Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Side 125
Tónlist
Að Reykholt sé sögustaður réttlætir þó ekkert endilega að þar sé fyrst og
fremst flutt sígild, evrópsk tónlist. Um tíu til fimmtán verk eru venjulega flutt
á tónlistarhátíðinni þar; aðeins lítill hluti þeirra er íslenskur. Og samt er tón-
listarhátíðin skrautfjöður staðarins og laðar til sín fjölda ferðamanna ár hvert.
Eflaust hefðu margir aldrei farið í Reykholt, hvað þá séð sýninguna þar, ef tón-
listarhátíðin hefði ekki verið haldin þar.
Ef tónlistarhátíð er staðnum svona mikilvæg, þyrfti þá ekki að tengja hana
betur við sögu staðarins? Ætti tónlistin ekki að miðla á einhvern hátt þeim
menningararfi sem Reykholt táknar, líkt og gert er í Skálholti? Afhverju á
að flytja klassíska tónlist þar? Afhverju ekki bara þjóðlagatónlist? Eða nýja
íslenska tónlist byggða á Eddukvæðunum? Manni dettur jafnvel í hug að í
Reykholti mætti halda hátíð helgaða Jóni Leifs, sem bæði rannsakaði íslenska
alþýðutónlist og samdi músík innblásna af íslenskri náttúru og fornum kveð-
skap. Það er ýmislegt sem við fyrstu sýn ætti betur heima þarna en þýsk, frönsk
eða baltnesk tónlist. Reykholt stendur fyrir íslenskan menningararf og hvað er
íslenskt við Beethoven eða Ravel?
Menningararfur allra
Málið er þó ekki svona einfalt, enda er menningararfur flókið fyrirbæri. I
bókinni Heritage: Identification, Conservation, and Management eftir Graeme
Aplin kemur fram að hlutverk menningararfs sé ekki síst að styrkja sjálfsmynd
viðkomandi þjóðar; maðurinn lifi ekki á brauði einu saman; hann þurfi líka að
finna að líf hans hafi tilgang, að tilvera hans hafi merkingu. Samkvæmt Aplin
gefur menningararfur honum þessa merkingu, arfurinn er sameiningartákn
og upphefur tiltekinn þátt fortíðarinnar, gefur honum eilíft líf. Óneitanlega er
Reykholt minnisvarði um að hér hafi verið samin ein mestu bókmenntaverk
miðalda, sem er ein helsta sönnunin fyrir því að við séum ekki bara einhver
ómerkileg smáþjóð.
En hversu séríslenskur er þessi bókmenntaarfur okkar? í bók Aplins kemur
fram að ekki sé sjálfsagt að greina á milli hvað sé arfur tiltekinnar þjóðar og
hvað sé hluti af sammannlegum arfi, óháð þjóðerni. Hann spyr hvort tiltekið
listaverk, t.d. frá miðöldum, sem hafi skírskotanir í alþjóðlega menningararf-
leifð og eigi erindi við stóran hluta mannkyns, sé ekki líka hluti af sammann-
legum arfi, jafnvel þó það hafi verið samið eða skrifað á einhverju afmörkuðu
svæði. Er ekki biblían sammannlegur arfur? Og hvað með verk Snorra? Eða
tónlist Beethovens? Hún er ekkert frekar þýskur menningararfur en íslenskur;
alltént á hún alveg jafnmikið erindi við okkur og Þjóðverja.
Óhjákvæmlega leiðir þetta að spurningunni hvað listin, sérstaklega tónlist-
in, eiginlega sé og hvað það sé sem geri hana að sameiginlegum arfi mannkyns.
Þýski heimspekingurinn Theodor Adorno segir í greininni „Opera and the
Long Playing Record" að uppfærslur á gömlum óperum eins og tónskáldin
hugsuðu sér þær eigi ekki erindi við nútímamanninn því við lifum í allt öðru-
vísi þjóðfélagi. Tilraunir til þess að setja upp nútímaútgáfur gamalla ópera
TMM 2005 • 3
123