Morgunblaðið - 22.10.2005, Síða 48

Morgunblaðið - 22.10.2005, Síða 48
48 LAUGARDAGUR 22. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Magnús PálmiEyjólfsson, fv. sýslufulltrúi á Hvolsvelli, fæddist á Undralandi í Reykjavík 22. júlí 1920. Hann lést á sjúkrahúsi í Austur- ríki 12. október síð- astliðinn. Foreldrar hans voru Guðríður Magnúsdóttur rjómabússtýra, f. 2. nóvember 1882, d. 2. desember 1930, og Eyjólfur Gísla- son innheimtumaður í Reykjavík, f. 17. maí 1888, d. 19. október 1955. Systkini hans eru Trausti, f. 19. janúar 1914, d. 26. nóvember 1990, Reynir kaupmaður, f. 28. júlí 1916, d. 29. janúar 1987, og Svala kaupmaður, f. 21. júní 1918. Eiginkona Pálma er Margrét Jóna Ísleifsdóttir f.v. trygginga- fulltrúi, frá Miðkoti í Fljótshlíð, f. 8. október 1924. Þau voru gefin saman í Breiðabólstaðarkirkju 20. apríl 1946. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Kristjánsdóttir húsmóðir og Ísleifur Sveinsson trésmíðameistari. Börn Pálma og Margrétar eru: 1) Guðríður Björk fjármálastjóri, f. 5. mars 1945. Maki Guðmundur Ingvar Guð- mundsson, f. 30. janúar 1945, d. 5. ágúst 2002. Börn þeirra eru Hrefna sálfræðingur og fram- haldsskólakennari, f. 13. nóvem- ber 1966, og Pálmi markaðsstjóri, f. 17. júlí 1973. 2) Ingibjörg fram- kvæmdastjóri Velferðasjóðs barna, f. 18. febrúar 1949. Maki Haraldur Sturlaugsson fram- kvæmdastjóri, f. 24. júlí 1949. Börn þeirra eru: Sturlaugur sjáv- arútvegsfræðingur, f. 9. ágúst 1973, Pálmi viðskiptafræðingur, f. 2. ágúst 1974, Ísólfur rekstr- arstjóri, f. 2. febrúar 1979, og Haraldur nemi, f. 21. mars 1989. 3) Ísólfur Gylfi, sveitarstjóri og fv. alþingismaður, f. 17. mars 1954. Maki Steinunn Ósk Kol- beinsdóttir kennari, f. 8. júlí 1957. Börn þeirra eru: Pálmi Reyr við- skiptafræðingur, f. 8. október 1979, Margrét Jóna nemi, f. 12. september 1984, Kolbeinn nemi, f. 16. apríl 1986, og Birta nemi, f. 12. júlí 1988. Pálmi missti móð- ur sína ungur og ólst upp í Neðra-Dal undir Vestur-Eyja- fjöllum hjá hjónun- um Guðbjörgu Ólafsdóttur og Ingvari Ingv- arssyni. Hann stundaði nám við Héraðsskólann að Laugarvatni og út- skrifaðist þaðan 1939. Hann flutti á Hvolsvöll árið 1941 og þau Margrét eru einir af frumbyggjum Hvolsvallar. Pálmi var verslunarstjóri hjá Kaup- félagi Hallgeirseyjar, síðar Kaup- félagi Rangæinga, en lengst af fulltrúi hjá sýslumanni Rang- æinga eða í 44 ár. Pálmi var virk- ur þátttakandi í félagsstafi í Rangárþingi. Hann var m.a. for- maður sóknarnefndar Stórólfs- hvolskirkju, formaður stjórnar Héraðsbókasafns Rangæinga, formaður stjórnar Kaupfélags Rangæinga, sat í sýslunefnd Rangæinga og var í stjórn Byggðasafnsins í Skógum og var formaður náttúruverndarnefndar Rangárvallasýslu. Hann átti sæti í yfirkjörstjórn Suðurlandsum- dæmis um árabil. Hann sat í byggingarnefnd Stórólfshvols- jarða en sú nefnd sá um úthlutun lóða á Hvolsvelli. Hann var mjög áhugasamur um framgang ým- issa hagsmunamála í Rangár- þingi. Pálmi var einn af stofnend- um Rotaryklúbbs Rangæinga og var meðlimur klúbbsins til dauða- dags og sæmdur æðstu viður- kenningu Rotarymanna, Paul Harris-heiðursmerkinu. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar ís- lensku fálkaorðu. Pálmi var vel hagmæltur og gaf út bókina Í ljósaskiptunum árið 2000. Fjöldi greina og ljóða eftir Pálma hefur birst í bókum, blöðum og tímarit- um. Pálmi og Margrét bjuggu all- an sinn búskap á Hvolsvelli. Pálmi verður jarðsunginn frá Selfosskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 11. Að vera með fólki sem manni þyk- ir vænt um og finna ekkert nema elskusemi frá, er verðmætara en allt gull veraldar. Þess hef ég fengið að njóta. Mín mesta gæfuför í lífinu var sunnudagsferð austur fyrir fjall fyr- ir 35 árum. Þá féllst ég á að keyra unga hjúkrunarkonu til föðurhús- anna en hún hafði verið illa haldin af heimþrá um einhvern tíma. Þegar ég kom inn í hlýja húsið hennar á Hvolsvelli fann ég hvað dró hana heim. Foreldrarnir biðu á hlaðinu með opinn faðminn og ilm- urinn af steikinni lagði á móti okkur. Tengdafaðir minn sem nú er kvadd- ur, var þá í fyrsta sinn að bera mig augum. Honum var mikið í mun að hér væri almennilegur maður á ferð- inni. Hóf hann þegar að spyrja mig spjörunum úr. Spurningarnar voru margslungnar og flóknar og satt að segja vafðist mér tunga um tönn. Fram á síðasta dag var hann að inna mig eftir svörum því mörgum mik- ilvægum spurningum væri enn ósvarað. Fróðleiksfýsn Pálma var mikil en þarna var hann auðvitað að athuga hvort eitthvert vit væri í ráðahag okkar Ingibjargar. Ekki leist honum betur en svo á útkom- una úr prófinu að hann kallaði dótt- ur sína á eintal. Sagði hann henni umbúðalaust að ekki litist sér á blik- una, drengurinn væri greinilega dauðyfli eða þunglyndur, nema þá hvort tveggja væri. Það var sem sagt ekki við hann að sakast að svo fór sem fór, áköf varnaðarorð breyttu engu um framhaldið. En víst er að frá þessum degi stóð Pálmi með mér í gegnum þykkt og þunnt. Hann hvatti mig skilyrðislaust og leit á alla mína lesti sem stórkost- lega kosti. Hann fylgdist vel með öllu sem fjölskyldan tók sér fyrir hendur, var óþreytandi að hrósa og uppörva. Stoltur var hann af fólkinu sínu en um leið ofurviðkvæmur ef honum fannst á það hallað. Pálmi var maður mikilla andstæðna. Viðkvæmur al- vörumaður en um leið óborganlegur grallari sem sá eitthvað skoplegt við flestar aðstæður. Hann var mikill sveitamaður og náttúrubarn, en um leið heimsborgari sem naut þess að ferðast um heimsins höf. Hann var mikill ferðagarpur en um leið heima- kær. Hann var gjarnan feginn að koma heim til Möggu sinnar að ferðalokum, hvort sem ferðinni var heitið til Hornafjarðar, Akureyrar eða eitthvað þar á milli. Pálmi tók gjarnan rútuferð að morgni og var kominn heim aftur að vörmu spori. Ferðirnar máttu vera langar en ekki taka langan tíma. Hvolsvöllur var staðurinn hans. Þar var hann einn af frumbyggjun- um. Hann sá þorp verða til og lagði gjörva hönd á margt sem varð staðnum til bóta. Gladdist hann inni- lega við hvert framfaraspor. Á sýsluskrifstofunni starfaði hann í yf- ir fjörutíu ár og þjónaði fólkinu vel í Rangárþingi. Greiðvikni og útsjón- arsemi var hans aðalsmerki. Hvols- völlur getur seint orðið samur án Pálma. Honum var margt til lista lagt, skáldmæltur og ritfær mjög. Söng- elskur var hann og hringdi oft í krakkana sína snemma dags. Hafði hann þá ort ljóð og söng það hátt og snjallt í símann. Það má segja að margt hafi verið mér framandi á Hvolsvelli, t.d. það að menn skuli bresta bókstaflega í söng er þeir hittast, kasta fram vís- um, keppast um að segja sögur og hlæja hátt og mikið. Kossaflensinu átti ég hins vegar erfiðast með að venjast en með árunum hef ég þó kunnað að meta það betur og betur. Glaðbeittur mætti Pálmi hverju verkefni. Í öll þessi ár hef ég aldrei heyrt hann kvarta. Það mátti ætla að á Hvolsvelli væri alltaf sól og blíða, þvílík var heiðríkjan í huga hans. Síðasta ferð Pálma varð lengri en við hugðum en eitthvert hugboð hefur hann sjálfur haft um að tíminn væri kominn. Aðfaranótt sunnu- dagsins 9. október fékk hann alvar- legt áfall. Var hann lagður inn á sjúkrahús í Innsbruck í Austurríki og lést hann þar skömmu síðar. Þeg- ar við Ingibjörg komum að sjúkra- beði hans var gamli sýsluskrifarinn og meðhjálparinn í Stórólfshvols- kirkju í framandi umhverfi, hraða og hátækni, já hann hafði lifað tímanna tvenna. Það sem var óbreytt var ró eiginkonunnar sem sat trúföst hjá honum til síðustu stundar. Það var eitthvað heilagt við að sjá þessi full- orðnu hjón kveðjast í hinsta sinn. Hann var sáttur við Guð og menn og í vasanum á ferðafötunum fannst bréf þar sem hann þakkar forsjón- inni gott líf og samferðamönnum sínum allar gleðistundirnar. Hann Pálmi lifði skemmtilegu lífi. Að leiðarlokum þakka ég honum allt og vona að ég verði betur und- irbúinn að svara erfiðum spurning- um þegar við hittumst næst. Minn- ing hans mun lifa lengi. Haraldur Sturlaugsson. Pálmi tengdapabbi og ég vorum vinir. Ég átti minn stað í hjarta hans eins og svo margir aðrir enda vissi tengdapabbi að það er enginn kvóti á kærleikanum. Hann veitti ríkulega af kærleiksbrunninum til fjölskyld- unnar, vina og samferðamanna. Hann vildi öllum vel, var jákvæð- astur allra og gleðigjafi til síðustu stundar. Pálmi hafði ríka kímnigáfu og honum var einkar lagið að sjá spaugilegar hliðar á hlutum sem aðrir sáu ekki. Ég kallaði Pálma eig- inlega aldrei annað en tengdapabba, hann reyndist mér líka sem besti faðir frá fyrstu stundu, hrósaði mér fyrir allt sem ég gerði jafnvel minnsta viðvik. Hann lét mann fá á tilfinninguna að maður væri einstak- ur og það er eiginleiki sem ekki er öllum gefinn. Pálmi var einn þeirra manna sem setti svip á bæinn sinn. Hann var sterkur persónuleiki sem unni heimabyggð sinni og leit á sig sem fulltrúa hennar hvar sem hann fór. Saga Hvolsvallar og Pálma er sam- ofin í 65 ár, enda var hann meðal þeirra fyrstu sem settist þar að, byggði sér hús, eignaðist fjölskyldu og lifði og starfaði nær alla sína starfsævi. Hann hélt tryggð við allt sitt samstarfsfólk í gegnum tíðina og hafði það í háum metum. Pálmi átti sér mörg áhugamál enda leiddist honum ekki í þau fimmtán góðu ár sem hann átti, eftir að hann hætti að vinna. Þótt hann væri orðinn 85 ára leit hann aldrei á sig sem gamalmenni. Hann taldi t.d. að félagsstarf eldri borgara væri ekki fyrir sig en fór oft að „skemmta gamla fólkinu“ eins og hann orðaði það. Pálmi fór í gönguferðir, hjóla- túra, bíltúra og í sund. Hann hafði einstaklega gaman af því að syngja, orti ljóð, sagði sögur og skrifaði um ýmis sagnfræðileg efni, en sam- göngusaga landsins og bílar voru þar efst á blaði. Ferðalög voru líka áhugamál, ekki síst að ferðast innan- lands, en rútuferðir í útlöndum voru hin besta skemmtun því þá gat hann setið í fremsta sæti og sagt sögur og flutt ljóð, stjórnað fjöldasöng og stytt samferðafólkinu stundirnar. Það var einmitt í slíkri ferð sem hann endaði ævidaga sína, sagði sína síðustu sögu, sáttur við allt og alla. Pálmi vissi vel að hverju stefndi, hann sagði mér áður en hann fór ut- an að nú væru þeir nær allir farnir, gömlu skólafélagarnir frá Laugar- vatni, honum fannst hann orðinn allra kalla elstur þótt hann væri svona lífsglaður og hress. Ég hefði nú kysst hann og knúsað svolítið betur þegar hann fór ef ég hefði vit- að að þetta væri síðasta skiptið sem við kvöddumst. En svona er nú lífið og sem betur fer trúum við því alltaf að á morgun komi nýr dagur. Pálmi var einkar lánsamur í einkalífi sínu. Enga göfugri mann- eskju þekki ég en Margréti tengda- mömmu mína. Hún er æðrulaus og yndisleg og þeirra samband var allt- af jafn fallegt. Börnin þeirra sögðu stundum: „Svei mér þá, ég held bara að hún mamma sé enn þá skotin í honum pabba.“ Og það var satt. Tengdapabbi minn var ákaflega stoltur af sínu fólki. Hann kvað það gæfu hvers manns að eiga góða fjöl- skyldu, börn, tengdabörn og barna- börn voru mikils metin. Þegar barnabörnin komu í heimsókn til afa og ömmu tók hann hlýlega utan um þau klappaði þeim á öxlina og sagði: „Mikið ertu nú að verða myndarleg- ur, Fúsi, það verður nú örugglega eitthvað úr þér.“ Fúsi var samheiti fyrir strákana í fjölskyldunni. Eldhúskrókurinn hlýi á Hvolsveg- inum verður tómlegri án Pálma. Þar sátum við oft saman og borðuðum nýbakaða flatköku með kæfu. Magga að sýsla við eldavélina. Hann laumar hljóðlega litlum bita að hundinum Mola, vini sínum, sem sit- ur hlýðinn undir borði og bíður eftir því að fara með „afa“ í göngutúr. Við fáum okkur sopa af heitu kaffi og hann segir mér sögur og við hlæjum saman. Þessar minningar eru dýr- mætar, andrúmsloftið í eldhúsinu, notalegt viðmótið og kærleikurinn liggur í loftinu. Í dag fékk ég ljóðabók að gjöf frá vinkonu minni, Unni Sólrúnu Braga- dóttur, þar er fallegt ljóð sem heitir Dagrenning: Ef einn þú með sorginni situr þú sérð hve dökkklædd hún er, með brostin augu og bitur og bágindin utan á sér. Bjódd’enni bjartari klæði, brostu til hennar hlýtt, veittu svo voninni næði til að verma allt uppá nýtt. Elsku Magga og fjölskyldan öll. Við getum öll yljað okkur við ómet- anlegar minningar um góðan mann sem nú er genginn. Hann sagði allt- af: „Það er ekki sorg þegar gamla fólkið deyr, en það getur verið sökn- uður.“ Við söknum þín öll, elsku Pálmi, guð geymi þig. Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir. Þeir deyja ungir sem guðirnir elska. Þetta sagði afi Pálmi oft og hló þá jafnan dátt, steinhissa á því hvað hann hafði náð háum aldri. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að í raun hafi hann yfirgefið þetta tilverustig ungur, þvílíkur var lífs- þrótturinn og eljan, allt fram á síð- asta dag. Það var jákvæðni og lífs- gleði sem einkenndi allt hans viðmót. Hann var alltaf snöggur að sjá eitthvað skoplegt við hvaða að- stæður sem upp komu og var hann óspar að gera grín að sjálfum sér. Afi hafði yndi af því að segja sögur og brandara enda hafði hann ógrynni af slíku á takteinum. Sann- leikanum var þá stundum hliðrað að- eins en skemmtanagildið frekar haft í fyrirrúmi. Sumar sögurnar hafði maður heyrt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en alltaf hló maður jafn mikið og enginn hló hærra en afi sjálfur. Aldrei man ég eftir að hafa séð hann öðruvísi en léttan í lund og aldrei heyrði ég hann kvarta. Ég fékk það alltaf sterkt á tilfinn- inguna að afi lifði hvern dag nánast eins og hann væri sá síðasti. Hann vildi sjaldan vera kyrr. Þó heima- kær væri hann, vildi hann vera mik- ið á ferðinni bæði innanlands og ut- an. Þegar hann var heima við fór hann nánast daglega í langa göngu- og hjólatúra. Afi hafði gaman af því að hitta fólk og hikaði hann aldrei við að gefa sig á tal við bláókunnugt fólk á förnum vegi og spyrja það spjörunum úr. Hann virtist eiga auðvelt með að ná til fólks með létt- leika sínum og húmor. Þegar ég var á mínum unglingsárum þótti mér þetta stundum erfitt þegar hann vatt sér að kunningjunum. „Hverra manna ert þú? Hvað gerir hann?“ Þannig hélt hann áfram lengi. Með auknum þroska hef ég síðar dáðst að þessari framhleypni og hefði ég gjarnan viljað tileinka mér þennan eiginleika þó sennilega sé ég ekki þannig að upplagi. Afi var mjög fróðleiksfús. Hann fylgdist alla tíð vel með öllum fréttum og hafði gam- an af lestri góðra bóka, eiga þau hjónin mikið safn bókmennta. Afi vissi alltaf upp á hár hvað hver fjöl- skyldumeðlimur var að fást við hverju sinni, hvort sem það var í námi eða starfi. Fjölskyldan hefur alla tíð sogast að þeim afa og ömmu á Hvolsvelli. Aldrei hefur alvöru samkvæmi verið haldið í fjölskyldunni öðruvísi en að þau væru mætt og var það yfirleitt afi sem hélt uppi fjörinu. Mér er það ógleymanlegt þegar við bræðurnir vorum litlir peyjar í heimsókn á Hvolsvelli. Þessar heim- sóknir voru hreint ævintýri í okkar augum. Amma Margrét bakaði alla daga ýmist pönnsur, snúða, flatkök- ur eða kleinur og afi þvældist með okkur um allt, í vörubíla, vinnuvélar eða lögreglubíla þar sem við fengum að valsa um og fikta að vild. Erfitt átti maður með svefn þegar maður dvaldi ungur á Hvolsvelli þar sem eftirvæntingin fyrir næsta degi var mikil. Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég hef fengið með afa og það veganesti sem ég hef fengið út í lífið frá þeim hjónum. Þau hafa kennt mér að meta það sem mestu máli skiptir í lífinu. Amma hefur alla tíð hugsað einstaklega vel um karlinn sinn. Þau voru miklir vinir sem hlógu saman og gerðu óspart grín hvort að öðru. Guð gefi ömmu styrk til þess að takast á við missinn sem hún hefur orðið fyrir. Í huga okkar munum við geyma fallega minningu um afa Pálma. Sturlaugur Haraldsson. Elsku afi. Það er sárt að kveðja þig. Ég vissi að það yrði sárt. Af minn, ég er full af þakklætir fyrir að hafa átt þig. Þú ert mjög stór hluti af mér og átt stóran þátt í minni þroskagöngu. Þú og amma hafið verið mínir bakhjarlar í gegnum sætt og súrt. Það er margs að minn- ast og margt að þakka. Afi minn, efst í huga mér er þakklætið fyrir allar gleðistundirnar með þér, það var alltaf svo gaman hjá okkur og alltaf mikið hlegið í kringum þig. Minningin um þig er hlátri og lífs- gleði skreytt. Og svo eru það allar gönguferðirnar. Upp um fjöll og firnindi. Oft hönd í hönd. Lækir og girðingar voru ekki hindranir, geng- ið bara beint af augum út í náttúr- una. Af minn, þú hefur kennt mér svo mikið. Mér detta í hug setningar eins og Það er ekki til það sem ekki rætist úr. Að ganga er besta lyfið. Það eru ekki launin sem skipta máli, heldur hvernig þú ferð með. Það skiptir ekki öllu hvaða starfi þú gegnir, heldur hvernig þú sinnir því. Og svo framvegis og svo framvegis. Afi minn, hver á núna að hrósa mér? Hver á að taka hlæjandi á móti mér og hvetja mig ætíð til dáða. Það er auðvelt að dást að þér og ömmu. Svo hafið svo miklu að miðla. Og tilheyr- ið reyndri kynslóð. Kynslóðin sem fer af moldargólfi og á marmara, eins og þú orðaðir það. Gömlu góðu gildin höfð í fyrirrúmi, hlúð að öllu og virðing borin fyrir svo mörgu sem er að gleymast í dag. Þú elsk- aðir þína sveit, þú varst stoltur af þínu og þínum. Sem barn hélt ég að þú værir hér- aðshöfðingi Rangárþings. Það var ekki fyrr en ég var komin vel á full- orðinsaldur að ég áttaði mig á því að þessi titill var hvergi til nema í höfð- inu á mér. Sem krakki var ég svo stolt af því að ganga með þér um bæinn, þú þekktir alla, vinkaðir eins og höfðingi. Klæddur eins og stór- skáldin sem sjást á styttum bæjar- ins. Beinn í baki og fínn. Spurðir ný andlit hvaðan þeir væru og hvert þeir væru að fara. Varst með fing- urinn á púlsinum. Með hatt. Svo varstu alltaf á svo fínum bíl, nýbón- uðum, stundum bónuðum af okkur barnabörnunum. Og svo var farið í bíltúr. Mér fannst flautið þitt að af- loknu verki svo róandi, sem þú gafst frá þér þegar þér leið vel á bónuðum bíl. Í seinni tíð, þar sem ég hef ekki komist til ykkar eins oft og ég hefði PÁLMI EYJÓLFSSON

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.