Morgunblaðið - 31.03.2001, Blaðsíða 60
MINNINGAR
60 LAUGARDAGUR 31. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Kæri bróðir, það er ekki auðvelt að
skrifa þér línu á þessari stundu.
Fráfall þitt var svo snöggt að ég er
varla búinn að átta mig á raunveru-
leikanum. Ýmsar góðar minningar
koma upp í hugann þegar litið er til
baka. Þegar hefðbundinni skóla-
göngu lauk fórstu að vinna utan heim-
ilis í Sláturhúsinu, fórst á vertíðir,
stundaðir sjó nokkrar vertíðir og
vannst við laxeldi, en alltaf togaði
sveitin þig heim. Þar undir þú þér
best. Ég naut þeirrar gæfu að eiga
samleið með þér nær alla ævi.
Lengi áttum við heima í Garði og
naut ég þinnar alkunnu hjálpsemi t.d.
þegar ég byrja minn búskap, þá varst
þú alltaf tilbúinn að rétta hjálpar-
hönd. Erfitt hefði þetta orðið ef þín
hönd hefði ekki verið til staðar. Alltaf
komstu í göngur hvernig sem stóð á,
því það var þitt yndi að ganga í Garðs-
heiði og ekki lést þú þitt eftir liggja
þegar í réttirnar var komið. Barngóð-
ur varst þú og nutu börnin okkar Þor-
bjargar þess sérstaklega meðan þú
bjóst í foreldrahúsum. Alltaf þegar
við hittumst eða töluðum í síma
spurðir þú hvernig búskapurinn
gengi og þótt ég og mín fjölskylda
séum flutt í Sandgerði þá spurðir þú
áfram hvernig búskapurinn gengi
þótt smár væri. Þetta segir best hvert
hugurinn leitaði. Þú hafðir svo gaman
af að syngja og nú er stórt skarð
höggviðí gamla kórinn okkar.
Þegar þið Kristín hófuð sambúð í
Háagerðinu stóð það ætíð opið ef við
vorum í kaupstaðarferð. Snyrtimenni
varst þú, hvergi mátti vera rusl þá
tókstu það og fjarlægðir. Elsku bróð-
ir, lífið varð of stutt, við áttum eftir að
gera svo margt saman, þú hafðir svo
mikinn áhuga á að við gerðum æsku-
stöðvar okkar að fjölskyldugarði. Við
ætluðum að vera saman á ættarmóti í
sumar, þín verður sárt saknað.
Elsku Kristín, Alexander, Berg-
BJÖRN ÁGÚST
SIGURÐSSON
✝ Björn Ágúst Sig-urðsson fæddist
að Garði í Keldu-
hverfi 4. apríl 1955.
Hann lést 25. mars
síðastliðinn. Foreldr-
ar hans eru Sigurður
Jónsson, bóndi í
Garði, og Jóhanna
Ólafsdóttir húsfrú.
Systkini Björns
Ágústar eru Ólafur
Brynjar, f. 1946, Jón,
f. 1950, Sigurgeir, f.
1956, og Halldóra
Friðný, f. 1962, d.
1974. Sambýliskona
hans er Kristín Björnsdóttir, f.
1961. Börn þeirra eru Alexander,
f. 1989, og Berglind, f. 1991. Áður
átti hann soninn Svein Björnsson,
f. 1980, fóstursonur Björns Ágúst-
ar er Arnar Þór Arnarson, f. 1983.
Útför Björns Ágústar fer fram
frá Húsavíkurkirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
lind, Arnar Þór, Sveinn,
pabbi og mamma, í dag
fylgjum við góðum sam-
býlismanni, föður, syni
og bróður síðustu spor-
in.
Þau spor verða erfið
og þung, en Guð mun
styrkja okkur í þessari
sorg og mun minning
um góðan dreng lifa í
hjarta okkar.
Þinn bróðir,
Jón Sigurðsson.
Elsku Ágúst.
Þetta er eitt það erfiðasta sem ég
hef þurft að gera um ævina. Það
svona er að byrja að síast inn að þú
sért farinn. Ég veit að það á eftir að
verða ótrúlega skrýtið að hafa þig
ekki til að stríða manni og skjóta á
mann lengur. Þú varst óþreytandi í að
stríða litlu frænku.
Minningarnar hrannast upp, flest-
ar frá því ég var lítil stelpa í sveitinni
hjá ömmu, afa og þér. Þú og pabbi átt-
uð herbergi uppi á lofti sem var þeim
kostum búið að þar voru fataskápar
undir súðinni. Þar geymdirðu mótor-
hjólahjálminn, fötin þín, og síðast en
ekki síst áttirðu ALLTAF amerískt
tyggjó; grænt, gult eða hvítt. Ég man
þegar ég var tveggja eða þriggja ára
og stalst í skápinn þinn þegar þú
varst ekki heima og fékk mér tyggjó.
Mamma varð frekar mikið reið, og ég
man hvað hún skammaði mig, og ætl-
aði sko að kenna mér að það mætti
ekki taka eitthvað án þess að spyrja
um leyfi fyrst. Ég var bara lítill telpu-
hnokki og þú hafðir alltaf gefið mér
tyggjó þegar mig langaði í það... og
núna langaði mig í tyggjó. Mamma lét
mig spýta því út úr mér. Þegar þú svo
komst heim aftur, lét mamma mig
segja þér að ég hefði stolið tyggjóinu
hjá þér, og ætlaðist til að þú myndir
skamma mig líka. En nei, ég held að
svarið sem við fengum frá þér muni
seint líða mér úr minni. „Hvað, auð-
vitað má hún fá tyggjó stelpan.“ Þar
með var lexían fyrir bí.
Mótorhjólið þitt var örugglega eitt
það mest spennandi tæki sem ég hef
komist í kynni við. Ég man þegar ég
og Sveinn vorum lítil og fengum að
sitja á hjólinu, bæði saman og hvort í
sínu lagi. Ég var svo mikil frekja að
helst hefði ég viljað vera alein á því
allan tímann. Þú áttir allskonar
spennandi dót sem ég man eftir.
Fyrst má telja rússajeppann, einn sá
undarlegasti bíll sem ég hef komið inn
í. Endalaust gátum við krakkarnir
leikið okkur í þessum bíl. Næst má
nefna snjósleðann, og svo véldrekinn,
talstöðin og haglabyssan.
Ég ætla svosem ekki að tíunda all-
ar skemmtilegu stundirnar sem við
áttum saman, sumar ætla ég að
geyma fyrir mig. Ég man samt eftir
fyrstu skólatöskunni minni. Þú gafst
mér hana í jólagjöf jólin áður en ég
átti að byrja í skólanum. Hún var
dökkgræn, með skærappelsínugulu,
renndu hólfi framaná.
Jólaboðið hjá ykkur Kristínu núna
fyrir síðustu áramót verður mér líka
minnisstætt. Ég var ekkert voðalega
hrifin af því að fara í enn eitt jólaboðið
þessi jólin, sérstaklega þar sem ég er
ein hérna fyrir norðan á mínum aldri,
og finnst ég stundum ekki alveg eiga
heima í samræðum fullorðna fólksins,
þó svo ég eigi að heita fullorðin mann-
eskja, að verða 21 árs. Þetta reyndist
samt vera mjög skemmtilegt jólaboð,
líklega skemmtilegasta jólaboðið
þetta árið. Við hlustuðum á upptöku
frá hagyrðingamóti sem haldið hafði
verið um haustið, og enduðum svo
kvöldið á að spila trivial pursuit fram
eftir nóttu. Þar fékk einstakur húm-
orinn þinn, sem aldrei var í meira en
seilingarfjarlægð, að njóta sín vel.
Ég mun aldrei gleyma púkasvipn-
um og stríðnisglottinu, sem var eitt
helsta einkenni þitt. Ég kveð þig með
söknuð í hjarta, en ég veit að þú ert
kominn til systur þinnar, hennar
Halldóru Friðnýjar og ég veit að þið
hafið það gott og vakið yfir okkur.
Farðu vel með þig þar til við hittumst
á ný! Þín frænka,
Halldóra Friðný.
Sofðu, sofðu góði,
sefa grátinn þinn.
Vef ég ljúflings ljóði
litla drenginn minn.
Syngur yfir sundi
sár og þungur niður.
Þey, þey, þey, í blundi
þér er búinn friður.
(Guðm. Guðmundsson.)
Elsku Ágúst. Þessar ljóðlínur var
ég að læra fyrir söngpróf þegar ég
frétti andlát þitt. Þær hafa verið mér
ofarlega í huga síðan og finnst mér
þær hæfa vel þeirri hugsun sem býr í
huga mér núna.
Við áttum það sameiginlegt að okk-
ur þótti gaman að syngja og fórum
bæði í smásöngnám og síðan vorum
við að bera okkur saman.
Þegar ég flutti í Garð bjóst þú enn í
föðurhúsum og varð ég þeirrar gæfu
aðnjótandi að kynnast þér nokkuð
vel. Af mörgu er hægt að taka, t.d.
vorum við einu sinni bæði stödd í
Reykjavík og fórum saman að kaupa
jólagjafir. Það var sko ekki sama hvað
keypt væri heldur hvað hentaði hverj-
um og einum best.
Brynja Dögg minnist þess hve
gaman það var þegar Ágúst frændi
kom yfir á mótorhjólinu og bauð
henni oft að fara með sér einn hring.
Alltaf varstu til staðar ef mikið stóð
til í búskapnum og þótti þér það alveg
sjálfsagt.
Svo kynntistu Kristínu og þið fóruð
að búa á Húsavík. Það var alltaf svo
gott að koma til ykkar og ekki vantaði
gestrisnina. Hér væri hægt að minn-
ast svo margs en ég læt hér staðar
numið.
Elsku Kristín, Sveinn, Arnar Þór,
Alexander, Berglind, tengdamamma,
tengdapabbi, Binni, Sigurgeir og Jón.
Missir ykkar er mikill og fá orð hugga
víst lítið á slíkri stundu.
Megi góður Guð styrkja ykkur og
hugga í sorg ykkar.
Ykkar
Þorbjörg.
Í dag kveð ég minn besta vin. Ég á
örfáa aðra vini sem líka eru bestu vin-
ir og Björn Ágúst var svo sannarlega í
þeim hópi. Það var því ólýsanlegt
reiðarslag þegar sú fregn barst síð-
degis sl. sunnudag að Gústi væri dá-
inn. Sorg og reiði náði algjörum tök-
um á mér. Sorg yfir því að missa
góðan vin og sorg yfir þeim mikla
missi sem Stína, börnin og aðrir ást-
vinir hans þurfa að upplifa og með
einhverjum hætti að yfirstíga.
Við Gústi vorum jafnaldrar. Ól-
umst upp í Kelduhvefinu, þeirri góðu
sveit. Uppfræðsluna fengum við í
Skúlagarði og í Lundi. Fermingar-
fræðsluna hjá séra Sigurvin og stað-
festingu skírnarinnar í Garðskirkju.
Þetta voru góð ár og okkur alltaf vel
til vina. Við vorum þó ekki óaðskilj-
anlegir og kanski svolítið ólíkir. Gústi
hafði t.d. minni íþróttaáhuga heldur
en ég en kom þó alltaf á æfingar. Þar
held ég að félagsskapurinn hafi skipt
Gústa meira máli heldur en íþróttirn-
ar sjálfar. Þeir Garðsmenn komu
gjarnan á dráttarvél og man ég vel
aðdáun mína og öfund á aksturshæfi-
leikum Gústa. Þeir voru langt um-
fram mína og flestra annarra. Að
skyldunámi loknu skildi leiðir okkar
að nokkru yfir vetrartímann. Við unn-
um þó saman í Landgræðslunni í
a.m.k. tvö sumur og einnig á Slátur-
húsinu á Kópaskeri. Dansleiki og ann-
að skemmtanahald sóttum við stíft.
Spiluðum líka saman brigde og feng-
um þar viðurnefnin Svalur og Valur.
Það var alltaf létt yfir hlutunum þar
sem Gústi var. Hann var hrókur alls
fagnaðar og hafði sérlega skemmti-
lega frásagnargáfu og þegar hann var
í essinu sínu hermdi hann eftir sveit-
ungum sínum og gerði það listavel.
Þessar skemmtilegu minningar verða
ekki frá okkur teknar. Leiðir okkar
liggja síðan aftur saman á Húsavík.
Ég hafði sest þar að á undan en ekki
löngu seinna er Gústi líka kominn
mér til mikillar ánægju. Á milli fjöl-
skyldna okkar tókst fljótt góð vinátta.
Við unnum einnig saman hjá Skipa-
afgreiðslu Húsavíkur, ég sem fram-
kvæmdastjóri og Gústi sem bílstjóri
og tækjamaður. Gústi var góður
starfsmaður, samviskusamur, dug-
legur og eldklár. En hann gerði kröf-
ur til annarra og það fór í taugarnar á
honum ef menn skiluðu ekki sínu.
Eftir að ég flutti suður héldum við
enn mjög góðu sambandi, heimsótt-
um hvor annan þegar við höfðum
tækifæri til og ræddum málin í síma
þess á milli. Vinnan lá þungt á honum.
Hann var ekki sáttur. Ég hvatti hann
til þess að breyta til, en því miður lét
hann ekki verða af því. En ef til vill
var fleira sem lá þungt á honum og ef
til vill gekk hann ekki alveg heill til
skógar.
Við Magga heimsóttum þau Stínu
og Gústa nú fyrir mánuði. Það var
notaleg stund. Það lá sérlega vel á
Gústa. Hann hlakkaði mikið til söng-
ferðar sem þau ætlaðu að fara í til
Þýskalands með Karlakórnum Hreim
nú um páskana. Einnig ræddum við
um fyrirhugaða útilegu með vinum
okkar úr Kelduhverfinu og fjölskyld-
um þeirra. Það var á hreinu að Gústi
ætlaði ekki að missa af henni aftur.
En því miður, þar verður skarð sem
ekki verður fyllt.
Björn Ágúst var góður drengur.
Ég vil þakka honum allar þær mörgu
ánægjulegu stundir sem við áttum
saman á hans alltof stuttu ævi. Elsku
Stína, við Magga sendum þér og
börnunum okkar innilegustu samúð-
arkveðjur svo og öllum öðrum að-
standendum. Guð styrki ykkur öll í
ykkar miklu sorg. Farnist þér vel,
Gústi minn, á Guðs vegum.
Árni Grétar.
Nú ert þú farinn pabbi minn og svo
mörg orð ósögð. Þetta er alveg ótrú-
lega ósanngjarnt að þú skulir vera
farinn frá okkur svona fljótt. Þegar
presturinn kom til mín með þessar
hörmulegu fréttir hugsaði ég, pabbi
minn, nei það getur ekki verið, ekki
þú, það bara gat ekki verið. Hvernig
stendur á þessari ósanngirni, af
hverju þurfa sumir að deyja svona
fljótt, af hverju verða ekki allir gaml-
ir? Það var svo margt sem við áttum
eftir að gera saman, margt sem við
áttum eftir að tala um en svona er líf-
ið. Sumir segja að þeir deyi ungir sem
guðirnir elska og það hlýtur að vera
satt fyrst þú fórst svona fljótt. Þó að
við höfum ekki alltaf verið í stöðugu
sambandi voru það góðir tímar þegar
við hittumst eða töluðum saman í
síma. Ég man alltaf eftir því þegar ég
var lítill er ég kom heim með þér þeg-
ar við bruddum v6 tyggjóið og hlust-
uðum á Gylfa Ægisson, ég hef síðan
þá alltaf haft frekar gaman að Gylfa
Ægissyni. Og svo þegar þú keyrðir
um með mann á mótorhjólinu, það líð-
ur seint úr minni. Núna getur maður
bara rifjað upp þá góðu tíma sem við
áttum saman, því að því miður verða
þeir ekki fleiri. Getur maður einhvern
tímann sætt sig við að þú sért farinn?
Ég held ekki en kannski lærir maður
að lifa með sorginni og hugsa um okk-
ar góðu stundir saman. Æi, hvað það
er sárt að þú sért farinn. Ég er alltaf
að vona að ég vakni upp við vondan
draum, en lífið er ekki svo einfalt, þú
ert því miður alfarinn. Ég sakna þín
sárt og ég mun alltaf elska þig.
Sveinn Björnsson.
Kæri vinur, það er með söknuði
sem ég skrifa þessar línur. Síðan
fregnin barst á sunnudag hafa minn-
ingarnar streymt fram látlaust. Ég
trúi alls ekki að þú eigir ekki eftir að
stinga inn nefinu og spyrja hvort þú
sért að trufla mig, standa í gættinni
og leika þér að því að beygla eyrað á
dyrakarminum og segja „það er bara
eitt sem ég var að spá í til að vera
viss“. Nákvæmlega þannig varstu,
svo samviskusamur að ég þurfti ekki
að hafa áhyggjur ef ég skrifaði eitt-
hvað ekki rétt, sást þú það strax og
bentir á það og hafðir oftast rétt fyrir
þér. Minntir á það sem gleymdist, ef
einhvern tímann var búið að nefna
það mundir þú það og oft óskaði ég
þess að ég hefði þó ekki væri nema
helming af minni þínu.
Aldrei þurfti að hafa áhyggjur af
því að eitthvað klikkaði, þú varst
100% maður hér í vinnunni.
Þegar ég talaði við þig um hádegið
hefði ég aldrei trúað að það væri í síð-
asta skipti sem ég heyrði í þér, erindið
var að athuga hvað væri búið að gáma
fyrir skipið sem kom sólahring fyrr
en áætlað var, því eins og ég vissi
mundir þú nákvæmlega hvaða gámar
voru eftir, þannig að við gátum talað
um hvort ástæða væri til að fá keyrslu
að ofan, en komum okkur saman um
að það væri óþarfi að eyða þessum
sólríka degi í vinnu. Síðan koma þess-
ar hræðilegu fréttir og við sitjum eftir
harmi slegin, og dofin.
Aldrei aftur eigum við eftir að
hlæja að því þegar þú varst næstum
búin að keyra á mig á gámalyftaran-
um, ég var á hjóli og þú sást mig ekki
fyrr en ég stökk af því og hálfdatt of-
an í grjótið. Og í síðustu viku þegar ég
var að labba á sama stað þegar þú
varst að koma af bryggjunni og ég fór
alveg út af veginum, til að vera örugg.
Hlógum við bæði þegar þú fórst hjá
og ég veit að við hugsum það sama.
Það eru margar góðar minningar
að ylja sér við, úr ferðum okkar er-
lendis til dæmis. Það er stórt skarð
höggvið hér hjá okkur og við söknum
þín, það er erfitt að sætta sig við að þú
sért ekki meðal okkar lengur og að
við getum ekkert gert til að endur-
heimta vin og vinnufélaga.
Elsku Kristín okkar, Sveinn, Arnar
Þór, Alexander, Berglind og Sigurður
og Jóhanna, ykkur öllum og öðrum
aðstandendum vottum við dýpstu
samúð og hugsum til ykkar á þessum
erfiðu tímum.
Megi góður guð styrkja ykkur.
F.h. vinnufélaga.
Rannveig.
Hann Gústi frá Garði? Nei, það get-
ur ekki verið! Þetta voru mín fyrstu
orð þegar mér var tilkynnt að Björn
Ágúst Sigurðsson frá Garði í Keldu-
hverfi hefði kvatt þessa jarðvist.
Hugurinn fór að reika til áranna
1973–1974 þegar Gústi og Stebbi
(móðurbróðir minn) voru alltaf saman
– þá bjó ég í Sultum og var nú ekki
nema 5 ára.
En ég man svo vel þegar þeir vin-
irnir voru að taka sig til á fótboltaæf-
ingar – múnderingin – legghlífarnar
og ekki mátti gleyma hárbandinu til
að halda/hemja síða toppinn og hárið
allt! Svo brunuðu þessir töffarar um
allar sveitir á mótorhjólunum sínum,
það var alltaf líflegt og mikið fjör í
kring um Gústa og Stebba.
Síðar flutti ég með móður minni til
Grímsstaða á Fjöllum og var ekki
amalegt þegar þeir komu síðla sum-
ars eitt árið til aðstoðar þegar
heyannir voru í sveitinni, þá komu
þeir upp yfir Hólssand og auðvitað á
mótorhjólunum, jafnhressir og hlát-
urmildir og alltaf.
Síðan hef ég vitað af þeim bræðrum
frá Garði svona úr fjarlægð eins og
margir fylgjast með gömlum sveit-
ungum sínum og skyldfólki.
Vonin styrkir veikan þrótt,
vonin kvíða hrindir,
vonin hverja vökunótt
vonarljósin kyndir.
(P.Ó.)
Innilegar samúðarkveðjur sendi ég
Stínu og börnum, bræðrum Gústa og
fjölskyldum, foreldrum Gústa og öðr-
um aðstandendum.
Halla Jensdóttir
frá Sultum í Kelduhverfi.
MORGUNBLAÐIÐ tekur afmælis- og minningargreinar til birtingar
endurgjaldslaust. Greinunum er veitt viðtaka á ritstjórn blaðsins í
Kringlunni 1, Reykjavík, og á skrifstofu blaðsins í Kaupvangsstræti 1,
Akureyri. Þá er enn fremur unnt að senda greinarnar í símbréfi (569
1115) og í tölvupósti (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer
höfundar/sendanda fylgi.
Um hvern látinn einstakling birtist formáli, ein uppistöðugrein af
hæfilegri lengd, en aðrar greinar um sama einstakling takmarkast við
eina örk, A-4, miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd, - eða 2.200
slög (um 25 dálksentimetra í blaðinu). Tilvitnanir í sálma eða ljóð tak-
markast við eitt til þrjú erindi. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa
skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.
Við birtingu afmælisgreina gildir sú regla, að aðeins eru birtar grein-
ar um fólk sem er 70 ára og eldra. Hins vegar eru birtar afmælisfréttir
ásamt mynd í Dagbók um fólk sem er 50 ára eða eldra.
Mikil áhersla er lögð á, að handrit séu vel frá gengin, vélrituð eða
tölvusett. Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprent-
uninni. Það eykur öryggi í textameðferð og kemur í veg fyrir tvíverknað.
Auðveldust er móttaka svokallaðra ASCII-skráa sem í daglegu tali eru
nefndar DOS-textaskrár. Þá eru ritvinnslukerfin Word og Wordperfect
einnig auðveld í úrvinnslu.
Birting afmælis- og
minningargreina