Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Síða 95
DULARFULLIR SKURÐLISTARMENN Á 18. ÖLD.
99
sú, að Sigurður Guðmundsson málari hefur'skrifað á seðil í einum kistlinum
(8. mynd): „Hallgrímur faðir Þorláks í Skriðu hefur skorið þennan kistil.“
Þegar einu sinni var farið að leggja trúnað á þessa upplýsingu, hlaut sú
ályktun að verða dregin að hlutir með samskonar útskurði væru einnig verk
Hallgríms. Ókunnugt er hvaðan Sigurður málari hafði þennan fróðleik sinn.
— Við skulum vona að fyrr eða síðar takist að bera kennsl á smáskurðarmeist-
arann.
Timi er til kominn að hverfa aftur að skrautfjöl Ólafs amtmanns Stefáns-
sonar. Með nokkrum rétti er hægt að halda því fram að hún sýni skyldleika
bæði við flokk 1 og 2. Lögun blaða á fjölinni á sér margar hliðstæður meðal
blaða í flokki 1. Þetta sést ef til vill langbest með því að bera fjölina saman við
4. og 10. mynd. Sérstaklega augljós eru líkindin milli stærstu blaðanna á 1.
mynd og 10. mynd. Yfirborðsmeðferðin, sneiðingin á stönglum og blöðum,
getur einnig minnt á smáskurðarmeistarann. Aftur á móti ber lítið á skorum
og stungum sem eru svo algengar á hlutum í flokki 2, og það getur varla verið
veðrun að kenna. Á skrautfjöl Ólafs Stefánssonar eru hinsvegar engir kólfar
með laufblökum, sem sjást svo víða í verkum smáskurðarmeistarans. En það
sem algjörlega skilur á milli hennar og verka hans er stærðin, sem ekki kemur
fram á ljósmyndum. Skreytiformin á fjöl Ólafs eru mjög stór og grófgerð í
samanburði við verk smáskurðarmeistarans, enda er hún um 3 cm þykk, þar
sem aftur smágerðar myndir hans og skreyti er frá 3 mm upp í 1 cm á þykkt.
Útskurðurinn í flokki 2 er nær skreytinu á fjölinni að því leyti að hann er
stórgerðari í sér og fram kemur mikill áhugi á risverki þar sem upphleyptir
teinungar liggja oft ofan á böndum sem sjálf eru upphleypt. Hægt er að benda
á tvö sameiginleg efnisatriði. Sérstaka athygli vekja englar með myndkringlu á
milli sín. Á 1. mynd eru þeir settir sinn hvoru megin við kringlu með spegil-
nafndrætti og annarri áletrun, á 14. mynd halda þeir á konungskórónu uppi
yfir kringlu með mannsgrímu í. En þó að efnisatriðin séu skyld, er útfærslan
það ekki. Englamyndirnar eru sín í milli gjörólíkar, og myndir óþekkta meist-
arans eru langtum glæsilegri en myndir í flokki 2.
Hitt sameiginlega efnisatriðið er blómið með fjórum krónublöðum. Það er
að finna í tveimur ystu uppundningum skreytisins, og í flokki 2 kemur það
fyrir á öllum hlutunum sem nefndir voru. Þó er sá munur, að á skrautfjölinni
eru blómin slétt á yfirborði, en í flokki 2 eru þau með skorum. Þar eru þau
einnig yfirleitt dýpra skorin til miðjunnar.
Þannig sýnir fjöl Ólafs amtmanns þó nokkurn skyldleika við báða flokka, 1
og 2. En við nánari athugun virðist þessi skyldleiki vera minni en maður hefur
tilhneigingu til að halda fyrst í stað. Síðastliðið sumar (1981) var ég svo heppin
að geta virt þetta fyrir mér í Þjóðminjasafni íslands í fylgd með Herði Ágústs-