Strandapósturinn - 01.06.1981, Side 64
Með byggingu þessa húss var því lagt inn á nýjar brautir í
tvennum skilningi.
Og nú loks varð ekkert lengur til hindrunar. Guðmundur
Bárðarson og menn hans tóku til starfa og luku smíðinni áður en
árið var á enda. Húsið var afhent á almennum hreppsfundi á
gamlársdag árið 1896 og mátti þá heita tilbúið til skólahalds.
Á þeirri samkomu ríkti glaðværð og fögnuður. Menn komu
ekki aðeins til að skoða nýstárlegt hús, heldur fyrst og fremst til
að fagna unnum sigri og nýju ári, ári sem markaði tímamót í
menningarsögu sýslunnar. Hugsjón Strandamanna um skóla-
stofnun var loksins orðin að veruleika, nær hálfri öld eftir að hún
kom fyrst fram. Sjaldan mun hafa verið efnt til mannfagnaðar í
Strandasýslu af meira tilefni.
Nú gætu ýmsir haldið, að það hafi varpað skugga á þessa
gleði, að rikið eða landssjóður lagði ekki eina krónu af mörkum í
þessa skólabyggingu. En svo var áreiðanlega ekki . . Hér var
enginn þrýstihópur á ferðinni, sem gerði harðar kröfur til sam-
félagsins. Og þó gerði þetta fólk kröfur, og þær miklar, en —
kröfunum beindi það í eigin barm, já fyrst og síðast til sjálfs sín.
Þessi fullyrðing er annað og meira en orðin tóm. Því til sönn-
unar skal upplýst, að á hreppsfundinum 31. desember 1896 var
lagður fram samskotalisti vegna skólabyggingarinnar. Á þann
lista rituðu með unglingum og gamalmennum meir en 40 manns
og lofuðu að gefa samtals 1052 krónur fyrir árslok 1897. Þar
hefur margur gefið aleigu sína i lausum fjármunum. Til þess að
menn átti sig betur á verðmæti þessarar gjafar, þá er einfaldast
að breyta henni í mánaðarlaun. Fyrsti skólastjóri Heydalsár-
skólans Sigurgeir Ásgeirsson hafði 25 kr. í laun á mánuði fyrstu
árin. Gjafaloforðin nema því 42 mánaðalaunum, sem jafngildir
10 og hálfri miljón króna á þvi herrans ári 1979, þó aðeins sé
reiknað með 250 þús. kr. mánaðarlaunum. Og að meðaltali
hefur hver gefandi látið ein mánaðarlaun af hendi rakna til
Heydalsárskólans, auk þess, sem fór til hans óbeint gegnum
sveitarsjóðinn. Ekki þori ég að fullyröa að nú sé uppi fólk svo
mikillar gerðar, þótt efni hafi meiri, enda mun ekki á það reyna í
náinni framtíð. En svona stórir í sniðum voru forfeður okkar,
62