Þjóðmál - 01.12.2015, Blaðsíða 79
78 ÞJÓÐMÁL vetrarhefti 2015
einu kerti í stofunni. Mamma hafði sagt að
hún myndi vekja mig sjálf. Það var hún sem
hafði sest hjá mér í hægindastólinn þar sem
ég svaf og strokið hár mitt með dásamlega
mjúkri hönd sinni. Rétt við annað eyrað heyri
ég kunnuglega rödd hennar sem er mér svo
kær:
„Á fætur með þig, ástin mín. Það er kominn
háttatími.“
þar sem við erum ein og enginn að fylgjast
með okkur þarf hún ekki að vera feimin við
að sýna mér alla þá blíðu og ást sem hana
langar til. Ég hreyfi mig ekki en kyssi hönd
hennar enn fastar.
„Stattu nú upp, engillinn minn.“
Hún leggur hina höndina utan um hálsinn
á mér, fingurnir flögra um hálsakotið og kitla
mig. Í herberginu er hljótt og hálfdimmt. Það
fer fiðringur um mig, svona nývaknaðan, við
kitlið. Mamma situr þétt upp við mig, hún
snertir mig, ég finn ilminn af henni og heyri
rödd hennar. Allt þetta hefur þau áhrif á mig
að ég stekk á fætur, flýg upp um hálsinn á
henni, þrýsti höfðinu að brjósti hennar og
segi með öndina í hálsinum:
„Æ, elsku, elsku mamma, hvað mér þykir
vænt um þig!“
Hún brosir sínu raunamædda en töfrandi
brosi, tekur utan um höfuð mitt með báðum
höndum, kyssir mig á ennið og lætur höfuð
mitt svo hvíla í kjöltu sinni.
„Þykir þér virkilega vænt um mig?“ Hún
þagnar andartak en segir síðan: „Hlustaðu nú.
Þú verður alltaf að elska mig, þú mátt aldrei
gleyma mér. Ef mamma þín væri ekki lengur
til staðar myndir þú ekki gleyma henni, er
það nokkuð, Kolja minn?“
Hún kyssir mig enn blíðar.
„Hættu! Ekki tala svona, mamma mín, elsku
besta mamma!“ hrópa ég upp yfir mig og
kyssi hana á hnén. Það streyma tár úr augum
mínum, tár ástar og hrifningar.
Síðan fer ég upp á loft og stend, eins og ég
er vanur, fyrir framan íkonana í stutta vatt-
sloppnum mínum, og mér líður svo feiknalega
vel þegar ég segi: „Elsku Guð, passaðu
mömmu og pabba.“ Ég endurtek bænirnar
sem barnsvarir mínar höfðu fyrst eftir minni
ástkæru móður og ást mín til hennar og til
Guðs blandast á einhvern undarlegan hátt og
rennur saman í eina og sömu tilfinninguna.
Eftir bænirnar vef ég kannski sænginni
utan um mig. Ég er í ljómandi léttu og góðu
skapi. Draumar sækja að mér, einn á fætur
öðrum – en um hvað eru þeir? þeir eru óljósir
en fullir af fölskvalausri ást og von um ein-
skæra hamingju. Kannski hvarflar hugurinn
að Karli Ívanytsj og bitrum örlögum hans –
hann var eini óhamingjusami maðurinn sem
ég hafði kynnst – og þá finn ég svo til með
honum og þykir svo vænt um hann að tárin
taka að renna niður kinnarnar og ég hugsa:
„Guð gefi að hann verði hamingjusamur og
að ég fái tækifæri til hjálpa honum og létta
raunir hans. Ég er tilbúinn að fórna hverju
sem er fyrir hann.“ Síðan sting ég uppáhalds
postulínsdýrinu mínu – til að mynda héra eða
hundi – undir horn dúnkoddans og hugsa
um hvað það er hlýtt og gott og notalegt fyrir
dýrið að liggja þarna. Ég bið þess líka að Guð
geri alla hamingjusama og glaða og að það
verði gott veður á morgun í lautartúrnum.
Síðan sný ég mér á hina hliðina, hugsanir og
draumar renna saman og smám saman sofna
ég, kinnarnar enn votar af tárum.
Kemur áhyggjulaus bernskan með sína
styrku barnatrú og þörf fyrir umhyggju
nokkurn tíma til baka? Hvaða tími getur talist
betri en sá þegar tvær framúrskarandi
dyggðir – saklaus glaðværð og skilyrðis-
laus krafa um ást – voru einu hvatirnar í lífi
manns?
Hvar eru nú þessar áköfu bænir og hin
hjartnæmu og hreinu tár? Verndarengill flaug
af himnum ofan og þurrkaði burt tárin með
bros á vör og vakti sæta drauma í óspilltu
ímyndunarafli barnsins.
Hefur lífið virkilega markað svo þung spor í
hjarta mitt að þessi tár og þessar ástríður séu
mér horfin að eilífu? Eru endurminningarnar
virkilega það eina sem ég á eftir?
thjodmal.is
vefur með skoðanir