Strandapósturinn - 01.06.1981, Side 40
því augnamiði að komast vestur fyrir Hom. Við gáfum sam-
þykki okkar og sigldum í stefnu norð-Norðvestur. Þannig sigld-
um við gegnum ísinn alla nóttina og á hverju auganbliki vofði sú
hætta yfir, að við brytum skipið í spón, þótt nú væri orðið dálítið
bjartara í lofti.“
Lýðræðisleg framkoma stýrimanns í þessu tilviki vekur hér
athygli og þætti jafnvel enn i dag saga til næsta bæjar. Jafnframt
gefur hún til kynna hve alvarlegt ástandið var orðið. Ef til vill
má álykta sem svo, að stýrimaður hafi viljað deila ábyrgðinni
með skipshöfn sinni og Iétta þar með að nokkru á þeim áhyggj-
um, sem hvíldu á hans eigin herðum. Líklegast er þó að honum
hafi fyrst og fremst gengið til virðing fyrir lífi og limum manna
sinna og vilja þeirra í sameiginlegum háska. Gefur það nokkra
vísbendingu um þann félagslega þroska, sem þessir menn höfðu
vanist og búið við í heimalandi sínu, og styður þá skoðun, sem
haldið verður fram, að hvergi hafi félagslegt réttlæti verið lengra
á veg komið á þessum tíma en einmitt í Hollandi, þar sem þróun
borgarastéttarinnar hafði náð lengst í lýðræðislegum samfélags-
háttum. En þetta var útúrdúr og við skulum aftur leyfa sögu-
manni að komast að:
„Undir morgun þess tuttugasta og þriðja urðum við að krækja
fyrir ísfláka, tveggja mílna langan. Þegar við vorum komnir fyrir
flákann, snerist vindur til norðurs, þannig að við gátum aðeins
siglt norð-Vestur, þótt við hefðum gjarnan viljað annað. Auk
þess var ísinn svo óskaplega þéttur, óhugnanlegur ásýndum og
hættulegur, að enginn okkar hafði matarlyst né heldur löngun til
að sofa, þótt við værum nær örmagna. Kvíði okkar jókst með
hverju andartaki sem leið. Undir miðjan dag var kallað: „Þarna
er land!“ En enginn okkar vissi hvar við vorum. Ásamt fylgdar-
skipi okkar vildum við reyna að komast inn á fjörð eða höfn og
bjarga með því lífinu, því vökumar, erfiðið að komast gegnum
ísinn, og langvarandi óttinn við að farast þá og þegar, hafði
dregið svo úr okkur allan mátt, að við vorum ekki lengur færir
um að standast slíkt og þvílíkt mótlæti. Við stefndum því að
landi. Við mældum dýpið, sem reyndist 16, 15, 13 faðmar. Loks
38