verið hafnað.
Það er í raun og veru frekar óvænt niðurstaða að fulltrúi nútímans
26
TMM 2005 • 3