Þjóðmál - 01.12.2015, Blaðsíða 77
76 ÞJÓÐMÁL vetrarhefti 2015
og gleyma þeirri grillu sem hafði gripið hana.
Hún sór að slíkt myndi aldrei henda hana
aftur. Og hún stóð við orð sín.
Upp frá því var hún alltaf kölluð Natalja
Savíshna og gekk með hvítan kappa. Hún
umvafði nú ungfrúna litlu með allri ást sinni.
Þegar kennslukona var ráðin á heimilið í
stað fóstru fékk Natalja Savíshna lyklana að
geymslunni og hafði upp frá því umsjón með
öllu taui og líni sem og vistum heimilisins.
Þessar nýju skyldur innti hún af hendi af
sömu alúð og ræktarsemi og þær fyrri. Hún
hugsaði um það eitt að gæta hagsmuna
húsbónda síns og gerði það sem hún gat til
að koma í veg fyrir óráðsíu, skemmdarverk og
hnupl.
Þegar mamma giftist vildi hún þakka
Natölju Savíshnu á einhvern hátt fyrir trú-
mennsku hennar og tuttugu ára starf. Hún
kallaði hana til sín og með afar lofsamlegum
orðum lýsti hún því yfir hvað hún væri henni
þakklát og hvað sér þætti vænt um hana og
rétti henni svo skjal með skjaldarmerki á. Það
var frelsisbréf til handa Natölju Savíshnu.
Móðir mín bætti því við að hvort sem Natalja
Savíshna kysi að fara eða vera áfram í þjón-
ustu heimilisins, myndi hún fá 300 rúblur
í eftirlaun á ári hverju. Natalja Savíshna
hlustaði þögul á þessa ræðu, tók við skjalinu,
leit reiðilega á það og muldraði eitthvað
milli tannanna, hljóp síðan út úr herberginu
og skellti hurðinni á eftir sér. Mamma skildi
hvorki upp né niður í þessari framkomu en
fór stuttu síðar inn til hennar. Þar sat Natalja
Savíshna á ferðakistunni sinni, fitlaði við
vasaklút og starði tárvotum augum á rifrildi
frelsisbréfsins sem lágu á víð og dreif um gólfið.
„Hvað amar eiginlega að yður, elsku Natalja
Savíshna?“ spurði mamma og tók í hönd
hennar.
„Ekkert, frú,“ svaraði hún. „Ég hlýt að hafa
gert eitthvað sem er yður á móti skapi fyrst
þér hafið rekið mig burt af heimilinu … Jæja,
ég fer þá.“
Hún kippti hendinni til sín og gat varla
haldið aftur af tárunum. Hún gerði sig líklega
til að ganga út en mamma hélt í hana, faðmaði
hana að sér og þær fóru báðar að gráta.
Alveg frá því ég man fyrst eftir mér minnist
ég Natölju Savíshnu, ástar hennar og blíðu.
Það er samt fyrst núna sem ég kann að meta
þessa eiginleika hennar að verðleikum. Þá
hvarflaði ekki að mér hversu vandfundin
og dásamleg manneskja þessi gamla kona
var. Hún talaði aldrei um sjálfa sig og virtist
heldur ekki hugsa um eigin þarfir. Allt hennar
hátterni bar vott um kærleika og fórnfýsi. Ég
var svo vanur óeigingjarnri og blíðri væntum-
þykju hennar í okkar garð að mér datt aldrei
í hug að það gæti verið öðruvísi. Mér hug-
kvæmdist ekki að sýna henni þakklæti mitt
og ég spurði aldrei sjálfan mig: Skyldi hún
vera hamingjusöm? Skyldi hún vera ánægð?
Stundum þóttist ég nauðsynlega þurfa
að fá frí úr kennslustund til þess eins að
heimsækja hana. Ég settist við hlið hennar
og lét mig dreyma upphátt, alveg ófeiminn
við nærveru hennar. Hún sat aldrei auðum
höndum, ýmist prjónaði hún sokka, rótaði í
kistlunum sínum sem fylltu nánast herbergið
eða gerði skrá yfir línið og tauið á meðan ég
lét dæluna ganga um alls kyns vitleysu: um
þá drauma mína að gerast hershöfðingi og
kvænast undursamlegri fegurðardís, kaupa
mér gráan hest, byggja hús úr gleri, senda
eftir ættingjum Karls Ívanytsj frá Saxlandi og
fleira í þeim dúr, og hún svaraði alltaf: „Já,
ungi herra, já.“
Þegar ég stóð upp til að fara opnaði
hún venjulega bláan kistil — ég man að á
innanvert lokið hafði hún límt litmynd af
riddara, ásamt annarri mynd sem hún hafði
tekið af öskju með ilmsmyrsli, og teikningu
eftir Volodja — dró fram reykelsi, kveikti á
því og sagði um leið og hún bandaði með
höndunum: „þetta, ungi herra, er reykelsi frá
Otsjakov. Þegar afi yðar sálugi — Guð veri
með honum — fór í stríðið við Tyrkina þá
færði hann okkur það þegar hann kom heim
aftur. Þetta er síðasti molinn,“ var hún svo vön
að bæta við og andvarpaði.
Í kistlunum, sem fylltu nánast herbergið,
mátti finna næstum allt sem hugsast gat. Ef
eitthvað vantaði var sagt: „Spyrjum Natölju
Savíshnu,“ og það stóð heima. Eftir að hafa
rótað dálitla stund fann hún það sem okkur