Strandapósturinn - 01.06.1981, Side 23
frétta, en bað mig að bíða. Kom hann fljótt aftur og sagði að
maður frá Fjarðarhorni væri að fara heim og tilvalið fyrir mig að
fylgjast með honum. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, kvaddi
heimilisfólk og þakkaði hjálpsemina. Síðan hefi ég jafnan hugsað
hlýtt til Halldórs sýslumanns.
Ég hitti manninn frá Fjarðarhorni og varð honum samferða
heim til hans. Þegar þangað kom var farið að bregða birtu, en ég
hélt samt áfram að Fögrubrekku, því ég þekkti lítið eitt til
bóndans þar, Halldórs Ölafssonar. Hafði hann meðal annars
verið kennari við Heydalsárskólann meðan hann var við lýði. Ég
kom að Fögrubrekku í kolamyrkri og eitthvað vafðist fyrir mér
að finna bæinn, því hvergi sást Ijós í glugga. Það tókst nú samt á
endanum. Gisti ég þar um nóttina.
Næsta dag, sem var laugardagur, var komið besta veður, hæg
sunnanátt. Auðséð var, að ár og lækir höfðu vaxið mikið um
nóttina. Sagðist því Halldór bóndi ætla að lána mér vinnumann
sinn til fylgdar fram að Óspaksstöðum, og skyldi hann bera mig
yfir tvær óbrúaðar ár, sem voru á leiðinni. Vinnumanninn,
Guðbjörn Benediktsson, þekki ég vel, því hann hafði um tíma
verið vinnumaður á Broddanesi. Skildi hann ekki við mig fyrr en
á Óspaksstöðum, sem eru austan Hrútafjarðarár og því í Húna-
vatnssýslu. Ég hitti húsfreyju og bar henni kveðju bróður henn-
ar, og tók hún mér sem ég væri ættingi hennar. Þar dvaldist ég
það sem eftir var dagsins og fram undir kvöld á sunnudag. Ég
fékk það staðfest að pósturinn færi frá Stað snemma á mánu-
dagsmorgun, og ákvað ég því að fara um kvöldið yfir að
Grænumýratungu, því vegurinn upp á Holtavörðuheiði lá þar
fast við túngarðinn. Ég fékk lánaðan hest yfir Hrútafjarðará til
að þurfa ekki að krækja niður á brú. Gekk vel yfir ána, þótt hún
væri á miðjar síður, en hesturinn óð sterklega. Rak ég hann svo
til baka og hélt síðan til bæjar í Grænumýrartungu. Heldur gekk
illa að sofna um kvöldið, því ekki var laust við að dálítinn geig
setti að mér við tilhugsunina um ferðina yfir heiðina. Áður en
nokkur dagsskíma sást var ég vakinn og sagt að vera tilbúinn, því
pósturinn væri vanur að taka daginn snemma.
Litla matarlyst hafði ég þótt lagt væri að mér að borða vel.
21