Þjóðmál - 01.03.2020, Side 89
ÞJÓÐMÁL Vor 2020 87
vera í samræmi við hlutfallslegan fjölda hvers
hóps í samfélaginu í heild. Annað væri prima
facie sönnun um ólöglega mismunun. Sú
orðræða sem af þessu hlaust átti eftir að lama
háskólana, sem urðu fórnarlömb eins konar
varanlegra nornaveiða sem minntu óþægilega
á kínversku menningarbyltinguna. Í stað þess
að líta á ytri einkenni sem ómálefnalegan
grundvöll að ákvarðanatöku og byggja
útdeilingu gæða á verðleikum óháð slíkum
einkennum fóru þau að skipta öllu máli.
Hópar sem fóru halloka út úr þessu kerfi fóru
að gæta hagsmuna sinna á grundvelli þeirra
ytri einkenna sem kerfið úthlutaði þeim.
Þannig hófu gyðingar og Bandaríkjamenn
af asískum uppruna að mótmæla þeirri
neikvæðu mismunun sem þeir urðu fyrir við
inngöngu í háskóla vegna nauðsynjar þess
að tryggja „fjölbreytileika“. Baráttan gegn
meintu ójafnrétti, fordómum og mismunun
varð jafnframt að ábatasömum iðnaði, sem
gat af sér öfluga hagsmunagæslu, eins
og oftast fylgir slíkum iðnaði, enda um
óþrjótandi auðlind að ræða.
Jafnréttislögin og önnur tengd lög voru líka
dýru verði keypt enda kölluðu þau á stóraukin
fjárútlát hins opinbera, sem ásamt vaxandi
kostnaði við stríðsrekstur í Víetnam ollu
viðvarandi fjárlagahalla og verðbólgu. Ótti
fyrirtækja við lögsóknir á grundvelli hinnar
nýju löggjafar varð svo megindrifkrafturinn
á bak við vöxt þess sem kallað hefur verið
„dyggðaflöggun“, sem spratt upp úr viðleitni
fyrirtækja til að bólusetja sig gegn lögsóknum
byggðum á ásökunum um fordóma og
mismunun með því að reyna að sýna með
virkum og fyrirbyggjandi hætti fram á einlæga
trú sína á hið nýja jafnréttisguðspjall eins og
það var túlkað af róttæklingum í háskóla-
samfélaginu. Lögin gerðu líka að mörgu leyti
líka illt verra í samskiptum hvíta meirihlutans
og svarta minnihlutans. Enda skiptust
leiðtogar blökkumanna upp frá því milli
þeirra sem vildu taka þátt í samfélaginu
á sama grundvelli og aðrir og hinna sem
kröfðust stöðugt fleiri sérúrræða og vildu
kenna hvítum um allt sem miður fór.
Þegar á leið áttunda og níunda áratuginn og
róttæklingar höfðu komið sér fyrir í stjórn-
málum og menningu hins vestræna heims
fór arfleifð sjöunda áratugarins að kristallast
í alveg nýju samfélagsmódeli, sem kalla má
„einstaklingssamfélagið“. Það byggðist á
róttækri afstæðishyggju, þar sem sjálfsforræði
einstaklingsins var heilagt og hvers kyns
„menningarleg skilyrðing“ bönnuð. Þannig
væri þjóðin bara „ímyndað samfélag“, eins og
Benedict Anderson kaus að lýsa því í sam-
nefndri bók sinni, sem kom út árið 1983.
Menning þyrfti því að fara sömu leið og
trúarbrögð; ríkið hefði enga sérstaka
menningu að verja og setja þyrfti á fót eins
konar hlutlausan stofnanaramma, þar sem
engri menningu yrði gert hærra undir höfði
en öðrum. Miðlun hvers kyns viðmiða, þar
á meðal í tengslum við uppeldi barna, varð
óæskilegt brot á sjálfsforræði einstaklingsins.
„Aðskilnaður ríkis og þjóðar“ væri rökrétt
framhald í framþróun mannkynsins,
nauðsynlegt skref til þess að „alls konar“ gæti
dafnað í samræmi við leit einstaklingsins að
„algjörri frelsun“ og „ósvikinni sjálfstjáningu“.
Mannréttindi –
réttarríkið gegn hinu pólitíska valdi
Í öllu þessu fólst veruleg breyting frá samfélags-
módeli þjóðríkisins. Því sem afrakstur
byltingar skilgreindi nýja samfélagið sig
auðvitað í biturri andstöðu við það sem á
undan kom: gamla samfélagið var lóðrétt,
hin nýja lárétt, byggt á samskiptum og
markaðnum; gamla samfélagið var hálfopið
– takmarkað við þjóðina – en nýja samfélagið
opið öllum; gamla samfélagið hafði eigin
sögu og menningu að miðla og verja en
nýja samfélagið ekki – hugmyndafræði þess
var róttæk afstæðishyggja þar sem ekkert
var réttara, betra eða verra en hvað annað.
Mikilvægasta gildið var fjölbreytileikinn;
umburðarlyndi og varanleg barátta gegn
hvers kyns „fordómum“ og „mismunun“
helsta viðfangsefnið. Eina viðurkennda
trúarsetningin: mannréttindin.