Þjóðmál - 01.03.2020, Page 60
58 ÞJÓÐMÁL Vor 2020
Nigel Short minnti mig á það síðar að ég
hefði við kvöldverðarborðið sama kvöldið
barið í borðið og sagt: „Mótið verður haldið
hvað sem tautar og raular.“
Aðeins sex dögum síðar, þann 5. mars, afréð
stjórn Skáksambands Íslands að aflýsa mótinu.
Þrátt fyrir að samkomubann væri ekki skollið
á var stjórnarmönnum Skáksambandsins
þegar ljóst að mikil hætta væri á að falla yrði
frá mótinu síðar eða þá að mótið yrði haldið
við afar sérstakar aðstæður sem væru ekki
samboðnar fjölþjóðlegum keppendum á
hinu virðulega Reykjavíkurskákmóti. Betra
væri að aflýsa mótinu strax til að draga úr
fjárhagstjóni og óþægindum sem flestra.
Sem reyndist kórrétt ákvörðun.
Þetta er í fyrsta skipti síðan fyrsta Reykjavíkur-
skákmótið fór fram árið 1964 að mótið er ekki
haldið með reglulegum hætti. Mótin fóru
fram á tveggja ára fresti fram til ársins 2008
en hafa verið haldin árlega síðan þá.
Skáksambandið var fyrsti vestræni móts-
haldarinn sem tók ákvörðun um frestun/
aflýsingu jafnstórs viðburðar. Jafnframt var
Íslandsmóti skákfélaga, sem átti að fara fram
í mars, frestað. Síðar var svo Íslandsmóti
grunn- og barnaskólasveita frestað og svo
sjálfu Íslandsmótinu í skák sem átti að fara
fram í mars-apríl í Garðabæ þar sem sex
stórmeistarar voru skráðir til leiks.
Skáksambandsins bíður það verkefni að leysa
úr því hvernig þetta mótahald fer fram þegar
aðstæður leyfa.
Alþjóðlegt mótahald í uppnámi
Degi eftir að Ólympíuleikunum í Tókýó var
frestað gaf FIDE það út að Ólympíuskák-
mótinu, sem átti að fara fram í ágúst 2020 í
Moskvu, hefði verið frestað um eitt ár.
Annað alþjóðlegt mótahald er í upplausn
og óljóst hvort hin ýmsu heimsmeistara- og
Evrópumót fara fram í ár.
Sókn er besta vörnin
Íslensk skákhreyfing ákvað að blása til
stórsóknar. Skákskóli Íslands, undir forystu
Helga Ólafssonar stórmeistara, flutti sig
alfarið á netið. Og þessi nýja tilhögun hefur
gengið vel þótt örugglega verði snúið aftur í
raunheima, a.m.k. að hluta til, þegar tækifæri
býðst. Sömu sögu má segja af skákþjálfun
skákfélaga.
Skákhreyfingin heldur regluleg skákmót
á Chess.com. Þar eru haldin mót á öllum
virkum dögum, þar sem dagskrá félaganna
er að einhverju leyti spegluð. KR-mót á
mánudögum og atskákmót Taflfélags Reykja-
víkur á þriðjudögum, svo að dæmi séu nefnd.
Skólaskákmót Íslands, sem haldin höfðu verið
mánaðarlega, eru nú haldin vikulega.
Staðið hefur verið fyrir sérstökum viðburðum
fyrir grunnskólanna á höfuðborgarsvæðinu
og í undirbúningi er að halda kjördæmismótin
á netinu. Í ljós kemur í fyllingu tímans hvort
sjálft Landsmótið í skólaskák fer fram í raun-
eða netheimum.
Nepo og Grischuk heilsast í
upphafi skákar á áskorenda-
mótinu í Katrínarborg í Rússland.
(Mynd: Lennart Ootes/FIDE)