Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1969, Page 127
KRISTJÁN ELDJÁRN
FORNLEIFAFUNDUR I YTRI-FAGRADAL
Hinn 2. júlí 1965 hitti ég í Grafarholti aldraðan mann, Kristján
Haraldsson, sem áður hafði verið bóndi á Skarðsströnd í Dalasýslu.
Hann afhenti mér allmiklar leifar af fornum kambi og kambslíðrum
eða kambhylki, enn fremur fornlegt hnífsblað úr járni, einnig sýnis-
horn af viðarkolasalla úr gólfskán, að því er hann taldi. Kvað hann
allt þetta hafa fundizt í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd árið áður, og
hefði húsfreyja þar, Borghildur Guðjónsdóttir, fundið það í jarðýtu-
flagi. Taldi Kristján, sem er glöggur fróðleiksmaður, að þarna væri
ef til vill margt að finna. Ég talaði við Borghildi í síma og bað hana
að sjá til þess, að ekkert yrði hreyft á staðnum frekar en orðið var,
og lofaði hún því. Fornleiíarnar voru færðar inn í dagbók safnsins
þennan sama dag.
Fornleifar þessar og frásögnin af fundaratvikum þótti mér svo for-
vitnilegt, áð ærin ástæða væri til þess að gefa því nánari gaum við
tækifæri og freista þess þá meðal annars að finna fleiri brot úr kamb-
inum góða. Gerði ég ferð mína vestur um haustið og var við rann-
sókn í Ytri-Fagradal 4. og 5. sept., í björtu veðri og köldu, en taldi þá
ekki eftir atvikum þörf á frekari rannsókn.
Bæjarlækurinn í Ytri-Fagradal er vatnsmikill og rennur rétt utan
við bæinn, kailaður Fagradalsgil, og fellur niður túnið í mörgum
bugðum og sveigum í alldjúpu gili. Verða víða grasigrónir snotrir
hvammar eða hvöpp við lækinn. Gamla túnið var mest eða allt innan
vi'ð lækinn, og sér þar enn parta af allmiklum harðgrónum túngarði.
Niður með læknum að innan eru mikil fjárhús, en skammt fyrir ofan
þau er flöt fit við lækinn, og sagði Kristján Haraldsson, að þetta
hefði heitið Blóðakur. Hefði þar verið sporöskjulagað gerði eða girð-
ing, en nú (1965) er þar kartöflugarður. Hafði Kristján það eftir
Önnu Friðriksdóttur, húsfreyju í Ytri-Fagradal (konu Þorsteins
Brynjólfssonar), að þarna væri Blóðaltur, en hins vegar hefði Herdís