Ný menntamál - 01.06.1983, Blaðsíða 55
Við hvaða skóla hafa nemendur eink-
um stundað nám?
Guðlaug: Mjög gott samstarf varð
strax við Iðnskólann í Reykjavík,
Menntaskólann við Hamrahlíð, Mynd-
lista- og handíðaskóla fslands og fleiri
skóla. En fljótlega kom í ljós að ógjörn-
ingur var fyrir nemendur héðan að
stunda nám í almennum framhalds-
skólum án verulegrar aðstoðar. Ég get
nefnt dæmi til skýringar. Algjörlega
heyrnarlaus nemandi, sem stundaði
framhaldsnám, gat engan veginn fylgt
öðrum nemendum í náminu. Hann
þarfnaðist einstaklingskennslu i bókleg-
um greinum og nauðsynlegt reyndist að
einfalda og endurvinna námsefnið. Auk
þessa varð túlkur að aðstoða hann í
hinu verklega námi. Nemandinn þreytti
síðan lokapróf eftir Iengra nám en hinir
heyrandi og fékk mjög góðan vitnis-
burð.
Hve margir nemendur hafa lokið
námi?
Guðlaug: Þeir eru 12 talsins. Þeir
hafa lokið prófum í húsa- og bifreiða-
smíði, gullsmíði. auglýsingateiknun og
ennfremur hafa þeir lokið sjúkraliða-
og teiknikennaranámi.
Eru breytingar fyrirhugaðar á starf-
semi deildarinnar?
Guðlaug: Við verðum sífellt að
endurmeta kennsluhætti. Markmið
okkar er að allt heyrnarskert fólk fái
tækifæri til að stunda framhaldsnám.
Eg hef frétt að 17 kennarar hér stundi
nám við Stokkhólmsháskóla til að öðl-
ast starfsréttrndi sem heyrnleysingja-
kennarar. Er ekki unnt að stunda slíkt
nám hér heima?
Guðlaug: Margir kennarar við skól-
ann hafa hlotið sérmenntun sína erlend-
is því að þeir hafa ekki getað aflað sér
hennar hér á landi. Allmargir þeirra
hafa ekki sérkennararéttindi en þeir
hafa flestir starfað lengi við skólann —
allt að 14 árum. Það var ljóst að þessi
hópur færi ekki utan til náms enda
hefði það verið býsna erfitt fyrir fjöl-
skyldufólk. Þótt kennararnir hefðu
getað farið hefðum við þurft að ráða
óreynt fólk meðan á námi stæði en við
vildum komast hjá því í lengstu lög. Ég
kynnti mér menntun heyrnleysingja-
kennara erlendis og komst að raun um
að við gætum leyst málið ef við fengjum
hjálp frá erlendum háskóla. Stokk-
hólmsháskóli (Högskolan för lárarut-
bildning i Stockholm — speciallárarlin-
jan) varð fyrir valinu enda sýndu menn
þar málinu mestan áhuga og voru einnig
að vinna sambærilegt verkefni í sam-
vinnu við Álandseymga. Námið hófst í
mars 1982. Hingað koma lektorar frá
Svíþjóð og halda fyrirlestra en íslenskir
kennarar leggja okkur líka Iið. Náms-
efnið er það sama og heyrnleysingja-
kennarar í Svíþjóð verða að tileinka sér.
Nokkur hluti námsins fer fram bréflega
með milligöngu Bréfaskólans en sænsk-
ir lektorar meta úrlausnir og svara bréf-
um. Kennararnir munu einnig fara í
námsför til útlanda. Menntamálaráðu-
neytið hér og Stokkhólmsháskóli sam-
þykktu starfsáætlun og var sérstakur
námstjóri, Ólafur H. Kristjánsson,
ráðinn til að fylgjast með framkvæmd
hennar.
Gunnar: Við kennararnir erum mjög
ánægðir með þetta framtak og ber fyrst
og fremst að þakka Guðlaugu það.
Guðlaug: Ég vildi einfaldlega að um-
ræddir kennarar fengju tækifæri til að
taka tilskilin próf þannig að þeir gætu
haldið áfram að kenna hér. Reynsla
þeirra er ómetanleg. Ég er einnig þeirrar
skoðunar að nám sérkennara á þessu
sviði sem öðrum verði að tengjast raun-
verulegum viðfangsefnum. Þessir kenn-
arar eiga auðvelt með að tengja bók-
námið veruleikanum.
Gunnar: Sænsku lektorarnir hafa
raunar haft orð á því að mun auðveld-
ara sé að ræða við okkur um kennslu-
fræðileg efni en fólk í Svíþjóð sem hef-
ur nám án þess að hafa starfsreynslu.
Þetta þarf auðvitað ekki að koma nein-
um á óvart.
Er ekki hætta á því að þið vanmetið
hæfileika nemenda ykkar og gerið því
of litlar kröfur til þeirra?
Gunnar: Ég held að meiri hætta sé á
því að aðrir vanmeti þá. Við verðum
auðvitað sífellt að spyrja okkur þessarar
spurningar. Það er misskilningur að
heyrnleysingjum líði alltaf mjög illa,
þeir þjáist af minnimáttarkennd og séu
oftast utanveltu í tilverunni. Margir eru
sáttir við hlutskipti sitt og þekkja ekki
annað. En fólki hættir til að hjálpa
heyrnleysingjum of mikið þannig að
þeir geri ekki nógu miklar kröfur til
sjálfra sín. Góðmennskan má aldrei
draga úr viðleitni til sjálfsbjargar.
Guðlaug: Við verðum að sýna nem-
endum að þeir eru ekkert undirmáls-
fólk. Heyrnleysingjar þurfa að leggja
mikið á sig til að ná góðum árangri.
Margir öðlast sjálfsaga og einbeitingu
sem kemur sér vel í starfi síðar. Því
kröfuharðari sem við erum þeim mun
betra er það fyrir nemendur þegar þeir
eru farnir héðan. Lífið er oft erfiður
skóli.
55