Morgunblaðið - 31.03.2001, Blaðsíða 55
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. MARS 2001 55
Við hjónin fórum nokkrar ferðir
með Verkakvennafélaginu Snót til
Danmerkur og víðar ásamt Tryggva
og Lóu. Staddir í Karlslundi skrupp-
um við Tryggvi ásamt Gunnari Mar-
el Tryggvasyni og Stefáni Friðriks-
syni til Friðrikssunds sem er á
austurströnd Ísafjarðar á Sjálandi.
Þar skoðuðum við skipasmíðastöð-
ina þar sem Erlingur VE 295 var
smíðaður ásamt fjölda annarra báta
sem komu til Eyja. Einn sona And-
ersens gamla skipasmíðameistara,
Pétur, kom til Vestmannaeyja og
ílentist. ,,Danski“ Pétur varð ætt-
faðir margra ágætis manna og
kvenna. Sem við komum í stöðina
var allri nýsmíði lokið en viðgerðir
nokkrar.
Í annarri Snótarferð vorum við í
sumarhúsum í Hollandi. Þá skrupp-
um við Tryggvi ásamt frúm til
Zwollebæjar sem hýsir Stork véla-
verkstæðin þar sem Tryggvi var á
heimavelli, ef svo má segja. Var ljúft
að fylgja honum um hin ýmsu sér-
svið framleiðslunnar. Þessar ferðir
voru farnar á þeim árum er Snót var
og hét.
Ekki var hann mikið trúaður hann
Tryggi og eyddi ekki mörgum orð-
um að eilífðarverumálunum en svo
kallaði séra Árni Þórarinsson fram-
haldslífið.
,,Trúin er ópíum fyrir fólkið,“
sagði Lenín.
Þegar Tryggvi mætir hjá þeim er
sólina, mánann og vetrarbrautir
endilangar skóp, þá mun hann undr-
ast, en ekki verða vonsvikinn. Ef til
vill verður honum hugsað til félaga
Þórbergs er taldi Guð á að breyta
skipulaginu til þess réttlætis er öllu
ofar ríkir.
Um leið og við þökkum Tryggva
samfylgdina, vottum við hjónin Lóu
og öllum aðstandendum dýpstu
samúð.
Sigurður Sigurðsson
frá Vatnsdal.
Tryggvi Gunnarsson er látinn.
Mig langar hér í fáeinum orðum að
minnast þessa heiðursmanns sem
var svo fjölmörgum góðum kostum
búinn. Þegar ég var strákur að alast
upp í Vestmannaeyjum heyrði ég
talað um Tryggva í tengslum við
störf hans sem vélstjóra. Ég þekkti
hann ekki þá en orðið sem af honum
fór sem snyrtilegasta vélstjóra
Eyjaflotans skipaði honum á ein-
hvern stall sem við strákarnir viss-
um um og fyrir vikið bárum við að
sjálfsögðu virðingu fyrir slíkum
manni. Maður sem hélt vélarrúminu
eins hreinu og fínustu stássstofu
hlaut að vera algerlega sérstakur.
Ég kynntist Tryggva fyrst af al-
vöru skömmu eftir að ég kom heim
til Eyja að námi loknu 1974. Tryggvi
var félagi í Alþýðubandalaginu, sótti
vel alla fundi og hafði alltaf eitthvað
skynsamlegt til málanna að leggja.
Þá fann ég fljótlega að sú mynd, sem
ég hafði gert mér af honum á æsku-
árunum sem sérstökum og merki-
legum manni, var raunsönn. Í starfi
sínu með Alþýðubandalaginu nutum
við sem þar vorum af „yngri kyn-
slóðinni“ góðrar og víðtækrar
reynslu Tryggva á fjölmörgum svið-
um. Ekki var komið að tómum kof-
unum þegar leita þurfti í smiðju
hans og var þá sama hvort um var að
ræða bæjarmál eða landsmál, hann
var jafnvígur á hvort tveggja. Hann
var bæjarfulltrúi á árunum 1954 til
1958 og varabæjarfulltrúi bæði fyrir
og eftir þann tíma. Í bæjarstjórninni
lét hann mörg góð mál til sín taka,
einkanlega þau er snertu hagsmuni
verkafólks í Vestmannaeyjum.
Áhugi hans á félags- og verkalýðs-
málum nýttist honum því vel á vett-
vangi bæjarmálanna. Þeir sem unnu
með honum að bæjarmálum, jafnt
samherjar sem andstæðingar, báru
honum jafnan gott orð þrátt fyrir
það að oft gustaði um í bæjarmál-
unum í Vestmannaeyjum þá sem
löngum. Tryggvi var ávallt róttækur
í skoðunum, sannur sósíalisti sem
taldi það göfugast verka að „byggja
réttlátt þjóðfélag“. Þessu verki var
hann reyndar sjálfur manna trúast-
ur.
Alþýðubandalagið í Vestmanna-
eyjum stendur í mikilli þakkarskuld
við menn eins og Tryggva. Hann var
alltaf boðinn og búinn til þess að
miðla af reynslu sinni og við félagar
hans í okkar góðu samtökum gátum
verið vissir um að ráð hans nýttust
okkur vel. Þannig er minningin um
hann í huga okkar nú við fráfall
hans. Orðstír hans gleymist ekki og
við erum svo sannarlega ríkari eftir
að hafa kynnst Tryggva.
Ég votta Lóu og fjölskyldu samúð
okkar hjóna. Megi minning um góð-
an eiginmann og fjölskylduföður lifa
meðal okkar allra. Blessuð sé minn-
ing hans.
Ragnar Óskarsson.
Komið er að leiðarlokum er ágæt-
ur kunningi og samferðamaður,
Tryggvi Gunnarsson, er kvaddur.
Tryggvi kom úr stórum systkina-
hópi, einn af sonum Sigurlaugar og
Gunnars Marels Jónssonar en
Gunnar var landsþekktur dugnað-
arforkur og skipasmíðasnillingur
sem byggði tugi ágætra báta af
ýmsum stærðum. Stærstur þeirra
var mb. Helgi VE 33, um 100 smá-
lestir.
Tryggvi átti ekki langt að sækja
snilli sína en hann var í fremstu röð
vélstjórnarmanna í áratugi, lengst
af á eigin útgerð og annarra. Um-
gengni hans um vélarrúmin varorð-
lögð og alls staðar til mikillar fyr-
irmyndar og viðbrugðið. Einnig
vakti uppröðun hans á heimaverk-
stæðinu verðuga athygli.
Ég kynntist Tryggva er ég var um
skeið kyndari á togaranum Elliðaey
VE 10. Þótt hálf öld sé liðin, minnist
ég vel vinnubragða Tryggva, sem
var vélstjóri.
Alla tíð síðan hefur ágætur kunn-
ingsskapur verið milli okkar og
breyttu ólíkar stjórnmálaskoðanir
okkar engu þar um. Síðustu árin á
vinnumarkaðnum starfaði Tryggvi
við dælustöð Hitaveitunnar. Þar
fyrir utan hafði verið sett upp gríð-
arfyrirferðarmikið svinghjól. Notaði
Tryggvi tækifærið er við átti, eftir
að fyrir lágu úrslit bæjarstjórnar-
kosninga og málaði hjólið eldrautt.
Sýnir þetta litla dæmi, að stutt gat
verið í spaugið. Svo sem allir kunn-
ugir vita hefur blái liturinn nú prýtt
svinghjólið um árabil.
Tryggvi lifði við þá döpru reynslu
síðustu árin að vera bundinn við
hjólastól. Sýndi hann eins og fyrr
karlmennsku og æðruleysi og tók
sínum örlögum. Hann var vel
greindur og minnugur, mátti oft sjá
hann í hjólastólnum við bókahillur
dvalarheimilisins er hann var að
velja sér lestrarefni. Tryggvi stóð
ekki einn, hans góði og trausti lífs-
förunautur, Ólafía Sigurðardóttir,
vék ekki af verðinum.
Alföður bið ég að blessa minningu
Tryggva Gunnarssonar um leið og
ég sendi Ólafíu og fjölskyldunni ein-
lægar samúðarkveðjur.
Jóhann Friðfinnsson.
✝ Emilía Líndal Jó-hannesdóttir
fæddist á Akranesi 7.
mars 1931. Hún lést á
heimili sínu hinn 23.
mars síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru Jóhannes Sig-
urðsson skipstjóri, f.
3. mars 1895, d. 2.
maí 1981, og Guð-
munda Sigurðardótt-
ir, f. 22. júní 1899, d.
27. júní 1964. Systk-
ini hennar voru: 1)
Alda, f. 30. mars
1922, gift Ólafi B.
Ólafssyni. 2) Sjöfn, f. 31. mars
1923, gift Guðjóni Guðmundssyni.
3) Sigurður, f. 30. júní 1927 d. 25.
mars 1951. 4) Selma, f. 9. nóv.
1939, gift Sigurði Kr. Jónssyni.
Emilía giftist 5.
júlí 1976 eftirlifandi
eiginmanni sínum,
Gunnari Olgeirssyni,
verkamanni, f. 12.
nóv. 1940. Foreldrar
hans eru Olgeir Guð-
jónsson f. 10. jan.
1910, d. 31. maí
1981, og Lilja
Bjarnadóttir, f. 8.
jan. 1922.
Emilía starfaði
m.a. hjá Haraldi
Böðvarssyni hf. og
við Sjúkrahúsið á
Akranesi, síðar við
öldrunarþjónustu í Reykjavík.
Síðast var hún húsmóðir að Eyja-
bakka 6 í Reykjavík.
Útför Emilíu fór fram frá
Breiðholtskirkju 30. mars.
Elsku Milla. Það var erfitt að sjá
þig verða svona mikið veika en það
er huggun að þú þurftir ekki að líða
kvalir og hvað þú varst jákvæð í
gegnum þetta allt.
Minningarnar hrannast upp, sú
fyrsta er mér ekki til hróss en ég
var átta árum yngri en þú og ör-
verpið á heimilinu. Þú varst látin í
það erfiða verkefni að svæfa mig og
þegar þú varst að læðast út kallaði
ég „Milla“ og þú varst að vonum
ekki hrifin. Oft hlógum við að þessu
seinna.
Eftir að við fluttum til Keflavíkur
komst þú oft í heimsókn. Það var
ánægjulegt, oftast var tekið í spil
eða leigð spóla. Er veislur voru hjá
okkur varðst þú ómissandi, tókst að
þér stjórnina um leið og sást til
þess að engan vantaði kaffi né með-
læti.
Ógleymanleg er sú stund er þú
fékkst nöfnu, Emilíu Líndal, en þú
varst henni og öllum hinum barna-
börnum mínum mjög góð. Börnin
mín eiga einungis góðar og
skemmtilegar minningar um þig og
eiga eftir að sakna Millu frænku.
Elsku Milla, þú áttir stóran hóp
vina og varst ötul við að heimsækja
þá og alls staðar velkomin. Ég vil
þakka öllum vinum þínum fyrir
góðan hug til þín og elskulegheit í
þinn garð. Einnig bestu þakkir til
líknarfélagsins Karitasar fyrir frá-
bæra umönnun.
Kæri Gunni, þú hugsaðir vel um
Millu og varst henni stoð og stytta
við að hjúkra henni en það var ósk
hennar að vera heima hjá þér í
veikindum sínum. Missir þinn er
mikill.
Ég veit, elsku systir, að pabbi og
mamma hafa tekið vel á móti þér.
Blessuð sé minning þín.
Þín systir,
Selma og fjölskylda.
Komið er að kveðjustund. Í dag
er til moldar borin móðursystir
okkar, Emilía Jóhannesdóttir frá
Auðnum á Akranesi, eða Milla
frænka eins og hún var yfirleitt
kölluð í okkar hópi.
Það er dálítið erfitt að átta sig á
því að Milla skuli ekki vera lengur á
meðal okkar, því allt frá því að við
vorum lítil hefur hún átt stóran þátt
í lífi okkar þótt hún byggi seinustu
áratugina í Reykjavík en við á
Skaganum. Milla var frændrækin
með afbrigðum og fylgdist náið með
öllu því sem gerðist innan fjölskyld-
unnar, og þá ekki aðeins hjá nán-
ustu ættingjum, systrunum og
þeirra börnum, heldur einnig fjöl-
skyldunni allri í útvíkkaðri merk-
ingu. Oft höfum við undrast það í
gegnum árin hvernig Milla gat
munað alla þessa afmælisdaga, það
mátti alveg ganga að því vísu ef ein-
hver átti afmæli að Milla yrði fyrsta
manneskja til að hringja og óska til
hamingju með daginn. Á næstu af-
mælisdögum eigum við eftir að
minnast Millu með söknuði þegar
símtalið frá henni kemur ekki leng-
ur.
Þegar við vorum krakkar var
Milla oft í eldhúsinu á Auðnum þar
sem hún sá til þess að allt væri í röð
og reglu. Þó að Milla væri hvers
manns hugljúfi átti hún það oft til
að hvessa sig við okkur grislingana
ef hlutirnir gengu ekki að hennar
skapi. Þær hviður voru jafnan fljót-
ar að ganga yfir.
Hún Milla var mikil félagsvera og
naut sín sérlega vel í samkvæmum,
aldrei lét hún sig vanta ef halda átti
upp á afmæli, fermingu eða aðra
merkisviðburði innan fjölskyldunn-
ar eða vinahópsins. Átti hún það til
að lifa sig svo inn í stemmninguna
að hún varð miðpunktur veislunnar,
fyrsta manneskja til dyra að taka á
móti fleiri gestum eða gjöfum
handa afmælisbarninu, og gjarnan
fyrst til að grípa símann. Þetta voru
góðir og gleðiríkir dagar og þar
sem við eigum ákaflega samhenta
fjölskyldu sem hittist oft þótt af
litlu tilefni sé, eigum við fjölmargar
minningar um skemmtilegar sam-
verustundir með Millu.
Í fjölskyldu okkar sá Milla um
það sem í dag er kallað almanna-
tengsl. Hún þekkti svo margt fólk
úr öllum stéttum og á öllum aldri og
sinnti vel þeim tengslum sem hún
myndaði. Hún kunni líka vel að
meta þá sem gerðu vel við hana.
Einkum þótti henni vænt um
frændur og vini úr Þykkvabænum
sem reyndust henni sérstaklega vel
alla tíð. Hún var manna duglegust
að heimsækja þá sem minna máttu
sín og áttu bágt. Á undanförnum
árum hefur Milla sinnt Lilju
tengdamóður sinni afar vel en hún
hefur átt við vanheilsu að stríða.
En Milla hefur ekki farið var-
hluta af erfiðleikum í þessu lífi. Um
tveggja ára aldur veiktist hún, að
því að talið var af lömunarveikinni,
og jafnaði sig aldrei að fullu. Hún
átti við bæklun að stríða en lét það
aldrei á sig fá og tók hlutskipti sínu
af æðruleysi.
Það var Millu mikið happ að
kynnast eftirlifandi eiginmanni sín-
um, Gunnari Olgeirssyni, en þau
gengu í hjónaband 1976. Þau
bjuggu sér þægilegt og fallegt
heimili í Breiðholtinu og var sam-
búð þeirra mjög farsæl. Ekki síst
hefur Gunnar reynst Millu einstak-
lega vel í veikindum hennar síðustu
vikurnar. Fyrir 15 árum veiktist
Milla af krabbameini, hún barðist
hetjulegri baráttu við þann vágest
og hafði sigur að því er flestir töldu,
en þegar síst varði skaut hann upp
kollinum aftur og baráttan hófst á
ný. En í þetta sinn var á brattann
að sækja og fljótt varð ljóst að
hverju stefndi. Sem betur fer þurfti
Milla lítið að þjást, hún var sæl og
ánægð með að fá að eyða síðustu
ævidögunum heima hjá Gunna sín-
um sem annaðist hana af mikilli
natni með ómetanlegri hjálp frá
hjúkrunarþjónustunni Karitas.
Sérstaklega var það ánægjulegt að
hún gat verið heima á 70 ára afmæl-
inu með sínum allra nánustu.
Við vottum Gunnari og systrum
hennar okkar dýpstu samúð.
Megi Milla hvíla í friði.
Jóhannes, Guðmundur
(Muggur), Hrefna og
Guðmunda (Búbba).
Okkur langar að minnast elsku-
legrar frænku okkar, Emilíu Lín-
dal, en við kölluðum hana alltaf
Millu frænku.
Nú er lífsgöngu þinni lokið, elsku
Milla. Þú barðist eins og sönn hetja
við þennan illvíga sjúkdóm sem tók
þig allt of fljótt. Við trúum því varla
að þú sért farin því okkur þótti svo
vænt um þig.
Ég man þegar við vorum litlar,
þá hlökkuðum við svo mikið til að
fara til Millu frænku því Gunni fór
þá alltaf með okkur í bíó og fengum
við þá alltaf eins mikið nammi og
við vildum.
Það var alltaf svo gaman þegar
þú komst til okkar í Keflavík því þá
var mikið spilað og oft langt fram á
nótt. Við eigum líka eftir að sakna
þess að þú komir með jólakortin,
því það tilheyrði jólunum. Ekki
grunaði mann það að þetta ættu
eftir að verða síðustu jólin okkar
saman en við eigum eftir að minn-
ast þeirra í hjörtum okkar.
Ógleymanleg er sú stund þegar
þú eignaðist nöfnu, Emilíu Líndal,
þú varst henni svo góð og við vitum
að hún á aldrei eftir að gleyma þér.
Elsku Milla, það er sárt að þú
sért farin frá okkur en að vita að þú
sért komin á stað þar sem þér líður
vel, er mikil huggun og þú munt
alltaf eiga þinn stað í hjörtum okk-
ar. Blessuð sé minning þín.
Guðmunda og Ellen.
Elsku frænka okkar Milla er
horfin frá okkur. Við höfðum ekki
svo mikið samband síðastliðin ár,
því miður, en ávallt er eitthvað var
að gerast hjá fjölskyldunni var
Milla mætt með sitt blíða og fallega
bros, sem og góða skapið og hrókur
alls fagnaðar. Við eigum sannarlega
eftir að sakna þín.
Ég hef oft rifjað upp er við vorum
ungar að árum frænkurnar, komum
saman heima hjá okkur. Mamma
bjó um okkur á flatsæng því bekk-
urinn var upptekinn.
17. júní var dagurinn sem við
hlökkuðum svo mikið til. Við höfð-
um straujað hárborðana og borið
hvítan áburð á spariskóna en svo
spenntar vorum við að við gátum
ekki sofnað svo við tókum það ráð
að syngja okkur í svefn.
Já, margs er að minnast, elsku
Milla. Ávallt var gaman að koma í
heimsókn á Skagann. Mamma þín,
hún Munda, tók ávallt svo skemmti-
lega á móti okkur að ógleymdum
pabba þínum. Vertu því vel kvödd,
kæra frænka, með þessari fallegu
vísu, sem heitir: Til konunnar
hjartahlýju:
Megi hún lifa lengi
hjá þér –
þessi litla rós.
Blessi þig guð –
og gefi þér náð –
til að glæða –
hjá öðrum ljós.
Megi ávallt þitt
hjarta hlýtt –
– honum til –
dýrðar slá.
Ég veit að hann blessar,
þín verkin öll –
sem þú vannst –
þegar að enginn sá.
(Guðrún V. Gísladóttir.)
Pálína og Kristín.
Milla mín. Ég vil minnast þín í fá-
einum orðum. Það er svo stutt síðan
við töluðum saman í símann. Þú
varst svo glöð og sátt við þitt hlut-
skipti. Þú talaðir um hvað það hefði
verið gott að fá allar systur þínar til
þín þegar þú varðst 70 ára núna 7.
mars. Ég geri mér grein fyrir því,
að þú vissir að hverju stefndi.
Enga þekki ég sem var meiri vin-
ur vina sinna en þú. Þú mundir eftir
okkur öllum gömlu vinkonunum.
Hugur minn leitar heim að Auðn-
um. Við vorum smástelpur þegar
við vorum saman í saumaklúbb. Það
var alveg ógleymanlegur tími.
Elsku Milla mín, þakka þér fyrir
alla tryggðina sem þú sýndir mér
og öllum vinkonunum. Guð styrki
manninn þinn og systur ásamt öll-
um öðrum ættingjum.
Þín vinkona,
Emilía (Milla) Jónsdóttir.
EMILÍA
JÓHANNESDÓTTIR
virkum dögum fyrir birtingar-
dag. Berist grein eftir að skila-
frestur er útrunninn eða eftir að
útför hefur farið fram, er ekki
unnt að lofa ákveðnum birting-
ardegi. Þar sem pláss er tak-
markað getur þurft að fresta
birtingu greina, enda þótt þær
berist innan hins tiltekna skila-
frests.
EIGI minningargrein að birtast
á útfarardegi (eða í sunnudags-
blaði ef útför er á mánudegi), er
skilafrestur sem hér segir: Í
sunnudags- og þriðjudagsblað
þarf grein að berast fyrir há-
degi á föstudag. Í miðvikudags-,
fimmtudags-, föstudags- og
laugardagsblað þarf greinin að
berast fyrir hádegi tveimur
Skilafrestur
minningargreina