Þjóðmál - 01.03.2020, Side 81
ÞJÓÐMÁL Vor 2020 79
Forrester gerir andmælendum Rawls ekki
síður góð skil en honum sjálfum og fylgis-
mönnum hans. Lesandi fær því nasasjón af
hugsun margra af þekktustu siðfræðingum
og stjórnspekingum samtímans. Þar á meðal
eru Ronald Dworkin, Alasdair MacIntyre,
Thomas Nagel, Robert Nozick, Michael
Sandel, Peter Singer, Charles Taylor og
Michael Walzer.
Bókin er skrifuð af skilningi á miklum fjölda
heimspekilegra rita á sviði siðfræði og stjórn-
málaheimspeki. Hún veitir líka víða yfirsýn og
tengir frásagnir um rökræður heimspekinga
við breytingar á menningu og stjórnmálum
síðustu hálfa öld. Með þessu eru frjálslyndið
og einstaklingshyggjan sem hafa mótað
heiminn undanfarna áratugi sett í sögulegt
samhengi. Um leið er mörgum hugarfóstrum
sem kynntu sig eins og þau væru tímalaus
sannindi lýst sem börnum sögu og siðar.
Frá hægri til vinstri
Meginreglurnar tvær sem Rawls rökstuddi
eru í anda frjálslyndis og margt sem hann
segir styðst við skrif frjálshyggjumanna frá
fyrri tíð. Þegar hann hóf að móta kenningu
sína fljótlega eftir seinni heimsstyrjöld var
honum einkum umhugað um að verja
einstaklingsfrelsi. Á bókarkápu útgáfunnar
frá 1971 er þessari hlið á hugsun Rawls
hampað og andstaða hans gegn nytjastefnu
áréttuð þar sem segir að samkvæmt
kenningu hans eigi hver maður „sína friðhelgi
sem grundvallast á réttlæti og eigi má hunsa
jafnvel þótt velferð samfélagsins sé í húfi. Í
réttlátu samfélagi eru réttindin sem réttlætið
tryggir því ekki háð pólitísku samkomulagi
eða niðurstöðu útreikninga á því hvað er
heildinni til hagsbóta“.
Nú, næstum hálfri öld seinna, er hægt að
sjá að fræði Rawls voru hluti af viðleitni sem
birtist á marga vegu og snerist um að gera
það pólitíska ópólitískt. Aðrar birtingar-
myndir hennar voru tilraunir til að skilja
efnahagslífið eins og það fylgdi leikreglum
sem væru hafnar yfir valdsorðaskak og skoða
rétt borgaranna sem tímalaus mannréttindi,
óháð stund og stað og utan við karp og þref
(Atli Harðarson, 2015).
Rawls mótaði hugmyndir sínar að miklu leyti
nær tveimur áratugum áður en Kenning um
réttlæti var gefin út og þær voru að nokkru
leyti svar við alræðisstefnu og kúgun –
kommúnisma og fasisma – sem eyðilögðu
samfélög manna víða um heiminn á fyrri
hluta síðustu aldar. En þegar bókin kom
út var veröldin orðin öðruvísi en hún var
þegar hugsunin í henni mótaðist. Áhyggjur
manna voru aðrar því á áttunda áratugnum
þótti mörgum að jafnaðarstefnan, sem fékk
byr í seglin eftir stríð, ætti sök á verðbólgu,
atvinnu leysi og minnkandi hagvexti. Hún
hafði lagt meiri áherslu á hag heildarinnar
en réttindi einstaklinganna og hún hafði líka
blandast hagfræðilegum útgáfum af nytja
stefnu. Þeir sem höfðu hana að blóraböggli
boðuðu gjarna meiri frjálshyggju með áherslu
á réttindi einstaklinganna. Á sama tíma var
æskan víða í uppreisnarhug sem kenndur var
við árið 1968. Mörgum fannst kominn tími til
að breyta.
Fyrir þá sem hugðu að aukið einstaklingsfrelsi
svaraði kalli tímans, en vildu jafnframt halda í
áherslu vinstriflokka á jöfnuð, kom bók Rawls
eins og himnasending. Hún fylgdi straumnum
í því að rökstyðja að takmarka skyldi vald
ríkisins yfir borgurunum en fól jafnframt í
sér fyrirheit um að frelsið og einstaklings-
réttindin yrðu þeim fátæku í hag. Úr þessu
varð til ný tegund vinstristefnu sem gjarna
er kölluð frjálslynd jafnaðarstefna. Það er
samt álitamál hvar réttast er að staðsetja
Rawls sjálfan á litrófi stjórnmálanna. Meðan
hann vann að bók sinni átti hann um margt
samleið með frjálshyggjumönnum. Eftir því
sem Forrester segir þáði hann boð Miltons
Friedman um að ganga í Mont Pèlerin-
samtökin árið 1968. Aðild hans að þeim lauk
þó 1971, árið sem Kenning um réttlæti kom
út. Hún rifjar líka upp að Friedrich von Hayek
lauk lofsorði á skrif Rawls og kvaðst að mestu
sammála þeim.