Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1969, Page 132
ATHUGASEMD UM MYNDINA
AF JÓNI VÍDALÍN
Skömmu eftir að Árbók 1968 kom út, skýrði Ólafur Halldórsson
handritafræðingur mér frá þeirri skoðun sinni, að steinprentaða
myndin af Jóni biskupi Vídalín, sú sem birtist í Nýjum félagsritum
1847, mundi vera gerð eftir tveimur fyrirmyndum: Annars vegar
gömlu vatnslitamyndinni, sem prentuð er á bls. 87 í Árbók 1968, hins
vegar andlitsfalli Jóns Sigurðssonar.
Vel má vera, að þetta sé rétt athugað. Þá hefur Helgi Sigurðsson
tekið nokkurt mið af andliti Jóns Sigurðssonar, þegar hann var að
betrumbæta gömlu vatnslitamyndina af Jóni Vídalín og búa hana
undir steinprentun. Myndin í Félagsritunum er reyndar ekki óáþekk
vatnslitamyndinni, en þó er það einkum gervið, hárkollan, pípu-
kraginn og hökutoppurinn, sem er svipað á báðum. Ef allt þetta er
numið burtu, sést betur að myndin í Félagsritunum ber svip af
Jóni Sigurðssyni, reyndar sem rosknum manni, en 1847 var hann
ekki nema 36 ára. Nú kann þetta að vera tilviljun, en þá er hún
einkennileg, þar sem myndin er einmitt gerð undir handarjaðri
Jóns Sigurðssonar. Væri reyndar ekki óskemmtilegt, ef það kæmi nú
upp úr kafinu, að hin alkunna mynd af meistara Jóni sé að ein-
hverju leyti af Jóni forseta.
Þess ber þó að minnast, að mjög er mismunandi hvernig menn
sjá líkingu í andlitsfalli manna. Það er ekki víst að öllum finnist
þetta eins greinilegt og Ólafi Halldórssyni.
K. E.