Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Blaðsíða 190
nefndu tvö mál væru skyld hinum. Í framhaldinu segir að Rask hafi lagt grunninn
að Grimmslögmáli (þ.e. germönsku hljóðfærslunni); út frá samanburði orða eins
og fnorr. faðir, gotn. fadar, find. pitár-, gr. patḗr og lat. pater hafi hann komist að
samsvörun framstöðusamhljóðsins /f/ í germönsku og /p/ í fornindversku,
grísku og latínu. Lesandinn hlýtur að furða sig á misræminu sem felst í því að
annars vegar er greint frá því að Rask hafi ekki stuðst við indversk dæmi, hins
vegar að hann hafi ályktað um skyldleika út frá dæmum úr þessu máli. Sennilega
kemur það til af því að síðar, eftir að téð rit hans hafði verið gefið út, var Rask
ekki lengur í neinum vafa um skyldleika norrænu annars vegar og indversku og
írönsku hins vegar. Þetta þarf samt að koma skýrt fram í textanum.
Neðar á sömu blaðsíðu eru tvær töflur sem eiga að sýna samsvaranir latneskra
og fornnorrænna orðmynda með tilliti til germönsku hljóðfærslunnar. Seinni
taflan nær yfir á næstu blaðsíðu (bls. 26). Eðlilegra hefði verið að skeyta þeim
saman í eina heilsteypta töflu. Undir fyrri töflunni stendur: Tafla 1: Hljóða -
samsvaranir latínu og fornnorrænu. Hér eru nefnd dæmi um lat. p, t, c andspænis
fnorr. f, þ, h í framstöðu. Í seinni töflunni eru tilfærð dæmi um lat. p, t, c og
frgerm. f, þ, h annars vegar og lit. b, lat. d, g og frgerm. p, t, k hins vegar. Aftur á
móti er ekki sýnt hvernig ie. fráblásnu rödduðu hljóðin bh, dh, gh þróuðust í germ -
önsku. Undir töflunni stendur engu að síður: Tafla 2: Útkoma úr germönsku hljóð -
færslunni. Athugasemdir þarf að gera við tvær endurgerðar myndir fyrir frumgerm -
önsku: (1) kk. þrír (gotn. þreis) var ekki *þrijaz heldur *þrejez (> *þrejiz > *þreiz
> *þrīz); (2) orðið um ‘epli’ var ekki *apal- heldur *apla- (eins og fe. appel, æppel
fsax. appul o.fl. bera vott um; að auki var sennilega til myndin *apala-, sbr. ísl. apal-
grænn, apalrauður).
Breyting ie. rödduðu lokhljóðanna b, d, g í samsvarandi órödduð hljóð p, t, k
í frumgermönsku skildi eftir sig eyðu sem MS segir (á bls. 26) hafa verið fyllta
með þróun ie. fráblásnu rödduðu hljóðanna bh, dh, gh sem breyst hafi í b, d, g í
frumgermönsku. Þar með hafi röð raddaðra ófráblásinna lokhljóða verið endur-
reist í germönsku. Þetta skilur lesandinn að sjálfsögðu þannig að umrædd fráblásin
lokhljóð hafi í frumgermönsku aðeins glatað fráblæstri sínum. Það er auðvitað
ekki rétt heldur breyttust þau í rödduðu önghljóðin ƀ, đ, ǥ (= [β], [ð], [ɣ]), sem þó
í síðfrumgermönsku urðu að lokhljóðum í framstöðu og í innstöðu á eftir nef-
hljóði (sbr. Stiles 2017:890–891). Þessi ruglingur stafar af því að í sumum fræði -
ritum eru táknin b, d, g notuð um bæði lokhljóð og önghljóð í germönsku.
7. Nafn Óðins
Á bls. 26 er guðsheitið Óðinn endurgert sem frgerm. *wōdaná- (eða *wōdanú-
með upprunalegri áherslu á viðskeyti). Stefan Schaffner (1999), sem hefur fjallað
um þetta nafn, gerir ráð fyrir að í frumgermönsku hafi það verið *Wōđuna-, leitt
af *wōđu- ‘skáldlegur innblástur, skáldskaparlist’ með hinu svokallaða „drottn-
araviðskeyti“ (Herrschersuffix) *-na- (< *-no- eða *hxno-), og merking þess verið
‘guð hins skáldlega innblásturs eða leiðslu’. Í ritdómi um grein Schaffners bendi
ég á að enginn (öruggur) vitnisburður er til um nafnmyndina *Wōđuna- (Jón
Ritdómar190