Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1969, Blaðsíða 39
GÖMUL HÚS A NÚPSSTAÐ
43
mikil fátækt og árið 1784 bættust ofan á miklir jar'ðskjálftar svo að
mikið hrundi af húsum. Það er því ljóst að mjög margir heilir bæir
hafa verið reistir að nýju um aldamótin og var þá óvenjuleg að-
staða fyrir nýjan stíl að ryðja sér til rúms, og ætl'a ég að þá hafi
risið bæir í hinum nýja burstastíl víða um Suðurland, enda þótt svo
sé að sjá að til hafi verið eldri bæir af þeirri gerð. (Árið 1896 hrundu
aftur flestir þessir bæir í Árnes- og Rangárvallasýslum, og þá má
heita að burstabæirnir hyrfu í einni svipan, en öld timburhúsa kæmi
í staðinn. Vissulega er blómaskeið sunnlenzku burstabæjanna á milli
þessara geigvænu jarðskjálfta 1784 og 1896 eða aðeins 112 ár).
Nú fer það ekki á milli mála, að bærinn á Núpsstað er að mestu
leyti af burstabæjagerð, og þykir mér trúlegt að niðjar Hannesar
Jónssonar bónda á Núpsstað, þess sem dó í Móðuharðindunum, hafi
reist hann þegar þeir fóru að rétta við eftir harðindin, en þeir voru
Ieiguliðar kirkjunnar unz Dagbjartur Jónsson keypti jörð og hús
árið 1840. Mér þykir þó mögulegt að skálinn og jafnvel eldhúsið séu
eldri. Þau hús eru bæði greinilega leifar af eldri húsaskipan og um
skálann má segja að hann var sjálfur lítið notaður öðru vísi en sem
umgangssvæði, en ekki ætlað sérstakt hlutverk eins og öðrum húsum
á bænum. Það var því minni ástæða til að byggja skálann að nýju og
sízt að hafa hann stærsta hús bæjarins. Um eldhúsið gegnir öðru
máli, en það virðist þó hafa verið mjög tengt skálanum. Húsin stóðu
samhliða með sameiginlegan vegg að nokkru á milli sín, gerð upp
á mjög líkan hátt og sneru öðru vísi en öll önnur hús á Núpsstað. 1
þessu sambandi er vert að minnast hinna óvenju fornlegu hlóða, sem
enn má sjá í eldhúsinu. Ég gæti hugsað mér að þessi hús væru frá því
fyrir 1783, einkum skálinn og að hann hafi verið rúmlega 100 ára þeg-
ar hann var rifinn. Þetta kann að þykja hár aldur á sunnlenzku húsi,
en þess má þá geta til samanburðar að eldhúsið, sem ekki var nýtt ár-
ið 1890, stendur enn tæpum 80 árum síðar,* svo að ekki er fjarstæða
að skálinn hafi einmitt verið orðinn þetta gamall.
Eftir er þá að gera sér grein fyrir Litlahúsinu. Trúlegt er að það
sé frá sama tíma og bærinn og yngra en skálinn. Hér um vantar upp-
lýsingar og þær eru hvergi að fá. Mér þætti trúlegt, að bærinn hafi
verið reistur einhvern tíma á 19. öld (eftir 1840 þegar bóndinn hafði
eignazt jörðina?) og þá hafi skálinn og eldhúsið verið látin standa,
en ef til vill hresst eitthvað við. Þetta er þó aðeins ágizkun studd helzti
veigalitlum rökum. Þó uppgerð þessara húsa sé fornleg, er hún þó
* Sbr. þó neðanmálsgrein á bls. 26.