Morgunblaðið - 31.03.2001, Blaðsíða 13
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. MARS 2001 13
FÁTT kemur nú í veg fyrir að verk-
fall sjómanna á fiskiskipum hefjist á
ný á sunnudagskvöld. Stjórnvöld
settu lög á verkfall sjómanna 19. mars
sl. og hefur lítið þokast í viðræðum
sjómanna og útvegsmanna síðan.
Samninganefndir sjómannasamtak-
anna og útvegsmanna hafa fundað
linnulítið frá því um áramót en enn
ber mikið í milli og samningur ekki í
augsýn. Þó virðist hafa þokast í við-
ræðum í helsta ágreiningsmáli deilu-
aðila til margra ára, sem snýr að verð-
myndun á fiski. Sjómannasamtökin
hafa allt frá áramótum mætt samein-
uð til sáttafunda við útvegsmenn en
þeir óskuðu eftir því við ríkissátta-
semjara í gær að viðræður yrðu hafn-
ar við sjómannasamtökin hvert í sínu
lagi.
Útvegsmenn hafa kvartað yfir því
að erfiðlega hafi gengið að fá samn-
inganefndir allra sjómannasamtak-
anna að samningaborðinu í einu, enda
megi ekki semja nema með aðkomu
þeirra allra. Samninganefndir sjó-
mannasamtakanna hafi þannig ekki
fengist saman að samningaborðinu
fyrr en eftir áramót og því hafi farið
dýrmætur tími út um þúfur. Friðrik
J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri
Landssambands íslenskra útvegs-
manna, segir það hinsvegar kald-
hæðnislegt að hvorki gangi né reki í
viðræðunum, einmitt vegna þess að
þar komi öll sjómannasamtökin að
málinu.
Deilan tók síðan nýja stefnu í gær
þegar útvegsmenn óskuðu eftir því á
fundi hjá ríkissáttasemjara að teknar
yrðu upp viðræður við einstök samtök
sjómanna, þar sem sameiginlegar við-
ræður hafi ekki borið árangur. Ósk-
uðu útvegsmenn eftir því að viðræður
yrðu fyrst hafnar við Vélstjórafélag
Íslands og Sjómannasamband Ís-
lands, hvort í sínu lagi, en síðar
myndu fara fram viðræður útvegs-
manna við Farmanna- og fiskimanna-
samband Íslands. „Það er hinsvegar
ekki þar með sagt að við séum búnir
að ná samningum við vélstjóra og sjó-
menn en við værum komnir mun
lengra í viðræðunum ef Farmanna-
og fiskimannasambandið hefði sýnt í
þeim samningsvilja,“ sagði Friðrik.
Helgi Laxdal, formaður Vélstjóra-
félags Íslands, sagðist í samtali við
Morgunblaðið í gær vona að þessi
breyting myndi ekki hafa mikil áhrif á
samningaviðræðurnar, enda kæmi
Farmanna- og fiskimannasambands-
ins inn í þær á seinni stigum. Sævar
Gunnarsson, formaður Sjómanna-
sambands Íslands, tók í sama streng.
Hann sagðist vona að áfram yrði unn-
ið að lausn deilunnar og það yrði ekki
gert nema með aðkomu Farmanna-
og fiskimannasambandsins.
„Enginn í fýlu“
Af samtölum við samningamenn
má merkja að staðan í deilunni er
mjög erfið. Helstu ágreiningsatriði í
viðræðunum, s.s. verðmyndunarmál-
in, eru flókin og enn ber mikið í milli.
Samninganefndarmönnum, einkum
þeirra hjá sjómannasamtökunum, er
tíðrætt um að vandinn felist einkum í
því að deiluaðilar hafi ekki fengið að
klára málin sín á milli, vegna inngripa
stjórnvalda í deiluna. Aðilar innan
samninganefndanna segja að ekki
andi þó köldu milli útvegsmanna og
sjómanna. Málin séu hinsvegar mjög
flókin, í spilunum séu háar upphæðir
og gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir
alla aðila. „Menn eru að tala saman og
það er enginn í fýlu,“ sagði einn samn-
inganefndarmaður í samtali við
Morgunblaðið.
Rammi að myndast um
verðmyndunarmálin
Það sem helst þykir tíðinda af vett-
vangi samningaviðræðnanna er að nú
virðist vera að myndast grundvöllur
fyrir áframhaldandi viðræður í verð-
lagsmálunum, en í þeim hefur hníf-
urinn staðið hvað fastast í kúnni í
kjaradeilum sjómanna og útvegs-
manna um áraraðir. Það sem helst
hefur breyst í viðræðum um verðlags-
málin er að útvegsmenn eru farnir að
ljá máls á því að markaðstengja fisk-
verð með einhverjum hætti. Fyrir
fáum mánuðum hefði sú staða þótt
mjög ósennileg.
Eftir því sem næst verður komist
var kominn rammi utan um verð-
myndunarmálin áður en stjórnvöld
settu lög á verkfall sjómanna 19. mars
sl. og viðræðurnar komnar á það stig
að farið var að ræða hversu mikið ætti
að hækka verð á einstökum tegund-
um. Þó bar enn töluvert í milli í hug-
myndum sjómanna og útvegsmanna í
þessum efnum.
Það lítur engu að síður út fyrir að
deiluaðilar hafi komið sér saman um
ákveðna aðferðafræði í þessu sam-
bandi en það hlýtur að teljast stórt
skref í samkomulagsátt, miðað við
þann ágreining sem ríkt hefur í verð-
myndunarmálunum á
undanförnum árum.
Samkæmt heimildum
Morgunblaðsins hafa
verið skoðaðar ýmsar
útfærslur hvað þetta
varðar, án þess að menn
hafi komið sér saman
um ákveðna lendingu.
Til þessa hefur nánast
eingöngu verið rætt um
verðlagningu á botn-
fiski en ekki er talið að
þær hugmyndir sem
þar eru á lofti muni ná
yfir verðlagningu á
uppsjávarfiski og skel-
fiski. Því þurfi að fara
aðrar leiðir í verðmynd-
un á þessum tegundum.
Þessar þreifingar eru
þó enn sem komið er
skammt á veg komnar
og enn er verið að skoða
og skilgreina töluleg
gögn sem að málinu
lúta. Hinsvegar má
heyra á öllum aðilum að
þeir voni að búið sé að
finna grunn sem byggja
megi viðræður á í fram-
tíðinni.
Mikið ber í milli í
flestum ágreinings-
atriðum
Lítið virðist hafa þok-
ast í öðrum ágreiningsmálum sjó-
manna og útvegsmanna síðustu vikur,
s.s. varðandi lífeyrissjóðsmál og
slysatryggingar. Talsmenn sjó-
mannasamtakanna segjast hafa mætt
mikilli óbilgirni útvegsmanna í þess-
um efnum en þeir hafa lagt mikla
áherslu á þessi mál í viðræðunum. Að
sama skapi segjast útvegsmenn hafa
mætt litlum skilningi sjómanna varð-
andi breytingar á hlutaskiptakerfinu,
bæði varðandi skiptahlutfall og mönn-
unarákvæði. Eftir því sem næst verð-
ur komist hafa útvegsmenn boðist til
að greiða helming sjúkratryggingar
fyrir sjómenn en á það hafa fulltrúar
sjómannasamtakanna ekki fallist og
benda á að sjómenn á kaupskipum og
hjá Landhelgisgæslunni hafi samið
upp á fulla sjúkratryggingu. Eins hef-
ur Morgunblaðið heimildir fyrir því
að útvegsmenn hafi boðið sjómönnum
17% hækkun á kauptryggingu við
undirritun kjarasamnings og 10%
hækkun á samningstímanum en því
var einnig hafnað. Það má því ljóst
vera að mikið ber á milli í flestum
ágreiningsatriðum.
FFSÍ nánast einskipa
Af atburðarás samningaviðræðn-
anna í gær og af tali útvegsmanna má
vel merkja að Farmanna- og fiski-
mannasambandið er sér á báti, nánast
einskipa, í viðræðunum. Talsvert hafi
þokast í viðræðum við vélstjóra og
sjómenn, en FFSÍ sé ásteytingar-
steinninn í mörgum málum. Einn út-
vegsmaður tók jafnvel svo djúpt í ár-
inni, að miðað við stöðuna í dag sé
eina leiðin út úr þessum ógöngum að
útvegsmenn nái saman með sjómönn-
um og vélstjórum, en far- og fiski-
menn neyðist til að fylgja þeim samn-
ingum eða halda einir áfram í
verkfalli.
Jafnvel er sagt að kominn sé upp
kurr innan samninganefnda sjó-
mannasamtakanna vegna framgangs
forseta FFSÍ í viðræðunum. Reyndur
samningamaður sagði þannig við
Morgunblaðið í gær að vitanlega færu
sjómannasamtökin öll til viðræðna við
útvegsmenn með sömu eða svipaðar
kröfur. Hinsvegar gæti verið stigs-
munur á því hvaða aðferðum menn
vilda beita til að ná fram markmiðum
sínum. Þannig hafi það tafið samn-
ingaferlið þegar sjómannasamtökin
hófu að ræða saman við útvegsmenn í
janúar sl., að ósk útvegsmanna „Mál-
in leysast ekki við borð þar sem sitja
tíu karlar og skeggræða. Þau leysast
ekki nema karlarnir séu tveir, í mesta
lagi fjórir,“ sagði hann.
Ala á sundrungu
Grétar Mar Jónsson, forseti FFSÍ,
vísar á bug ásökunum um að hann
standi í vegi fyrir framgangi samn-
ingaviðræðnanna. Hann segir það
henta útvegsmönnum vel að kljúfa
sjómannasamtökin með því að benda
á klofning og ala þannig á sundrungu.
„Ég tel að útvegsmenn ætli sér ein-
faldlega ekki að semja við okkur. Við
höfum átt í viðræðum í fimmtán mán-
uði og þeir slaka engu út. Ég tel að
þeir líti þannig á að það sé ódýrast
fyrir þá að segja nei við öllu og halda
uppi málamyndaviðræðum þangað til
stjórnvöld setja lög á verkfallið,“
sagði Grétar Mar.
Fátt kemur í veg fyrir verkfall
Allir sem Morgunblaðið ræddi við í
gær sögðu að fátt kæmi í veg fyrir að
verkfall hefjist á fiskiskipaflotanum á
miðnætti á sunnudag. „Það er ennþá
langt á milli manna í viðræðunum og
það er nokkuð ljóst að við náum ekki
að klára málið fyrir sunnudagskvöld,“
sagði Helgi Laxdal við Morgunblaðið
í gær.
Friðrik J. Arngrímsson sagði að
minni líkur væru á því en meiri að
samningar náist áður en verkfall
hefst á ný á sunnudag. „Markmiðið
hjá okkur er að sjálfsögðu að ná lend-
ingu sem allir aðilar geta lifað við til
framtíðar. Það er út í hött að útvegs-
menn og sjómenn skuli ekki geta
starfað saman í sátt og samlyndi,“
sagði Friðrik.
Fátt kemur í veg fyrir að verkfall sjómanna hefjist á sunnudagskvöld
Flötur kominn
á verðmynd-
unarmálin
Enn ber mikið í milli í kjaraviðræðum
sjómanna og útvegsmanna og fátt kemur nú
í veg fyrir að verkall sjómanna á fiskiskip-
um hefjist á sunnudagskvöld. Þó virðist
hafa þokast í samkomulagsátt í verðmynd-
unarmálum, helsta ásteytingsmáli í
kjaraviðræðum undanfarinna ára. Helgi
Mar Árnason hleraði samninganefndir
bæði sjómanna og útvegsmanna.
Morgunblaðið/RAX
Grétar Mar
Jónsson
Friðrik J.
Arngrímsson
Helgi
Laxdal
Sævar
Gunnarsson
hema@mbl.is
ÞÓRÐUR Friðjónsson forstjóri
Þjóðhagsstofnunar sagði í samtali
við Morgunblaðið í gær að hvorki
hann né fulltrúar stofnunarinnar
hefðu tekið þátt í vinnu nefndar eða
starfshóps um breytingar á verka-
skiptingu á milli Þjóðhagsstofnunar
og annarra stofnana ríkisins. Þetta
hefði verið þvert á það vinnulag sem
honum hafði verið gefið fyrirheit um.
Í Morgunblaðinu í gær er haft eftir
Ólafi Davíðssyni, ráðuneytisstjóra í
forsætisráðuneytinu, að hann viti
ekki til þess að nein formleg nefnd
hefði starfað að þessum málum. Hins
vegar hefði verið ákveðið að Seðla-
banki, fjármálaráðuneyti, Þjóðhags-
stofnun og Hagstofa settu fram sín
sjónarmið um verkaskiptinguna og
úr þeim hugmyndum hefði verið unn-
ið innan ráðuneytisins. Þjóðhags-
stofnun hefði sett fram sín sjónarmið
á sínum tíma.
Aðspurður um þetta sagði Þórður
að verkaskiptingamálin hafi verið
sett í ákveðinn farveg í framhaldi af
ársfundi Seðlabankans í fyrra.
Ákveðið hafi verið að setja á lagg-
irnar nefnd eða starfshóp sem hann
átti að eiga aðild að. „Ég hef fengið
það staðfest að þessi nefnd eða
starfshópur sem ég átti að vera hluti
af hafi einfaldlega komið saman án
minnar vitneskju og án nokkurrar
þátttöku af hálfu Þjóðhagsstofnun-
ar,“ sagði Þórður. Fulltrúar annarra
stofnana sem koma að málinu hafi
hins vegar komið saman og ráðgast
um framtíð Þjóðhagsstofnunar.
„Þetta er þvert á ákvörðun um vinnu-
lag sem mér hafði verið gefið fyrir-
heit um. Mér hafði verið heitið því að
málefnalega yrði unnið að þessari
endurskoðun verkaskiptingar á milli
umræddra stofnana með fullri þátt-
töku okkar hér á Þjóðhagsstofnun.“
Það hafi hins vegar ekki verið gert og
sér aldrei tilkynnt það að ákvörðun-
inni hefði verið breytt. Þórður segist
aðspurður engar skýringar hafa á
þessu.
Lítil skörun við Hagstofuna
Í Morgunblaðinu í gær var haft
eftir Hallgrími Snorrasyni hagstofu-
stjóra að talsverð skörun sé á verk-
efnum Hagstofu og Þjóðhagsstofn-
unar. Þessu er Þórður ekki sammála.
„Það er mín skoðun að það sé ákaf-
lega lítil skörun í verkefnum og hún
hafi ekki leitt til aukins kostnaðar
sem neinu nemur,“ sagði Þórður.
Þvert á móti sé ákveðið hagræði fólg-
ið í því hvernig verkefnaskiptingu er
háttað núna. Hann segir að þekking
þeirra starfsmanna Þjóðhagsstofn-
unar sem vinni að atvinnuvega-
skýrslum og þjóðhagsreikningum
nýtist mjög vel við gerð þjóðhags-
spár og við fleiri verkefni stofnunar-
innar.
Þórður segist ekki líta svo á sú
verkaskipting sem nú er við lýði þurfi
að vera óbreytt um aldur og ævi.
„Það sem við höfum fyrst og fremst
farið fram á er að unnið yrði að þess-
ari endurskoðun á málefnalegan hátt
og með fullri þátttöku okkar.“
Forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir fyrirheit um vinnulag hafa verið brotin
Stofnunin kom ekki að
umfjöllun um breytingar