Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1969, Qupperneq 113
TVÆR DOKTORSRITGERÐIR
117
hlotizt, og eins skilgreiningar á stílafbrigðum. Það var varla við því
að búast, að mjög hreinar línur kæmu fram um þróun stig af stigi,
efniviðurinn er of lítill til þess. Það er reynt að skapa heild úr brotum,
sem eru allt of fá, en nógu mörg til þess að geta leitt á refilstigu. En
öfgalaus og skynsamleg umræða kaflans í heild mun verða til mikillar
hjálpar þeim, sem við íslenzka miðaldalist fást í framtíðinni.
5.
í þriðja kafla bókarinnar spyr höf. fyrst þeirrar spurningar, hvort
siðaskiptin tákni nokkur skil í listinni. f því skyni að svara þeirri
spurningu skoðar hún alla tréskurðarhluti, sem með vissu eða líkum
eru frá síðari hluta 16. aldar, en þeir eru því miður ekki margir,
Draflastaðastóll, spónastokkur Teits Þórðarsonar, trafakefli Þór-
unnar á Grund, kistill Guðbrands biskups, skáphurð frá Dalvík,
númerlaus fjöl með teinungi. Þetta eru yfirleitt ágæt verk, og þau
sýna, að hinn rómanski teinungur heldur áfram, „íslenzkur stíH“,
en hér er auk þess komin fram greinileg tilhneiging til að nota band-
fléttur (entrelac), og mundu þar vera áhrif frá renesansinum, en
annars gæti maður freistazt til að segja, að hann hefði gengið fram
hjá garði á íslandi. Vitanlega var hann þó þekktur hér, og til voru
góðir erlendir hlutir, sem sýndu hann til hlítar, svo sem prédikunar-
stóll Guðbrands biskups, en það er mjög eftirtektarvert, hve lítið hann
nær sér niðri hjá íslenzkum listamönnum. Líklega hefur hann ekki
verið nógu alþýðlegur fyrir tréskerana, hann er meira bundinn við
atvinnumenn í tréskurði. Einstök atriði höfðu sín áhrif, en enginn
íslenzkur tréskeri er slíkur að kenna mætti verk hans við renesans.
f sambandi við íslenzkan stíl á seinni hluta 16. aldar kemur frú
Mageroy að einu merkilegu atriði, myndamótunum í Guðbrandsbiblíu.
Westergárd-Nielsen hefur sýnt, að þau eru ekki íslenzk, heldur
þýzk, flutt inn hingað, og fellst frú Mageroy á það í aðalatriðum. En
hún kemst að þeírri merkilegu niðurstöðu, að íslendingar hafa þó haft
einhverja hönd í bagga. Hún nefnir einkum upphafsstafina I og 0,
sem eru greinilega í hinum íslenzka vafteinungastíl, þó að í þeim sjá-
ist renesanseinkenni. Einnig bendir hún á svolitla teinunga neðst á
titilblaði báðum megin. Fullyrðir hún, að skrautverk þetta geti ekki
átt upptök sín í þýzkri myndamótalist, og telur það á einhvern hátt
af íslenzkum rótum runnið, dettur í hug að ef til vill hafi íslenzkar
fyrirmyndir verið sendar til Þýzkalands, forðast að gefa Guðbrandi
biskupi sjálfum neitt bréf sem tréskera, eins og líka er rétt. Þessi