Þjóðmál - 01.03.2020, Side 82

Þjóðmál - 01.03.2020, Side 82
80 ÞJÓÐMÁL Vor 2020 Eins og frjálshyggjumennirnir Friedman og Hayek tortryggði Rawls ríkisvaldið og vildi í senn verja eignarétt og frelsi einstaklinganna en jafnframt skapa stöðugleika með varanlegu kerfi af reglum og stofnunum sem stjórnvöld hrófluðu sem minnst við. En Rawls tók samt um sumt mið af rökræðum sem áttu sér stað innan breska Verkamannaflokksins og hallaði sér í vaxandi mæli til vinstri eftir því sem á ævina leið. Forrester segir frá því í sjötta kafla að á efri árum hafi hann haft nokkrar áhyggjur af að kenning sín væri helst til hliðholl auðvaldinu. Það er þó álitamál hvort Rawls þokaðist til vinstri eða hvort miðjan færðist svo langt til hægri að hann endaði vinstra megin við hana. Eitt af því sem gerði Rawls að leiðtoga vinstri- manna var að þau andmæli gegn kenningu hans sem vöktu mesta athygli komu frá heimspekingi sem hélt fram afar strangri frjálshyggju. Sá hét Robert Nozick og ritaði bókina Stjórnleysi, ríki og staðleysa (Anarchy, State, and Utopia) sem út kom árið 1974 og var svar við bók Rawls. Nozick (1974) taldi rétt að hver maður ráðstafaði sjálfur aflafé sínu og mælti gegn því að ríkisvaldið gerði neitt til að jafna kjör borgaranna. Það skyldi aðeins verja eignir manna, líf og frelsi gegn ofbeldi en ekki hlutast til um skiptingu lífsgæða. Bók Nozicks vakti býsna mikla athygli og mörgum þóttu rök hans hitta í mark. Fleirum var þó um og ó yfir þeim boðskap að félagsleg velferðarkerfi skyldu með öllu afnumin og það átti sinn þátt í að margir vinstrimenn fylktu sér að baki Rawls. Þessa sögu rekur Forrester afar vel í fjórða kafla bókar sinnar. Áhrif Rawls á stjórnmálahugsun ýttu undir að vinstriflokkar legðu vaxandi áherslu á stofnanir samfélagsins og formleg réttindi einstaklinga en gerðu minna en fyrr úr mikilvægi verkalýðsfélaga, samskipta á smærri vettvangi og þátttöku almennings í menningar- og félagsmálum. Þessi áhrif áttu líka þátt í því að jafnaðarmannaflokkar tóku markaðsbúskap og einkaeign á fyrirtækjum í sátt en hugmyndir um þjóðnýtingu urðu, að minnsta kosti í bili, minna áberandi. Skuggi réttlætisins Kenning Rawls var mótuð á árunum eftir síðari heimsstyrjöld þegar ríkti almenn bjartsýni um framfarir og hagvöxt til langs tíma og flestir höfðu litlar áhyggjur af að brambolt samtímans skaðaði afkomu- möguleika komandi kynslóða. Þetta tók mjög að breytast um svipað leyti og bók Rawls kom út. Spurningar um ranglæti sem bitnaði á framtíðinni urðu áleitnari með hverju ári og eru nú um stundir daglegt efni frétta um loftslagsvanda og vistkreppu. Ég nefni þetta því kenning Rawls á bágt með að svara spurningum um hvers vegna við ættum að hirða um hag þeirra óbornu. Það má rifja upp í þessu sambandi að síðasta áramótaskaup Ríkissjónvarpsins endaði á að draga dár að þeirri hugsun að við skulduðum framtíðinni ekkert, þar sem þeir óbornu gerðu ekkert fyrir okkur. Þótt slík skoðun hafi ef til vill sjaldan verið orðuð skýrt á íslensku hefur hún verið töluvert til umræðu meðal þeirra sem rökrætt hafa kenningu Rawls og frá því segir Forrester ítarlega í sjötta kafla. Sé réttlæti afsprengi samkomulags manna sem hugsa aðeins um eigin hag leggur það ekki á þá neinar skyldur við aðra en samnings aðila. Þeir óbornu eru ekki þar á meðal, því ekkert sem fólk framtíðarinnar gerir þjónar sjálfhverfum hagsmunum þeirra sem nú lifa. Við höfum engin gagnkvæm tengsl við komandi kynslóðir því þær geta ekkert gert okkur. Sé hins vegar vikið frá því að miða aðeins við sjálfhverfa hagsmuni – séu siðferðileg gildi gerð að keppikefli þegar menn koma saman undir fávísisfeldinum – þá er réttlætið ekki leitt af sannindum sem eru hlutlaus um gildi og þá er siðferðilegur veru- leiki ekki útskýrður með vísun til hagsmuna sem menn hljóta að hafa óháð því hvort þeir láta sér annt um réttlætið.

x

Þjóðmál

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.