Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1969, Blaðsíða 121
TVÆR DOKTORSRITGERÐIR
125
mjög góðan myndapappír, og af hálfu höfundar er það til fyrirmynd-
ar, að góð registur fylgja. Einkum er það mjög þægilegt, að registur
er yfir alla hluti, sem teknir eru á einhvern hátt með í rannsókninni,
því að vafalaust þarf oft á því að halda að finna, hvar vikið er að
einhverj um tilteknum hlut, og er manni þá spöruð sú leit, sem margir
kannast við að gera þarf í slíkum yfirlitsverkum, ef þau eru registurs-
laus. Meðferð íslenzkra nafna er framúrskarandi og prófarkalestur
lýtalaus. Allt þetta ber að virða.
Bók þessi fæst við jurtaskreytið í íslenzkum tréskurði eins og titill
hennar bendir til. Samt er hún í reynd saga íslenzks tréskurðar yfir-
leitt, þar sem jurtaskreytið er svo yfirgnæfandi í þessari listgrein.
Frú Mageroy hefur hér lagt til atlögu við risastórt verkefni og lagt
grundvöll að allri framhaldsrannsókn á þessu sviði. Bók hennar sýnir
ljóslega, hve tréskurðurinn var merkilegur þáttur í íslenzkri alþýðu-
menningu, og leiðir hann til þess vegs, sem honum ber. Þetta er mikið
framlag til íslenzkrar menningarsögu, og er bæði ljúft og skylt
að þakka þessari útlendu konu þetta mikla framtak hennar og þá
alúð, sem hún hefur lagt við verk sitt. Öllum öðrum fremur munu
íslenzkir safnmenn verða henni þakklátir. Það hefur eklvi fram að
þessu verið árennilegt að koma ókunnugur að hinum miklu hrúgum ís-
lenzks tréskurðar og eiga áð svara með rökum til hvaða tíma telja
beri hvern einstakan hlut. Eftir sem áður mun það geta verið vand-
kvæðum bundið að vera viss í sinni sök. En í flestum tilvikum mun
þetta rit greiða veginn, þáð mun verða notað sem handbók safnmanna
og hjálpa þeim til að koma lögum yfir efnið og fá þeim í hendur það
orðakerfi, sem nauðsynlegt er til þess að hægt sé að tala um það af
viti. Ég á von á því, áð margar sérrannsóknir eigi eftir að spretta
af þessu verki, þar sem fyrir verða tekin einstök atriði og grafizt
dýpra eftir þeim en hægt hefur verið í svo víðfeðmu yfirliti. En allt
mun það verða gert í framhaldi af þessu verki og svo sem á bak-
grunni þess.